Ég held að það séu kannski einhverjir eftir aðrir en ég sem enn borða brauð en þeim fer örugglega fækkandi. Einu sinni var það bara hvítt hveitibrauð sem var óhollusta og gott ef ekki bölvað eitur, svo var það brauð með geri, svo var það glútenið sem var óvinurinn og nú er held ég allt brauð orðið stórskaðlegt nema það sé gert úr möndlumjöli eða kókos eða psylliumtrefjum eða whatever. En það verður þá sjálfsagt næst á listanum.
I ain’t going there.
Ég borða töluvert af brauði, það er þó misjafnt og stundum koma tímabil þegar ég borða lítið sem ekkert brauð. Ég verð nú ekki vör við að mér líði neitt öðruvísi á slíkum tímabilum en kannski borða ég svo mikið djönk svona yfirleitt að það munar engu. Ég kaupi hins vegar afar sjaldan brauð því ég baka næstum allt heima. Á gjarna deig í krukku í ísskápnum eins og ég hef sagt áður og á tímabilum þegar ég borða mikið af brauði er ég kannski með 2-3 krukkur í gangi, eina með deigi úr hvítu hveiti, aðra með heilhveiti- eða rúgdeigi eða öðru grófu korni og svo er ég kannski með krukku sem ég geymi heldur lengur en hinar til að fá skemmtilegan súrdeigskeim af brauðinu.
En ég er enginn ástríðubakari, fremur en ástríðukokkur. Finnst bara afskaplega þægilegt að eiga deig og geta tekið af því eftir hendinni, hugsanlega bara í eitt rúnnstykki eða baguettebrauð, eina eða tvær flatkökur til að baka á pönnu (þannig get ég átt nýbakað brauð innan við tíu mínútum eftir að ég kem inn úr dyrunum). Og svo getur maður tekið deigbita og blandað hverju sem hugurinn girnist saman við hann og bragðbætt brauðið sitt allavega.
Sem var einmitt það sem ég gerði; ég bakaði baguettebrauð með matnum í gærkvöldi en geymdi tæplega helminginn af deiginu og bakaði í morgun brauð með trönuberjum, pekanhnetum og rósmaríni.
Deigið sem ég útbjó í gær var bara venjulegt hveitibrauðsdeig nema það var ögn af ólífuolíu í því – ég setti 750 ml af ylvolgu vatni í skál, stráði 1 msk af þurrgeri yfir, lét bíða í nokkrar mínútur þar til gerið var farið að leysast upp og þá setti ég slatta af brauðhveiti út í ásamt 1 msk af salti og hrærði saman við.
Hrærði svo saman við þetta 2 msk af ólífuolíu og bætti síðan smátt og smátt við hveiti eftir þörfum. Ég mældi ekki hveitið, geri það eiginlega aldrei en það hefur sennilega verið svona tæpt kíló í allt.
Ég hélt bara áfram að bæta við hveiti þar til deigið var þykkt og seigt og seig mjög hægt undan eigin þunga af deigkróknum þegar honum var lyft. Eða nánar til tekið þar til það var lint og klesstist við hendur svo ekki var hægt að hnoða það en þó hægt að taka aðeins á því með hveitistráðum höndum.
Ég breiddi viskastykki yfir skálina og lét deigið lyfta sér á eldhúsbekknum, á ekkert allt of hlýjum stað, í svona tvo eða þrjá klukkutíma,
Ég tók svo rúmlega helminginn af deiginu (átti að vera helmingur en varð líklega aðeins meira) og bakaði baguette úr því. en það er önnur saga. Setti hitt í ísskápinn, lagði disk ofan á krukkuna svo að hún væri lokuð en ekki alveg loftþétt, og lét hana standa þangað til í morgun.
Þá tók ég deigkrukkuna úr kæli. Hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu, setti á hana 2-3 msk af trönuberjum (mega líka vera rúsínur), 2-3 msk af gröfsöxuðum pekanhnetum (eða valhnetum) og svona 1 msk af söxuðum rósmarínnálum og lét krauma í nokkrar mínútur án þess að brenna. Lét þetta svo kólna aðeins.
Setti deigið í skál, hellti öllu sem var á pönnunni yfir og hrærði eða hnoðaði saman.
Ég klæddi svo lítið, eldfast mót innan með bökunarpappír, setti deigið í það og jafnaði svona nokkurn veginn (en yfirborðið má gjarna vera óslétt) og lét lyfta sér í svona hálftíma. Hitaði á meðan ofninn í 210°C. Áður en brauðið fór í ofninn ýrði ég svo 1-2 tsk af ólífuolíu yfir og stráði ögn af flögusalti ofan á. Setti brauðið svo í ofninn á næstneðstu rim.
Ég bakaði brauðið í 30-35 mínútur, eða þar til það hafði tekið fallegan lit, en tíminn fer auðvitað aðeins eftir stærð og lögun formsins. Tók það út, lyfti því upp úr forminu (auðvelt að gera það með því að taka í pappírinn) og lét það kólna alveg á grind.
Þetta var nú alveg bara ágætis brauð. Fyrir okkur risaeðlurnar sem enn borðum svoleiðis, að segja.
Trönuberja-, hnetu- og rósmarínbrauð
Deig (ríflega tvöfaldur skammtur)
750 ml ylvolgt vatn
1 msk ger
hveiti eftir þörfum
1 msk salt
2 msk ólífuolía
Fylling:
1 msk + 1-2 tsk ólífuolía
2-3 msk pekan- eða valhnetu, saxaðar
2-3 msk trönuber
1 msk saxað ferskt rósmarín
ögn af flögusalti
Ég gerði það nú, það stendur þarna, ,,það hefur sennilega verið tæpt kíló í allt“ og svo eru myndir og lýsing á því hvernig deigið á að vera, þ.e. svo blautt og lint að það klessist við hendurnar ef reynt er að hnoða það en þó ekki linara en svo að ef maður stráir hveiti vel á hendurnar er hægt að taka svolítið á því og móta það. Nákvæmari get ég eiginlega ekki verið því það er nokkuð misjafnt hvað hveiti tekur mikinn vökva í sig.
Brauðhveiti er hveitið í bláu pokunum frá Kornax, til dæmis. Það er próteinríkara en venjulegt hveiti og hentar því betur til baksturs á gerbrauði, deigið verður teygjanlegra og lyftist betur. En það er alveg í lagi að nota venjulegt hveiti.
kv.
Nanna
[…] en hægt að taka aðeins á með vel hveitistáðum höndum – ég hef lýst þessu oft, til dæmis hér, en deigið sem ég gerði þarna var kannski svolítið […]