Rautt, grænt og gott

Ég var með matarboð um daginn sem var myndað fyrir Sunnudagsblað Morgunblaðsins og uppskriftirnar birtust svo þar. Þetta var reyndar í tilefni af útgáfu kjúklingabókarinnar minnar – eru ekki annars allir örugglega búnir að eignast hana? – og forrétturinn og aðalrétturinn voru úr henni. En það eru náttúrlega engir eftirréttir í þeirri bók svo að ég þurfti að hafa eitthvað annað. Það vildi reyndar svo til að litirnir í kjúklingaréttunum voru rautt og grænt – rauð taílensk kjúklingasúpa með kóríanderlaufi og kjúklingabringur með trönuberjum og graskersfræi – svo að ég ákvað að hafa það bara sem þema og hafa eftirréttinn rauðgrænan líka.

Það var úr að ég gerði tvenns konar ís, hárauðan og ljósgrænan. Eða ís og sorbet, öllu heldur. Ég hafði áður búið til basilíkuís sem gerði töluverða lukku og ákvað að vinna út frá honum en breytti uppskriftinni þó nokkuð því þá notaði ég meðal annars skyr í ísinn. Núna var hann aðeins hefðbundnari en þó mjög óvenjulegur – það er að segja bragðið.

Ég tók því miður engar myndir af því þegar ég var að gera ísana svo þetta eru bara plein uppskriftir.

IMG_4904

Í basilíkuísinn notaði ég 1 bakka af basilíku (40-50 g), 1 sítrónu, 1 límónu, 3 egg, 150 ml þunnt hunang og 250 ml af rjóma. Ég byrjaði á að klípa alla sveru stilkana af basilíkublöðunum og setti þau svo í matvinnsluvél , reif börkinn af sítrónunni og límónunni yfir og kreisti safa úr hálfri sítrónu og hálfri límónu út í. Lét vélina svo ganga þar til basilíkan var fínsöxuð.

Svo þeytti ég egg og hunang mjög vel saman og stífþeytti rjómann í annarri skál. Blandaði eggjablöndu, rjóma og basilíkumauki saman. (Ef maður vill hafa ísinn grænni má alveg setja nokkra dropa af grænum matarlit út í.). Ég hellti svo blöndunni í ísvél og lét hana ganga þar til blandan hafði þykknað en þá setti ég hana í skál og frysti hana. – Ísvél er náttúrlega sjálfsögð eign á hverju menningarheimili en ef maður á ekki svoleiðis má setja blönduna beint í skál eða form og frysta en  þá er gott að hræra nokkrum sinnum í á meðan hún er að frjósa til að koma í veg fyrir að ísnálar myndist.

Svo var það hindberja-rifsberjasorbetið:

IMG_4894

Ég átti frosin hindber (keypt) og rifsber (úr garði vinkonu) og notaði 225 g af hindberjunum og 250 g af rifsberjum. Einnig 100 ml af vatni, 150 g af sykri, safa úr 1/2 sítrónu (það var einmitt eftir hálf frá því að ég gerði basilíkuísinn) og 1 tsk af vanilluessens (eða korn úr 1/2 vanillustöng).

Ég setti hindber, rifsber, vatn og sykur í pott, hitaði að suðu og lét malla í 10 mínútur við vægan hita. Svo setti ég fínt sigti yfir skál, hellti öllu úr pottinum í það og notaði sleif (eða sleikju) til að pressa sem allra mest af safa og aldinkjöti úr berjunum. Kældi löginn svo vel – það má flýta fyrir sér með því að setja skálina ofan í vask eða aðra skál með ísköldu vatni og skipta e.t.v. um vatn nokkrum sinnum.

Þegar lögurinn var ískaldur hrærði ég sítrónusafa og vanillu saman við hann, hellti honum svo í ísvélina og lét ganga þar til sorbetið var orðið þykkt. Setti það þá í skál og frysti. Ef ekki er til ísvél má setja blönduna beint í frysti en þá er nauðsynlegt að hræra vel í henni nokkrum sinnum á meðan hún er að frjósa.

IMG_4859

Ég tók bæði basilíkuísinn og sorbetið úr frysti nokkru áður en ég bar það fram til að láta það mýkjast dálítið svo hægt væri að skafa það upp með skeið (ísskeið ef hún er til, annars matskeið). Setti eina vel kúfaða skeið á hvern disk og skreytti með ferskum hindberjum og litlum basilíkulaufum af því að ég átti þetta til en það má líka sleppa því eða skreyta með einhverju öðru.

IMG_4887

 

Þetta er nú dálítið fallegt, er það ekki? Og þessar ólíku bragðtegundir fara alveg hreint ótrúlega vel saman í munninum.

 

Basilíkurjómaís 

40−50 g basilíka (1 bakki)

1 sítróna

1 límóna

3 egg

150 ml þunnt hunang

250 ml rjómi

 

Hindberja-rifsberjasorbet

225 g hindber (frosin)

250 g rifsber (fersk eða frosin)

100 ml vatn

150 g sykur

safi úr ½ sítrónu

1 tsk vanilluessens eða korn úr ½ vanillustöng

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s