En nú er það sykurlaust …

Sykurinn (eða karamellan) hafði ótvírætt betur en gerivisykurinn/sykurleysan í gær og þarf ekki að koma á óvart. En sykur er náttúrlega bölvuð óhollusta og það er allt of mikið af honum þar sem hann þarf kannski ekkert endilega að vera. Í alls konar mjólkurvörum, í sósum og auðvitað kökum og kexi og þess háttar. Sem gæti alveg verið sykurlaust eða allavega mun sykurminna.

Margir hefðbundnir réttir innihalda sykur án þess að við hugsum í rauninni út í það og það er vel hægt að venja sig á að sleppa honum. Til dæmis kartöflustappa eða uppstúf, sem margir setja ögn af sykri út í og ég gerði það líka hér áður fyrr – í stöppuna allavega – en hef reyndar ekki gert í áratugi. Auðvitað er magnið í þeim tilvikum yfirleitt það lítið að það skaðar engan í sjálfu sér en safnast þegar saman kemur og þetta bætist við aðra daglega sykurneyslu – og bæði þetta og gervisykurinn og sykurlíkið og allt það hjálpar til við að viðhalda sykurílöngun. Og nei, agavesíróp og hrásykur og allt það er sykur líka og ekkert hollara.

Þótt mér þyki gott að fá eitthvað verulega sætt inn á milli  – eins og karamellusósuna í gær – gengur mér held ég ágætlega að minnka sykur í daglegu fæði, bæði með því að sneiða sem mest hjá unnum matvörum og öllum sykurbættu mjólkurvörunum og með því að minnka sykur í uppskriftum þar sem það hentar og sleppa honum alveg þar sem það hentar.

Ég lofaði á Facebook í dag að næsta kaka sem ég kæmi með í vinnuna yrði sykurlaus. Þegar ég segi sykurlaus meina ég reyndar með engum viðbættum sykri, hvorki hvítum, brúnum, fljótandi né í öðru formi – og ekki heldur súkríni, stevíu eða neinu slíku. Vil ekki sjá það, satt að segja. En öðru máli gegnir um ávexti, þótt í þeim sé vissulega ávaxtasykur. Hann er út af fyrir sig ekkert hollari (eða minna óhollur) en annar sykur en maður fær þó allavega ýmislegt gott úr ávöxtunum með honum – bæði bragð og bætiefni.

Svo að ég gerði nektarínuböku.

IMG_4420

Ég byrjaði á að gera bökudeigið. Setti 150 g af smjöri, 200 g af hveiti, 100 g af hafragrjónum, 1/4 tsk af salti og 1/2 tsk af kanel í hrærivélarskálina og hrærði rólega saman. Ég nota yfirleitt frekar matvinnsluvélina þegar ég geri bökudeig, nema þegar ég vil hafa það pínulítið gróft – þarna varð ég að nota hrærivél út af hafragrjónunum svo þau yrðu ekki að haframjöli. Hún virkaði mjög vel fyrir þessa týpu af deigi.

IMG_4423

 

Ég hrærði deigið þar til það var orðið að kornóttri mylsnu. Tók svolítið af því í lófann og hnoðaði saman til að athuga hvort það væri hæfilegt. Það var aðeins of þurrt og molnaði dálítið.

IMG_4426

Svo ég hrærði deigið aðeins betur saman og hellti svona 1 1/2 msk af ísköldu vatni saman við smátt og smátt – best að athuga eftir 1 msk hvort það er kannski nóg.

IMG_4427

 

Ég hnoðaði svo deigið saman í kúlu og flatti hana aðeins út og setti á hveitistráð vinnuborð.

IMG_4433

 

Ég flatti deigið út svo að það mundi þekja allt bökuformið sem ég ætlaði að nota (meðalstórt, svona 22 cm í þvermál) og rúllaði því svo lauslega utan um kökukeflið til að unnt væri að lyfta því og leggja yfir formið. – Ef það rifnar eða fer í parta gerir það ekkert til, maður leggur bara partana í formið og þrýstir þeim saman með fingurgómunum.

IMG_4435

 

Eins og ég gerði … Ég þrýsti svo deiginu upp með hliðunum og reif af bita sem stóðu upp fyrir og notaði þá til að gera kantinn þykkari. Svo setti ég deigið í kæli á meðan ofninn var að hitna í 200°C og ég útbjó fyllinguna.

IMG_4440

 

Ég tók fimm bústnar nektarínur og skar þær niður í báta, svona tólf-sextán hverja. Reyndar notaði ég örugglega ekki nema fjórar og hálfa því ég stakk svo mörgum bátum upp í mig á meðan ég var að skera þær niður …

IMG_4446

 

… og svo raðaði ég bátunum í bökuskelina. (Það má líka bara sturta þeim öllum í, enda er þetta nú ekki mjög skipulega raðað eins og sést.)

IMG_4448

 

Eftir 15 mínútur tók ég bökuna út, stráði yfir um 3 msk af grófsöxuðum pistasíum og setti hana svo aftur inn og bakaði í 12-15 mínútur í viðbót.

IMG_4473

 

Lét svo bökuna hálfkólna og bar hana fram í forminu.

IMG_4483

 

Ég fékk mér sneið af bökunni bara eins og hún kom fyrir en það væri nú ekki verra að hafa til dæmis þeyttan rjóma eða mascarponeost með.

En ég saknaði sykursins akkúrat ekki neitt.

 

Nektarínubaka með pistasíum

150 g smjör, kalt

200 g hveiti

100 g hafragrjón

1/4 tsk salt

1/2 tsk kanell

1-2 msk ískalt vatn, eða eftir þörfum

4-5 nektarínur

2-3 msk pistasíuhnetur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s