Snöggt salat í skammdeginu

Ég verð kannski ekkert voðalega dugleg að blogga næstu mánuðina af því að eins áður hefur komið fram er ég nú ekki síst að þessu af því að mér þykir gaman að taka matarmyndir og á þessum árstíma eru ekkert sérlega góð skilyrði til þess fyrir mig af því að ég nota helst bara dagsbirtu. Á virkum dögum er ég sjaldan komin heim fyrr en um fimm í fyrsta lagi og þá er lítið svigrúm ef ég þarf að elda; get kannski myndað kökur eða annað sem er tilbúið en svo kemur að því þegar lengra líður á veturinn að það gengur ekki heldur. Og þá verður hér líklega aðallega birt eitthvað sem ég er að fást við um helgar, þegar ég get notað dagsbirtuna betur.

Nema um helgar eru reyndar líka önnur verkefni sem ég þarf að láta ganga fyrir og nýta birtuna í, til dæmis bóka/greinahugmyndir sem ég er að testa og svo auðvitað það sem ég er að gera fyrir MAN. Eins og ég sagði um daginn, þá finnst mér að fyrst ég var að taka þetta að mér þurfi ég að gera það almennilega og semja nýjar uppskriftir fyrir blaðið, ekki nota eitthvað sem ég hef birt áður og er aðgengilegt frítt á vefnum og það kostar oft töluverðar pælingar og prófanir. Og auðvitað þurfa myndirnar að vera eins góðar og ég get haft þær með minni takmörkuðu kunnáttu og það þýðir að stundum geri ég réttina og mynda þá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þannig að þetta tekur allt tíma og það er færra sem ég hef til að setja á bloggið jafnóðum.

Þess vegna kem ég væntanlega til með að setja eitthvað af uppskriftum (en alls ekki allar) úr blöðum sem farin eru úr sölu hingað inn. Og það ætla ég einmitt að gera núna, þessi uppskrift var í fyrsta tölublaðinu, sem kom út í septemberbyrjun. Gerði reyndar smávægilegar breytingar.

Þetta er semsagt túnfisksalat með halloumi, fljótlegt og frekar einfalt og flest af þessu er nú bara eitthvað sem maður á (ókei, sem ég á) oftast til í skápunum. Ég geri oft salöt eitthvað i þessa áttina þegar ég kem heim og reyni eiginlega ekki að elda.

Halloumiostur hefur fengist t.d. í Bónus en ef hann er ekki tiltækur má nota annan ost, til dæmis fetaost – bara sleppa því að steikja hann.

IMG_7707

Það sem ég átti var túnfiskur í olíu (má vera í vatni en þá þarf aðeins meiri olíu til að steikja ostinn ), kjúklingabaunir í dós, halloumi-ostur (ég notaði svona 100 gramma bita), 1 msk af hveiti til að velta honum upp úr – það er ekki bráðnauðsynlegt ef maður vill sleppa hveiti en mér finnst það betra – 1 lítil rauð paprika, 2 vorlaukar, salatblaðablanda, fáeinar ólífur, 1/2 sítróna, 2 msk af ólífuolíu, pipar og svolítið salt.

IMG_7711

Ég byrjaði á að hella olíunni af túnfiskinum (geymdi hana) og losaði hann sundur í flögur. Svo skar ég halloumiostinn í litla teninga, svona 1-1 1/2 cm á kant, og velti þeim upp úr hveiti blönduðu með pipar og salti.

IMG_7716

 

Svo hitaði ég svolítið af olíunni af túnfiskinum (eða annarri olíu) á pönnu og steikti ostinn við meðahlita þar til hann var gullinbrúnn. Hrærði öðru hverju á meðan. Halloumiostur bráðnar ekki – eða það þarf mikið til. Ég tók ostinn svo af pönnunni með gataspaða og lét renna af honum á eldhúspappír.

IMG_7718

Ég skar svo paprikuna í litla bita og vorlaukinn í sneiðar. Lét renna af baununum í sigti. Reif salatblöðin niður, blandaði þeim saman við baunir, papriku og vorlauk og setti á fat. Síðan dreifði ég túnfiski og halloumiosti yfir.

IMG_7748

Ég skar ólífurnar í tvennt og dreifði þeim yfir. Kreisti svo safann úr sítrónunni, hristi olíu, pipar og salt saman við og dreypti blöndunni yfir salatið.

IMG_7820

Svo bar ég það fram með góðu brauði.

 

Túnfisksalat með halloumiosti

1 dós túnfiskur í olíu

1 dós kjúklingabaunir

100 g halloumi-ostur

1 msk hveiti

1 lítil rauð paprika

2 vorlaukar

væn lófafylli af salatblöðum

nokkrar steinlausar ólífur

½ sítróna

2 msk ólífuolía

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s