Matur handa Gissuri

Ég átti erindi í Kringluna fyrir helgi og kom við í Hagkaup. Þar stóðu yfir amerískir dagar. Ég sá reyndar afar fátt því tengt sem freistaði mín en þegar ég gekk fram hjá kjötkælinum rak ég augun í nautabringu og ákvað að það sem það væri nú að koma helgi væri upplagt að kaupa hana og elda á laugardaginn fyrir fjölskylduna ef þau vildu koma í mat. Nautabringa er nefnilega ekki eitthvað sem maður kaupir á leiðinni heim úr vinnunni til að hafa í kvöldmatinn, ónei.

En hún var ódýr, rúmlega þúsundkall kílóið – ég hefði reyndar helst viljað einn stóran bita en fann engan slíkan svo ég keypti þrjá minni, um1700 g alls, og borgaði eitthvað 1900 krónur fyrir.

Og svo keypti ég blómkál.

Ég veit ekki hvort þið sem yngri eruð kannist við myndasöguna um Gissur Gullrass, sem birtist í Vikunni áratugum saman og er þýðing á amerísku myndasögunni Bringing up father. Gissur (Mr. Jiggs á frummálinu) var upphaflega írsk-amerískur byggingarverkamaður sem vann milljónir í happdrætti og varð allt í einu ríkisbubbi sem neyddist til að haga sér sem slíkur og umgangast fínt fólk og semja sig að háttum þess en vildi í rauninni helst af öllum hanga með gömlu vinunum. Það mátti Rassmína kona hans ekki heyra nefnt og verst af öllu var henni við uppáhaldsmat eiginmannsins, afar alþýðlegan rétt sem kallast ,,corned beef and cabbage“ en er sumstaðar þekktur undir nafninu Jigg’s dinner og kenndur við Gissur. Kallast einnig gjarna New England boiled dinner.

Í þýðingunni var þetta, þegar ég man eftir, kallað uxabringa og blómkál en hafði áður gjarna verið nefnt uxabringa og toppkál og stundum hvítkál. Kjötið í réttinum er saltað nautakjöt, reyndar gjarna bringa, en kálið er oftast hvítkál þótt ýmsar aðrar tegundir af soðnu grænmeti séu oft hafðar með. En fyrir mér er nautabringa – eða uxabringa – órjúfanlega tengd við blómkál. Og auðvitað við Gissur.

Svona bringubitar eru gjarna eldaðir í einhverri barbecuesósu en þar sem fjölskyldan var að koma í mat og hluti hennar borðar ekki sykur var það ekki málið, enda passar slík matseld ekkert tiltakanlega vel við blómkál og soðið grænmeti og er ekki mjög Gissurarlegt. Ef þetta hefði verið söltuð bringa hefði ég bara soðið hana – það hefði Gissur gert (eða mútað eldabuskunni til að gera þegar Rassmína var ekki heima) en hún var ósölt svo ég ákvað að ofnsteikja hana bara.

IMG_5085

Þetta er gróft kjöt með miklum bandvef og afar langt frá því að vera meyrt svo að það þarf langa, hæga, raka steikingu við vægan hita. Ég byrjaði matseldina um eða upp úr klukkan þrjú.

IMG_5092

Ég byrjaði á að krydda kjötið á báðum hliðum með nokkuð miklum, grófsteyttum svörtum pipar og flögusalti. Kveikti um leið á ofninum og stillti hann á 140°C.

IMG_5097

Ég hitaði 2 msk af olíu í stórum, þykkbotna potti sem má fara í ofn (ef slíkur pottur er ekki til má nota pönnu og færa svo allt saman yfir í eldfast mót áður en það er sett í ofninn) og brúnaði kjötið á báðum hliðum við góðan hita. Tók það svo upp úr og setti á disk.

IMG_5100

Ég var búin að skera niður tvo lauka og setti þá í pottinn og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur. Á meðan skar ég 250 g af gulrótum og 2-3 sellerístöngla í bita og setti þá svo út í, ásamt nokkrum lárviðarlaufum (má sleppa ef maður á ekki lárviðarlauf en þau er til bóta) og lét krauma í 2-3 mínútur í viðbót.

IMG_5109

Svo setti ég kjötið ofan á grænmetið (ef maður á ekki hentugan pott er grænmetið fyrst fært yfir í stórt eldfast fat sem gott er að vera búinn að hita í ofninum áður) og stráði grófsöxuðum nálum af 2 rósmaríngreinum yfir (þessu má líka sleppa en það gefur samt betra bragð). Svo breiddi ég álpappírsörk yfir kjötið, setti þétt lok á pottinn og stakk honum í ofninn. Ef maður er með eldfast fat og það er ekki lok á því er best að vefja álpappír vel utan um svo það verði nokkuð þétt.

IMG_5113

Ég setti engan vökva í pottinn, þess á ekki að þurfa, allavega ekki ef lokið er þétt. Vökvinn kemur úr grænmetinu og eitthvað úr kjötinu. Hér má sjá ofan í pottinn eftir svona 2 tíma. En ég hafði kjötið í svona 2 1/2 tíma í ofninum, eða þar til prjónn sem stungið var í það gekk í gegn eins og stungið væri í lint smjör. Það má líka hafa hitann enn lægri og tímann lengri.

IMG_5120

Ég skildi þykkasta bitann eftir þegar ég bar hina fram með kartöflustöppu, soðnu blómkáli (auðvitað), spergilkáli og hvítkáli, auk sósu sem ég gerði úr soðinu (soðið og grænmetið í pottinum, dálítið vatn til að þynna það því það var mjög kraftmikið, þykkt aftur með ögn af hveitijafningi en sósan á að vera þunn). Tók þess vegna engar myndir nema þessa hér og þarna má sjá bæði hvað kjötið er gróft og að það hefði verið auðvelt að rífa það allt í sundur í tægjur með göfflum.  En þetta var afbragðsmatur á kuldalegum fyrsta vetrardegi.

IMG_5153

Þykkasti bitinn var vel meyr en þó ekki þannig að hann færi auðveldlega í tægjur eins og hinir.

IMG_5179

En kjötið var alveg ágætt með grænmetinu og sósunni. Og mér fannst að þetta yrði að vera á gamaldags diski.

IMG_5191

Gissur hefði held ég alveg verið sáttur.

Uxabringa og blómkál – með meiru

(fyrir svona 6 manns)

nautabringa, 1,5-1,7 kg

grófmalaður pipar

salt

2 msk olía

2 laukar

300 g gulrætur

2-3 sellerístönglar

3-4 lárviðarlauf (má sleppa)

nálar af 2 rósmaríngreinum (má sleppa)

svolítið vatn

hveiti eða sósujafnari eftir þörfum

blómkál, spergilkál, hvítkál eða annað grænmeti

kartöflustappa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s