Þegar ekkert er til

Ég mátti ekki vera að því að fara í búð á heimleiðinni en hélt það gerði nú lítið til því ég var alveg viss um að ég hefði tekið fiskbita úr frystinum áður en ég fór í vinnuna í morgun. En þegar ég kom heim og opnaði ísskápinn var þar enginn fiskur – hann var enn í frysti. Svona kemur stundum fyrir mig, sérstaklega ef ég ætla að gera eitthvað snemma morguns. Ég er bara ekki morgunmanneskja og ekki alveg komin í gang fyrir klukkan átta.

Ojæja, það hlaut að vera eitthvað til, hélt ég. Kannski beikon eða einhver kryddpylsa og ýmiss konar grænmeti í pottrétt eða súpu. Eða grænmeti í eggjaköku – ég átti allavega egg. Eða kannski gæti ég bakað pönnukökur og fyllt þær með hrísgrjónum og einhverju grænmeti og stöffi. Eða …

En nei, ekkert beikon eða annað slikt til. Grænmetisúrvalið í algjöru lágmarki og það sem var til ekkert alveg spánnýtt (ég hef ekki farið í búð mestalla vikuna). Æjá, og hveitið kláraðist þegar ég bakaði apríkósuköku fyrr í vikunni (uppskrift að henni kemur seinna) og heilhveitið var búið líka. Já, og hrísgrjónin. Verð að fara að gefa mér tíma í búðarferð.

Svo ég athugaði jarðsjálftabirgðirnar. Það eru niðursuðudósirnar sem eru á neðstu hillu í búrskápnum. Kallast þetta vegna þess að fyrir ótalmörgum árum þegar börnin mín spurðu hvers vegna ég ætti alltaf slatta af dósamat sagði ég að maður yrði að vera viðbúin ef kæmi Suðurlandsskjálfti eða eitthvað svoleiðis og allt færi á hvolf. Það er misjafnt hvað er í jarðskjálftabirgðnum en allavega oftast tómatar og ýmsar tegunir af baunum og ýmsu öðru grænmeti, stundum ávextir og fleira. Og þarna fann ég túnfiskdós og dós af smjörbaunum. Það má nú gera eitthvað úr því og ég náði í eitthvað af því fátæklega grænmeti sem til var, því ég ákvað að gera túnfiskbuff.

Uppskriftin mundi duga fyrir tvo.

IMG_5045

 

Þarna var ég semsagt með eina dós af túnfiski í olíu (má nota túnfisk í vatni en þessi er betri og svo þarf hvort eð er aukaolíu því ég steikti upp úr olíunni úr dósinni), hálfa dós af smjörbaunum eða öðrum ljósum baunum, t.d. kjúklingabaunum, hálfa rauða papriku (stóra), tvo eða þrjá vorlauka sem voru ekki alveg ferskir en þó ekki farniðr að skrælna, einn hvítlauksgeira (mega vera tveir), 100 ml af raspi (ég notaði panko, má vera venjulegt), eitt egg, bita af parmesanosti (svona 20-25 g, en má reyndar sleppa) og krydd – ég var með 1 tsk af paprikudufti, 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salt.

IMG_5047

 

Ég náði í matvinnsluvélina (má líka nota blandara) og setti baunirnar í hana (var búin að hella vökvanum af þeim). Saxaði hvítlaukinn smátt og skar vorlaukinn í bita  (tók frá nokkra græna blaðenda, bara til að setja í seinast og fá meiri lit í buffin) og setti út í, ásamt öllu kryddinu. Setti vélina af stað og maukaði þetta nokkuð vel.

IMG_5050

 

Svo reif ég ostinn og setti hann út í, ásamt brauðmylsnunni og egginu, og þeytti þessu saman við.

IMG_5056

 

Ég skar paprikuna í bita og setti út í ásamt túnfiskinum og vorlauksblöðunum sem ég hafði tekið frá og hrærði þetta saman við en nú notaði ég bara púlshnappinn á vélinni þvi ég vildi hafa blönduna pínulítið grófa og rauða og græna bita í henni. Það má líka setja baunablönduna í skál, stappa túnfiskinn saman við og saxa papriku og vorlauk fremur smátt og setja út í. Ef farsið er mjög blautt má bæta við aðeins meiri brauðmylsnu.

IMG_5059

Ég smakkaði farsið (það er ekkert hrátt í því nema eggið en það má líka steikja litla prufubollu til að smakka) og bætti við dálitlum pipar, það má alveg vera nokkuð vel kryddað. Skipti því svo í sex hluta og mótaði buff úr hverjum þeirra, svona 1-1 1/2 cm þykkt. Hitaði olíuna úr túnfiskdósinni (eða 1-2 msk af annarri olíu) á pönnu og setti buffin á hana.

IMG_5063

 

Steikti þau við ríflega meðalhita í svona 2-3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þau voru fallega brún og stökk; sneri þeim einu sinni.

IMG_5077

 

Ég lét salat og tómata duga með, ásamt sítrónubát, líka mætti hafa t.d. soðin hrísgrjón. Ég sleppti sósu en það væri upplagt að hafa kalda sósu úr kryddaðri jógúrt eða sýrðum rjóma með einhverjum kryddjurtum. Eða kannski tzatziki.

 

Túnfisk- og baunabuff

1 dós túnfiskur í olíu

1/2 dós smjörbaunir

1 hvítlauksgeiri

2-3 vorlaukar

1 tsk paprikuduft

1/2 tsk þurrkað timjan

pipar (ekkert vera að spara hann)

salt

1 egg

100 ml brauðrasp (Panko eða annað) eða eftir þörfum

20-25 g parmesanostur (má sleppa)

1/2 stór paprika (eða 1 lítil)

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s