Mig langaði í eitthvað litríkt og bragðmikið í matinn, dagurinn var eitthvað svo grár og kaldur … og mér fannst ég vera pínulítið utanveltu í dag, vegna þess að það voru allir að tala um þetta fólboltavesen og svoleiðis og áhugi minn á slíku er í núlli. Eða mínus, reyndar. Þegar leikurinn var þarna um daginn sem var víst stærsta stund íslenskrar fótboltasögu eða eitthvað (eða hefði verið það ef Bakarameistarinn hefði ekki komist í málið) var ég að horfa á glæpamynd á einhverri norrænni stöð. Taggart eða Barnaby eða eitthvað. Boltaleikir eru bara ekki minn tebolli.
Ég ætla aftur á móti að horfa á afhendingu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í beinni í norska sjónvarpinu annað kvöld. Svona er fólk nú misjafnt. Og ég er náttúrlega að vona að þau fari til hans Andra, sem er næstum því sessunautur minn í vinnunni, bara eitt glerþil sem skilur okkur að og Valeyrarvalsinn hans er svo yndisleg bók. En ég mun líka fagna mikið ef Hallgrímur Helga fær verðlaunin, enda gefum við hann nú út líka.
En þetta kemur allt í ljós og ég þarf að upphugsa eitthvert góðgæti til að narta í á morgun á meðan ég fylgist með strákunum bíða eftir að tilkynnt verði um sigurvegarann (þetta á víst að vera eitthvað eins og Óskarsverðlaunin núna nema ég vona, ef annarhvor þeirra skyldi vinna, að þeir séu með alminlegar þakkarræður og auðvitað helst að þeir þakki mér).
Á meðan er hér saltfiskuppskriftin, því lífið er saltfiskur þegar öllu er á botninn hvolft.
Þetta var þéttur og fallegur saltfisksbiti af þeirri sort sem kallast hnakki nú til dags og er farinn að ná ansi langt aftur eftir flakinu. Rúmlega 300 g, sem gæti dugað tveimur með góðu meðlæti eins og kartöflum eða hrísgrjónum en er fínn fyrir mig í kvöldmat og nesti til að borða í hádeginu daginn eftir, enda var ég ekki með annað meðlæti en salat og svo auðvitað sósuna eða maukið. Og í það fóru 3 tómatar, 1 rauðlaukur (má vera venjulegur), lófafylli af steinselju (helst fjallasteinselju), 1 hvítlauksgeiri, 2 tsk kapers (ég var með stór korn en það má nota minni), smáklípa af chiliflögum og svona 1/4 tsk svartur pipar. Og 3 msk ólífuolía.
Ég byrjaði reyndar á að leggja saltfiskinn í bleyti í kalt vatn nokkra stund svo að hann yrði ekki of saltur.
Ég byrjaði á að saxa laukinn og hvítlaukinn og svo hitaði ég helminginn af olíunni á pönnu og lét laukana krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til rauðlaukurinn var farinn að mýkjast svolítið.
Svo skar ég tómatana í báta og saxaði steinseljuna (stönglana líka) og setti á pönnuna ásamt kapersinum og lét krauma í 2-3 mínútur; hrærði oft á meðan.
Svo hellti ég svona 100 ml af vatni á pönnuna og hitaði að suðu.
Ég var búin að roðfletta saltfiskinn og skera í nokkra bita og setti þá út í, jós aðeins yfir þá og setti svo lok yfir, lækkaði hitann og lét malla í 6-7 mínútur.
Þegar saltfiskurinn var rétt eldaður í gegn tók ég hann upp úr, setti á fat og lagði lokið yfir til að halda honum heitum.
Hrærði því sem eftir var af olíunni vel saman við maukið á pönnunni og lét sjóða í 1-2 mínútur.
Svo jós ég maukinu og soðinu yfir fiskinn. Soðið var kannski aðeins of mikið af því að ég var bara með salat með en hefði verið alveg mátulegt ef ég hefði t.d. haft hrísgrjón með, nú eða þá kúskús – þá er upplagt að ausa því vel yfir grjónin. Ég átti aðeins meiri steinselju og skreytti með henni.
En ég var bara með græn salatblöð, saltfisk og tómatmauk og jós dálitlu soði yfir. Það var alveg ljómandi gott …
Saltfiskur með tómötum og kapers
saltfiskbiti, 300-400 g
3 msk ólífuolía
1 rauðlaukur
1 hvítlauksgeiri
3 tómatar
2 tsk kapers
lófafylli af fjallasteinselju
1/4 tsk nýmalaður pipar
klípa af chiliflögum
um 100 ml vatn