Ég er ekkert komin í jólaskap, neinei, ekkert svoleiðis, en er samt aðeins að leiða hugann að jólunum þessa dagana vegna þess að ég er að velta fyrir mér hvað ég á að útbúa fyrir jólablað MAN – þegar tímarit eru annars vegar þarf að hugsa aðeins fram í tímann og maður getur orðið svolítið tímavilltur. Hérlendis er þó sjaldan unnið jafnlangt fram í tímann og á ýmsum erlendum matartímaritum, þar sem jólablaðið var kannski fullunnið í júní – og e.t.v myndað í desember í fyrra. Ég á reyndar von á bandarískri matarblaðakonu um jólaleytið, hún er væntanlega að viða að sér efni fyrir jólablaðið 2014.
Þegar ég var á Gestgjafanum dreymdi mig oft um að vinna langt fram í tímann en tókst það bara einu sinni – ég gerði þátt um rabarbara og eldaði og myndaði það marga rétti að það var hægt að skipta honum í tvennt og birta helminginn vorið eftir. Draumurinn var alltaf að gera meira af þessu, mynda t.d. efni fyrir grillblaðið að sumri til svo maður þyrfti ekki að standa skjálfandi í skítakulda í apríl og reyna að láta myndirnar sýna sumar og sól og fleira af því tagi. En það var alltaf svo mikið að gera og naumur tími fyrir hvert blað og þetta tókst aldrei. Reyndar man ég að einu sinni mynduðum við brúðkaupsveislu að sumri til fyrir brúðarblað Gestgjafans, sem átti að koma út snemma næsta vors, fengum uppskriftir og allt og vorum kátar með að eiga þetta efni til – en svo varð hjónabandið mjög endasleppt, brúðhjónin voru löngu skilin þegar við fórum að vinna blaðið og ekki hægt að nota efnið. Svona fór það nú stundum.
Kannski reyni ég að vera ægilega fyrirhyggjusöm núna og mynda eitthvað um jólaleytið sem ég get þá notað seinna, annaðhvort í jólablaðið 2014 ef ég verð enn að skrifa í MAN eða þá eitthvað annað – eða bara hér á blogginu. Það er gott að hafa eitthvað að grípa til, ekki síst þegar birtan er orðin eins og núna svo ég hef eiginlega bara helgarnar til að taka almennilegar myndir af því sem ég er að elda. Og núna á ég auðvitað efni sem þegar hefur komið í blaðinu þótt ég stefni ekki á að setja allar uppkriftir sem ég birti þar hér inn.
En ég ætla allavega að gera það núna. Hér er uppskrift sem birtist í 1. tbl. og var helgarmaturinn minn einhverntíma í ágúst, en á alveg eins vel við aðrar árstíðir. Það er þægilegt fyrir einbúa að kaupa og elda lambalundir, hægt (ef maður er í návígi við kjötborð) að fá skammt fyrir einn og þótt þetta sé dýrt hráefni fyrir heila fjölskyldu er hægt að láta það eftir sér þegar maður er einn … Og ennþá frekar ef notaðar eru kindalundir, sem eru nú alveg ágætar líka og eiginlega ekki síðri. Þær eru töluvert ódýrari. Það er hægt að kaupa eina lund eða tvær og gera úr þeim afar girnilegan og góðan rétt með lítilli fyrirhöfn.
Sem var einmitt það sem ég gerði.
Ég hafði semsagt keypt tvær kindalundir (en það má auðvitað líka nota lambalundir) og svo var ég með 1 tsk af dijonsinnepi, 2 rósmaríngreinar, 25 g pekanhnetur, 1 msk sesamfræ, nokkrar fjallasteinseljugreinar (má sleppa), pipar og salt. Og olíu og smjör til að steikja.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C og svo snyrti ég lundirnar og skar burtu himnur.
Svo kryddaði ég lundirnar með ögn af pipar og salti og smurði sinnepinu á þær. Lét þær liggja í nokkrar mínútur.
Ég tók nálarnar af rósmaríninu og geymdi stönglana. Setti rósmarínnálar, hnetur, sesamfræ, steinselju og svolítið af pipar og salti í matvinnsluvél eða blandara og grófsaxaði (það má líka saxa allt smátt með hníf og blanda saman). Stráði svo blöndunni á disk.
Ég velti svo hvorri lund fyrir sig vel upp úr hnetublöndunni og þrýsti kjötinu aðeins niður til að festa hneturnar betur.
Ég rúllaði lundunum upp eins og kanelsnúðum og stakk rósmaríngrein í gegnum hvora um sig. Kjötið er svo meyrt að það á ekki að vera neitt mál en það má líka byrja á að stinga prjóni í gegn til að gera gat – eða nota grilltein í stað rósmaríngreinarinnar. Ef eitthvað er eftir af hnetublöndunni má svo þrýsta hvorri rúllu um sig aftur niður í hana.
Ég bræddi 1 msk af smjöri og 1 msk af olíu á pönnu og brúnaði rúllurnar við góðan hita í 2 mínútur á hvorri hlið. Svo stakk ég pönnunni í ofninn í um 5 mínútur. Auðvitað má líka setja þær í eldfast fat (sem er þá gott að hita í ofninum áður).
Best er að láta rúllurnar bíða í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram.
Með þessu er gott að hafa kúskús en einnig mætti hafa kartöflur og soðið eða bakað grænmeti, eða t.d. maís og spergilkál.
Hnetuhjúpaðar lundir
2 kinda- eða lambalundir
1 tsk dijonsinnep
2 rósmaríngreinar
25 g pekanhnetur
1 msk sesamfræ
nokkrar steinseljugreinar (má sleppa)
pipar
salt
olía og smjör til steikingar