Vel heppnað markaðsátak

Þegar maður hefur eldað almennilega pottsteik og borðað hana tvo daga í röð er röðin eiginlega komin að einhverju léttara. Reyndar fékk ég mér bara létt salat í kvöldmatinn og það var ekki þess eðlis að ástæða sé til að gefa uppskrift að því. Í staðinn kemur hér uppskrift sem ég var með í fyrsta tölublaði MAN (þriðja tölublaðið var að fara í prentun og þar á ég nokkar uppskriftir sem einhverjar mun hugsanlega koma hér með tíð og tíma).

Ég hef reyndar áður verið með uppskrift – eða líklega uppskriftir – að fylltum portobellosveppum því mér þykja þeir góðir og það er frekar þægilegt að elda þá – þeir henta til dæmis mjög vel sem máltíð fyrir einn (eða tvo). Þeir eru kjötmiklir og þéttir, stórir og flatir og henta vel til fyllingar og það er hægt að nota næstum hvað sem er í hana – alls konar grænmeti, kjötafganga, kjúkling, fisk, baunir, soðin hrísgrjón, bygg og margt annað og krydda með margvíslegu kryddi og kryddjurtum.

Portobellosveppir eru reyndar ekki sérstök tegund, heldur bara afbrigði af venjulegum ætisvepp. Ræktaðir ætisveppir eru bæði til hvítir og brúnleitir og samkvæmt því sem ég hef einhvers staðar lesið höfðu hvítu sveppirnir nærri ýtt þeim brúnu (sem þó þykja bragðmeiri) alveg út af markaðnum í Bandaríkjunum en á hippatímabilinu og þegar fólk fór að fá aukinn áhuga á lífrænni ræktun komust þeir brúnu aftur í tísku og fengu það orð á sig að þeir væru heilnæmari og nær náttúrunni (líklega eitthvað svipað og með hvítu og brúnu eggin). Portobellosveppir eru ekki sérstök tegund eða afbrigði, þeir eru einfaldlega brúnir ætisveppir sem hafa fengið að vaxa mun lengur en hinir – raunar var þeim lengi hent eða sveppabændurnir borðuðu þá sjálfir því þeir gátu ekki selt þá. Þeir komust skyndilega í tísku á síðasta áratug 20. aldar, voru nær óþekktir fyrir 20 árum en eru nú afar vinsælir. Kannski fékk einhver snjall markaðsmaður þá hugmynd að skella á þá flottu nafni og selja sem nýja tegund …

Uppruni nafnsins (stundum portabella) er óviss en það hefur verið tengt því að mjög margir bandarískir sveppabændur eru af ítölskum ættum. Elsta þekkta dæmið um notkun nafnsins er frá 1990 og þá í Bandaríkjunum. Ein sagan segir að sveppirnir séu kenndir við Portobello Road-markaðinn í London því þar hafi þeir fyrst verið seldir í Englandi en engin heimild er um nafnið þar sem er eldri en sú bandaríska. Á Ítalíu er sagt að sveppirnir hafi fengið nafn af vinsælum sjónvarpsþætti.

Hvað sem þessu öllu líður eru portobellosveppir fínasta hráefni sem hægt er að nota á ýmsa vegu. En ég ákvað semsagt að fylla þá.

Ég byrjaði á að tína til hráefnið sem ég ætlaði að nota: tvo portobellosveppi, tvo tómata, tvo vorlauka, hálfa dós af smjörbaunum (átti þær til en svo má líka nota aðrar baunir, til dæmis nýrnabaunir eða kjúklingabaunir), einn hvítlauksgeira, lófafylli af spínati, nokkur basilíkublöð en það má sleppa þeim ef maður á þau ekki, eina kúlu af ferskum mozzarellaosti, 2-3 msk af nýrifnum parmesanosti, ólífuolíu, pipar og salt. Kveikti svo á ofninum og hitaði hann í 200°C.

IMG_8708

Ég tók sveppina, skolaði þá og þerraði vel (já, það má alveg þvo sveppi, ég hef skrifað um það áður). Tók svo leggina úr þeim og geymdi en penslaði sveppahattana með svolítilli olíu og setti þá á hvolf í lítið, eldfast mót. Svo skar ég tómatana í tvennt, skóf fræin og safann úr þeim með skeið (notaði það ekki) og saxaði svo tómatkjötið fremur smátt. Saxaði líka sveppaleggina, vorlaukinn og hvítlaukinn.

Síðan hitaði ég afganginn af olíunni á pönnu og lét  tómata, sveppaleggi, vorlauk og hvítlauk krauma í henni við nokkrar mínútur.

IMG_8711

Hellti baununum í sigti, lét renna af þeim og setti þær svo á pönnuna ásamt spínatinu og basilíkunni, ef hún er notuð. Kryddaði með pipar og salti og lét krauma í 1-2 mínútur.

IMG_8714

Ég hrúgaði svo fyllingunni í sveppahattana. Þetta ætti alveg að rúmast vel í tveimur sveppum en það fer auðvitað svolítið eftir stærð þeirra. En það má alveg vera góður kúfur á þeim.

IMG_8717

Ég skar mozzarellaostinn í fremur þykkar sneiðar og lagði þær ofan á. Reif svo parmesanostinn á fínu rifjárni og hrúgaði yfir. Svo setti ég fatið í ofninn (ofarlega) og bakaði sveppina í 15 mínútur. Stillti þá á grill og hækkaði hitann.

IMG_8726

Bakaði svo sveppina áfram í nokkrar mínútur, þar til osturinn hafði tekið góðan lit.

IMG_8819

 

Alveg ágætis máltíð bara, til dæmis með grænu salati og góðu brauði.

 

Portobellosveppir með baunum og spínati 

2 portobellosveppir

2 msk ólífuolía

2 tómatar

2  vorlaukar

1 hvítlauksgeiri

½ dós smjörbaunir eða aðrar baunir

lófafylli af spínati

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

pipar

salt

1 mozzarellakúla

2-3 msk nýrifinn parmesanostur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s