Ég hef stundum sagt að ég eldi aldrei sama réttinn tvisvar. Það er reyndar ekki alveg rétt en það er ekki algengt að hann verði alveg eins í tvö skipti – ég á satt að segja óskaplega erfitt með að láta það eiga sig að spila af fingrum fram og prófa einhver tilbrigði. Og ykkur að segja hendir það ótrúlega oft að ég uppgötva þegar ég er að hefja eldamennskuna eða í miðju kafi að ég á ekki eitthvað sem stendur í uppskriftinni eða ég hafði ætlað að nota eða það reynist ónothæft eða það sem ég á er ekki alveg eins og eitthvað sem ég hafði áður notað.
Á sumum heimilum væri þetta disaster. En mér finnst þetta oftast nær frábært því það gefur mér hugmyndir til að reyna eitthvað annað og búa til nýjan rétt.
Áðan var ég til dæmis búin að ákveða að nú ætlaði ég að nota tækifærið og plögga kjúklingabókina mína (hún heitir sko Kjúklingaréttir Nönnu ef þið vissuð það ekki og kostar bara 3190 krónur hjá Forlaginu og ögn meira í öðrum búðum, hana, þar er ég búin að plögga) og vera með uppskrift úr henni. Og ég átti kjúklingabringu og hráskinku og eitthvað af basilíku svo að ég ákvað að það væri best að gera bara þennan rétt hérna:
Þessi mynd er reyndar ekki í bókinni, þar er mynd af rúllunum heilum á pönnunni. En þetta var semsagt uppskriftin sem ég ætlaði að fara eftir. Bringurúllur með basilíku og hráskinku í sítrónusósu.
Ég var bara að elda fyrir mig eina en uppskriftin í bókinni er fyrir fjóra. Þessi er fyrir einn en það er ekkert mál að margfalda hana.
Bringan sem ég átti var reyndar óvenju stór og þykk en það var ekki þess vegna sem ég klauf hana í tvennt, það hafði ég líka gert við bringurnar í bókinni þótt þær væru meðalstórar eða líklega aðeins minni en það. Ég setti bringuna semsagt á bretti, lagði lófann ofan á og skar hana í tvennt með beittum hníf.
Svona semsagt. Tókst ekki alveg að hafa helmingana jafnþykka (sem þýddi náttúrlega að þetta voru ekki beint helmingar, en jæja).
Svo tók ég bökunarpappír (má líka vera plastfilma eða álpappír), lagði bringuhlutana á annan helming hans með svolitlu millibili, braut hinn helminginn yfir og bankaði með kökukefli til að fletja kjúklinginn dálítið út. Það má líka nota buffhamar eða glerkrukku eða bara eitthvað en um að gera að berja ekkert of fast, kjúklingurinn á ekkert að fara í tægjur.
Þegar ég var að gera þetta í vor var ég með hráskinku úr pakka, næfurþunnar og reglulegar sneiðar. Núna átti ég fjórar – eða voru þær sex? – sneiðar af parmaskinku sem ég hafði keypt í kjötborði fyrir nokkrum dögum og sneiðarnar klesstust dálítið saman – sem mér fannst nú ekkert verra því þá var þetta bara þykkari og meiri hráskinka. Ég lagði þær á pappírinn hjá bringunum – þær rifnuðu töluvert þegar ég tók þær úr pappírnum sem þær voru vafðar í en ég lagði þær bara saman aftur í rétthyrninga, álíka stóra og skinkuhelmingarnir voru.
Ég lagði bringuhelmingana ofan á skinkuna og kryddaði með pipar og salti. Í vor þegar ég var að elda þetta var basilíkan í vatnsræktargarðinum mínum í miklum blóma og sum blöðin voru svo stór að mér dugðu tvö eða í mesta lagi þrjú í hverja rúllu. Núna er hún alveg búin að vera og ég tíndi öll smáblöðin sem eftir voru og stráði þeim yfir (og þarf svo að kaupa ný fræ og sá þeim um helgina til að eiga basilíku eftir nokkrar vikur),
Svo vafði ég bringunum upp í rúllur. Það á ekkert að þurfa að festa þær með tannstöngli eða neinu slíku, skinkan og kjúklingurinn loða alveg saman, en það er best að láta samskeytin snúa niður þegar þær eru settar á pönnuna. – Þessar rúllur urðu töluvert stærri en þær sem eru í bókinni og ekki eins reglulegar, af því að bringurnar voru þykkari og ég notaði meiri skinku.
Ég hitaði svo 1 msk af ólífuolíu og 1 msk af smjöri á pönnu og steikti bringurnar á þremur hliðum í um sex mínútur á hverri hlið, eða 18 mínútur alls. Það á alveg að duga en þær mega vera aðeins lengur, þó ekki mikið.
– Já, og fyrir ykkur sem lásuð um nýja Lodge-pottinn minn á Facebook: þetta er lokið af honum sem ég nota fyrir pönnu. Smellpassaði.
Fram að þessu hafði ég gert allt eins og í uppskriftinni í bókinni (þótt hráefnið væri aðeins öðruvísi og rétturinn liti því dálítið öðruvísi út). Þar er sósa úr kjúklingasoði, bragðbætt með sítrónusafa, og ég hafði eiginlega ætlað að gera hana og hafa svo salat með.
En það rann allt í einu upp fyrir mér að nú var tími fyrir eitthvað vetrarlegra og matarmeira. Það var of seint að fara að sjóða hrisgrjón eða kartöflur eða eitthvað slíkt. En ég skar niður tvo vel þroskaða tómata og opnaði dós af kjúklingabaunum og lét renna af þeim í sigti. Og þegar ég var rétt búin að snúa vefjunum á þriðju hliðina setti ég tómatana á pönnuna, hækkaði hitann aðeins og steikti í 1-2 mínútur og bætti svo við baununum og lófafylli af saxaðri steinselju af því að ég átti hana. Kryddaði með pipar og salti og lét krauma þar til kjúklingurinn var tilbúinn.
Sko, þetta varð nú ekkert mjög líkt upprunalega réttinum, satt að segja. Ekki í útliti allavega. Samt breytti ég engu í uppskriftinni fyrr en í lokin …
En hvorttveggja alveg ljómandi gott, það vantaði ekki.
Uppskriftin er semsagt fyrir einn en afgangurinn dugir mér í nestið á morgun. Ef hún er stækkuð t.d. í 3 bringur ætti þó ekki að þurfa 3 dósir af baunum …
Kjúklingavefjur með hráskinku og basilíku
1 kjúklingabringa, stór
4-6 hráskinkusneiðar
nokkur basilíkublöð
nýmalaður pipar
salt
2 vel þroskaðir tómatar
1 dós kjúklingabaunir
söxuð steinselja (má sleppa)