Bananana …

Við fáum ávaxtasendingu í vinnuna vikulega, sem er auðvitað alveg ljómandi gott. Svolítið misjafnt hvað þetta er en oftast appelsínur, epli, vínber og bananar. Fullt af banönum.

Stundum eru þessir bananar allt of grænir þegar þeir koma og eiginlega óætir að mínu mati – ég get bara borðað þroskaða banana. En stundum koma þeir vel þroskaðir og ef sendingin er stór eru þeir oft farnir að dökkna töluvert þegar líður á vikuna og ilma verulega vel og bragðast eins og bananar eiga að bragðast. Það er að segja, það er komið bananabragð af þeim. Mikið. Fyrir kemur að einhver vinnufélaginn gefur í skyn að þessir bananar séu nú eiginlega ónýtir og best sé að henda þeim.

Og þá mótmæli ég. Og tek þá og fer með þá heim og baka úr þeim og kem með eitthvert bananabakkelsi daginn eftir.

Í fyrra var þetta eiginlega upphafið að múffubókinni minni, ég var búin að koma með bananamúffur tvisvar og það varð til þess að ég fór í áframhaldandi múffutilraunir og myndatökur og á endanum varð úr því bók.

Ég tók nokkra banana heim í gær og bakaði bananabrauð. En ég er nú ekki viss um að það verði bók úr því. Aftur á móti er uppskriftin hér. Hún er sykurlaus. Eða nei, auðvitað ekki, bananarnir eru nú frekar sætir og svo eru rúsínur og appelsínusafi … en nei, enginn hvítur sykur eða púðursykur eða agavesíróp eða sukrin eða stevia eða neitt svoleiðis.

IMG_4598

Nei, þetta voru nú ekkert fallegir bananar að utan svosem. Farnir að mýkjast og ilmurinn eins og á bananaplantekru. Held ég, ég hef aldrei komið á bananaplantekru.

Ég byraði á að hita ofninn í 160°C.

IMG_4605

Þetta voru fimm frekar litlir bananar – um 650 g með hýði. Áður hefði ég sett þá í matvinnlsuvélina því að gamli töfrasprotinn minn hefði ekki ráðið við svona mikið en nú ér ég komin með nýjan sem er mun kraftmeiri svo ég ákvað að prófa hvort ,,míní-matvinnsluvélin“ með honum dygði ekki til (minni fyrirhöfn og minni uppþvottur).

IMG_4611

Sem hún gerði. Ég maukaði alltsvo bananana, ekkert of fínt.

IMG_4636

Ég setti svo 325 g af hveiti í hrærivélarskálina og bætti við 2 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1 tsk af kanel og 1/2 tsk af kardimommum (en það má líka sleppa þeim og nota þá 1 1/2 tsk af kanel). Blandaði þessu saman.

Síðan setti ég bananamaukið út í ásamt einu eggi og 6 msk (90 ml) af matarolíu.

IMG_4634

Ég kreisti safa úr einni appelsínu yfir og hrærði þetta saman. Best er þó að hræra frekar lítið, bara þar til deigið er nokkurn veginn slétt.

IMG_4640

Ég endaði á að blanda 100 g af ljósum rúsínum saman við – ég notaði gullnar rúsínur en það má líka alveg nota venjulegar. Eða sleppa, ef maður er ekkert fyrir rúsínur.

IMG_4704

Setti svo deigið í jólakökuform og bakaði kökuna neðst í ofninum í 55-60 mínútur.

IMG_4714

Þetta var hin ágætasta kaka. Eða brauð, öllu heldur. Og alveg nógu sætt, þótt sykurlaust væri.

Bananabrauð

5 bananar (650 g)

325 g hveiti

2 ½ tsk lyftiduft

½ tsk matarsódi

1 tsk kanell

½ tsk kardimommur (eða meiri kanell)

1 egg

6 msk olía

1 safarík appelsína

100 g rúsínur, gjarna gullnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s