Góðviðrisþorskur

Veðrið hefur oft áhrif á matargerðina hjá mér og þannig var það einmitt í dag – það var svo fallegt að mig langaði alls ekki að gera eitthvað þungt og vetrarlegt (gerði það reyndar um helgina, sbr. uppskriftina að svínaskönkunum sem ég setti hér í gær) og ákvað fremur að leita suður á bóginn, í áttina suður að Miðjarðarhafi nánar til tekið. Get þó ekki staðsett réttinn sem ég eldaði mjög nákvæmlega þar …

Ég átti þorskflak sem ég keypti í gær, nokkra tómata sem voru orðnir mjög vel þroskaðir og gátu ekki beðið lengur, papriku sem var aðeins farin að hrukkast og fleira. Svo það var eiginlega ljóst í hvað stefndi. Ég hgusaði nú ekki út í það fyrr en eftir á að líklega mundi þessi réttur smellpassa inn í lágkolvetnamataræði (og þó, nei, það er hvorki beikon né rjómi né egg í honum) en það var alveg þrælóvart. Þetta er ábyggilega frekar hollt hvernig sem á málið er litið en fyrst og fremst gott. Það dugir mér.

IMG_4571

Allavega, þetta var tæplega 300 gramma þorskflak, sem er fín stærð fyrir mig því það dugir mér í matinn og ég á afgang til að fara með í nestið á morgun og borða í hádeginu. Þrír mjög vel þroskaðir tómatar, eldrauðir og bústnir, ein gul paprika, einn rauðlaukur, tveir vorlaukar, eitt rautt chilialdin, 8-10 svartar ólífur, 2 tsk kapers, 1 msk balsamedik, 2 msk ólífuolía, pipar og salt. Og ein sítróna, en ég notaði bara safann úr helmingnum af henni.

IMG_4574

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 220°C og svo skar ég rauðlaukinn í helminga og síðan í fremur þunnar sneiðar. Fræhreinsaði paprikuna og skar hana í bita og einnig hvíta og ljósgræna hlutann af vorlaukunum (geymdi grænu blöðin). Fræhreinsaði chili-ið og saxaði það smátt og blandaði þessu saman í eldföstu móti.

IMG_4577

Ég skar svo tómatana í báta og dreifði yfir, ásamt ólífunum. Kryddaði með pipar og salti og dreypti helmingnum af olíunni jafnt yfir.

IMG_4588

Svo kreisti ég safann úr hálfri sítrónu jafnt yfir. Setti fatið í ofninn og bakaði grænmetið í 15-20 mínútur.

IMG_4592

Á meðan skar ég fiskflakið í bita (tvo) og kryddaði með pipar og salti. Braut endann á stirtlunni inn undir aftara stykkið svo að þau yrðu álíka þykk og þyrftu svipaðan tíma í ofninum.

IMG_4623

Ég tók svo fatið út þegar grænmetið var orðið mjúkt og aðeins farið að taka lit, lagði fiskstykkin ofan á og dreypti balsamedikinu yfir ásamt afganginum af olíunni. Stráði kapersinum yfir allt saman og setti í ofninn í 7 mínútur (eða eftir þykkt fiskstykkjanna).

IMG_4666

Ég saxaði grænu blöðin af vorlauknum og stráði yfir fiskinn í fatinu.

IMG_4682

Ég hafði nú bara grænt salat með, þetta var það mikið grænmeti að mér fannst ekki þörf á öðru. (Nei, ég er ekkert að forðast kolvetni neitt sérstaklega.)

En þetta var alveg ágætt. Og alveg í stíl við veðrið í dag, fannst mér.

Miðjarðarhafsþorskur

300 g þorskflak

1 rauðlaukur

1 paprika

2 vorlaukar

3 tómatar

1 rautt chilialdin

2 msk ólífuolía

safi úr 1/2 sítrónu

pipar

salt

1 msk balsamedik

2 tsk kapers

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s