Kjúklingaréttur Nönnu, og þó ekki

Ég ætti náttúrlega að vera rosa dugleg hér að plögga nýju bókina mína og segja ykkur hvað hún er æðisleg og frábær og allt það. Og það kemur örugglega að því og kannski birti ég hér einhverjar uppskriftir úr bókinni seinna. En ég er frekar lélegur plöggari og treysti því nú yfirleit að fólk átti sig bara á því sjálft að ég skrifa ágætis matreiðslubækur …

Mér fannst allavega vænt um skilaboð sem ég fékk um daginn frá sjö ára stúlku sem hafði verið að elda upp úr kjúklingabókinni, um að hún Nanna skrifaði rosalega flottar bækur og það væri rosalega auðvelt að elda eftir þeim og maturinn væri rosalega góður. Þetta fannst mér rosalega gott að heyra því það eru einmitt svona bækur sem ég vil skrifa.

En hér er uppskrift að kjúklingarétti sem ég eldaði mér fyrr í vikunni og hún er bara ekkert úr bókinni svo það er kannski glatað plöggtækifæri. Hún er samt alveg í stíl við margar uppskriftir úr bókinni, frekar einföld og fljótleg og – já, bara nokkuð góð. Og aðgengileg. Mig minnir að einhver hafi verið að kvarta um daginn yfir ofnotkun á orðinu aðgengilegur í káputextum og auglýsingum á bókum. Og það er vissulega ofnotað en ég get ekkert að því gert þótt ég skrifi bækur og uppskriftir sem fólk vill gjarna lýsa sem aðgengilegum – því ég er einmitt að reyna að hafa þær þannig.

Allavega kemur hún hér. Ég var bara ein í mat og átti eina kjúklingabringu svo að þetta er augljóslega uppskrift fyrir einn (með afgangi sem dugði mér í nestið daginn eftir) en það er ekkert mál að stækka hana að vild. Samt ekki víst, ef t.d. eru notaðar 4 kjúklingabringur, að það þurfi að fjórfalda maríneringuna og sósuna – þreföldun ætti að duga, mundi ég halda.

IMG_4974

 

Kjúklingabringan  var afgangur sem var – ja, eiginlega komin á ,,elda eða henda“-stigið, það er að segja – enn í lagi en hefði ekki verið það daginn eftir. Þriðji möguleikinn væri reyndar að setja hana í frysti en þar sem hún hafði þegar verið fryst einu sinni var það kannski ekki málið.

Ég gáði í skápana til að fá hugmyndir fyrir eldamennskuna og tók fram hnetusmjör (100 g – ég notaði gróft en það má líka vera fínt), 1 1/2 msk af sojasósu, 1 msk hvítvínsedik, 1 tsk þunnt hunang, 1 límónu, bita af engifer, 2 hvítlauksgeira og 1 rautt chilialdin (þetta var hálfþurrkað). Og kjúklingabringuna auðvitað.

IMG_4975

 

Það er ágætt (en ekki bráðnauðsynlegt) að byrja með allavega klukkutíma fyrirvara svo kjúklingurinn fái tíma til að marínerast en ef maður er í tímaþröng dugir að láta hann liggja í maríneringunni í svona korter.

Í maríneringuna fór sirka þriðjungurinn af hnetusmjörinu, helmingurinn af sojasósunni og edikinu (en ekki hunagið), annar hvítlauksgeirinn, helmingurinn af engifernum og hálft chilialdin. Rifinn börkur af límónunni og helmingurinn af safanum.

IMG_4980

Ég saxaði hvítlauk, engifer og chili og hrærði allt í maríneringuna saman í skál þar til blandan var slétt.

IMG_4981

 

Ég tók kjúklingabringuna og skar hana þvert yfir í svona sentímeters breiða strimla.

IMG_4986

 

Setti kjúklinginn svo út í maríneringuna og blandaði vel saman. Það er best ef þetta er látið standa í 1-2 klst., eða allt að hálfan sólarhring í kæli, en það má semsagt láta styttri tíma duga.

IMG_4992

 

Svo hitaði ég pínulitlu grillpönnuna mína vel (auðvitað má nota stærri grillpönnu, eða bara venjulega pönnu) og setti svolitla olíu á hana. Raðaði svo kjúklingnum á hana. Eins og sést á reyknum var hún vel heit. Ég lækkaði undir henni og grillsteikti kjúklinginn við meðalhita í svona 3-4 mínútur á hvorri hlið.

Á meðan setti ég afganginn af hnetusmjörinu í lítinn pott ásamt smáskvettu af vatni. Bætti við afganginum af sojasósunni og edikinu ásamt hunanginu og saxaði svo það sem eftir var af hvítlauk, engifer og chili smátt og setti út í. Kreisti safa úr hálfri límónu saman við, hitaði að suðu, hrærði vel og lét malla í nokkar mínútur við mjög hægan hita; þynnti aðeins með vatni eftir þörfum, smakkaði og bragðbætti aðeins.

IMG_5004

 

Þegar kjúklingastrimlarnir voru gegnsteiktir tók ég þá af pönnunni (það er vel líklegt að töluvert verði eftir af maríneringunni á pönnunni, ég lét hana bara eiga sig) og setti þá á disk með soðnum hrísgrjónum og grænu salati og bar fram með sósunni.

IMG_5024

 

Og svo er bara að ausa sósunni yfir og njóta.

 

Kjúklingastrimlar með hnetusósu

1 kjúklingabringa

100 g hnetusmjör (ég notaði gróft)

1 1/2 msk sojasósa

1 msk hvítvínsedik

3 cm biti af engifer

2 hvítlauksgeirar

1 límóna

1 chilialdin

1 tsk hunang

svolítil olía á pönnuna

vatn eftir þörfum

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s