Fokkbrauð

Ég bakaði mér einu sinni sem oftar focacciabrauð á dögunum. Fokkbrauð, eins og einhver kallaði það einu sinni í mín eyru. Afskaplega þægilegt og auðvelt brauð, ég tala nú ekki um ef maður á deigið tilbúið í ísskápnum. Focaccia er flatt ítalskt gerbrauð (en kannski ekki beint flatbrauð) og er oft með einhverju áleggi og fólk spyr stundum hvort þetta sé ekki bara afbrigði af pítsu, eða hver sé eiginlega munurinn – ætli svarið sé ekki að það fari kannski eftir því hvar á Ítalíu maður er. Á Norður-Ítalíu eru pítsurnar þunnar og innihalda lítið ger og deigið er hnoðað og það þétt að það drekkur ekki í sig olíu eins og focacciadeig, sem er það gljúpt og þunnt að olían sígur inn í það í bakstrinum og gerir það mjúkt og rakt. En á Suður-Ítalíu og ég tala nú ekki um á Sikiley er gjarna notað meira ger í pitsurnar og botnarnir þykkari og þar er munurinn á pítsu og focaccia ekki endilega mikill.

En mig langaði ekkert í pítsu. Mig langaði í focaccia. Og ég átti deig í ísskápnum sem vel mátti hafa til þess, þótt það væri reyndar ekki alveg hefðbundið og innihéldi fimm korna blöndu.

Ég skal nú alveg játa það að ég er ekkert alveg viss um hvað var í deiginu – eða jú, ég veit það reyndar nákvæmlega en er ekki alveg klár á hlutföllunum á milli vatns, hveitis og heilhveitis og ég var líka búin að nota helminginn af því í annað (allt öðruvísi) brauð áður. En ég gæti trúað að deigið (alltsvo það upphaflega) hafi verið um 750 ml ylvolgt vatn, 1 msk hveiti, 1 msk salt, svona 250 g af heilhveiti, 100 g af fimm korna blöndu og – ja, líklega svona 600-650 g af brauðhveiti, bara eins og þarf til að búa til lint og rakt deig sem er ekki hægt að hnoða en hægt að taka aðeins á með vel hveitistáðum höndum – ég hef lýst þessu oft, til dæmis hér, en deigið sem ég gerði þarna var kannski svolítið blautara.

IMG_4535

 

En það var sem sagt hátt í vika síðan ég gerði deigið og það hafði beðið ósnert í krukku í ísskápnum; ég nota gjarna þessa leirkrukku og legg léttan plastdisk yfir opið – ílátið á að vera lokað en ekki algjörlega loftþétt. Deigði lítur kannski ekkert rosalega girnilega út í þessu ástandi og það var notaleg súrlykt af því en þannig á það einmitt að vera.

IMG_4536

 

Ég hellti deiginu á hveitistráð vinnuborð – eða hellti er kannski ekki alveg rétta orðið, svo þunnt var það nú ekki, en ,,lét leka“ er kannski nævr lagi …

IMG_4538

 

… og svo setti ég það á pappírsklædda bökunarplötu og notaði vel hveitidýfða fingurgómana til að þrýsta því út í ferhyrning ….

IMG_4542

… (eða sem næst ferhyrning), svona sentímeters þykkan, give or take. Þetta þarf nú ekkert að vera nákvæmt eða uppfylla einhver fegurðarviðmið. Lét þetta lyfta sér í svona hálftíma og hitaði á meðan ofninn í 220°C.

IMG_4544

 

Og svo notaði ég fingurgómana – hveitidýfða – til að gera fullt af holum í deigið. Það er alveg hægt að nota t.d. skaftið á sleif en fingurgómarnir – fjórir í einu – eru mun fljótlegri.

IMG_4549

 

Ég skar rauðlauk í sneiðar, losaði þær sundur í hringi og dreifði þeim yfir deigið. Saxaði nálar af 2 rósmaríngreinum og stráði yfir og malaði svartan pipar og setti dálítið flögusalt (Saltverk eða Maldon, til dæmis) yfir allt saman. Að lokum dreypti ég ólífuolíu jafnt yfir – ætli ég hafi ekki notað svona 2 msk í allt en það má komast af með minna.

IMG_4550

 

Ég setti brauðið í miðjan ofninn og bakaðai það í um 20 mínútur eða svo – þangað til það var fallega gullinbrúnt og hafði drukkið í sig alla olíuna og laukurinn var byrjaður að brúnast en ekki brenna.

IMG_4559

 

Lét brauðið hálfkólna (skar mér reyndar eina sneið af því á meðan það var heitt) og skar svo væna sneið af brauði, setti þykkar sneiðar af salami og nokkur lítil basilíkulauf ofan á og borðaði þetta í kvöldmatinn.

Afgangurinn var fínn daginn eftir en ég frysti líka hluta af brauðinu til að nota seinna.

 

Fimm korna foccaccia

Deig (tvöfaldur skammtur):

750 g ylvolgt vatn

1 msk þurrger

1 msk salt

250 g heilhveiti

100 g fimm korna blanda

600-650 g hveiti, eða eftir þörfum

1 rauðlaukur

1-2 rósmaríngreinar

nýmalaður pipar

svolítið flögusalt

1-2 msk ólífuolía

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s