Beðið eftir Taggart

Ég ætla að horfa á Taggart á DR1 á eftir. Og svo langaði mig að baka köku og af því að það er nú alltaf voða sniðugt að hafa eitthvert tilefni fyrir kökubakstri, þá ákvað ég að baka köku Taggart til heiðurs. Þetta ákvað ég í Nóatúni áðan. Nema svo þegar ég notaði Ipadinn minn til að tékka á hvort það væri annars ekki örugglega Taggart á eftir eða hvort ég þyrfti að finna annað tilefni, þá sá ég að þetta mundi líklega ekki vera einn af elstu þáttunum og Taggart væri líklega dauður þegar hér er komið sögu og sæist þar af leiðandi ekki í þáttunum. Svo ég þurfti aðeins að hugsa málið upp á nýtt.

Sem var kannski eins gott því þar sem ég stóð þarna í búðinni rann upp fyrir mér að ég veit svosem ekki hvernig köku hefði verið viðeigandi að baka til að heiðra fýlupúka eins og Taggart, líklega einhverja sykurlausa lágkolvetnaköku eða hvað veit ég. (NB ekki misskilja, fólk á lágkolvetnafæði er ekkert meiri fýlupúkar en gengur og gerist, held ég. Þetta voru önnur hugrenningatengsl.)

En svo leit ég upp úr Ipadinum og viti menn: Stend ég þá ekki barasta hjá kexhillunum. Þar með var málinu bjargað því það eru töluverðar líkur á að í þættinum á eftir sé Kexið enn lifandi. Og þótt svo sé ekki má hafa þetta erfidrykkju fyrir þá félaga, hann og Taggart.

Ég keypti viðeigandi kexpakka, fór heim og kveikti á ofninum á 180°C.

IMG_3799

Ég byrjaði á að bræða 60 g af suðusúkkulaði í vatnsbaði (þetta er suðusúkkulaði þótt það virki svona ljóst á myndinni). Lét það svo kólna ögn.

IMG_3805

Svo vigtaði ég 85 g af púðursykri, 50 g af sykri og 125 g af linu smjöri, setti í hrærivélarskálina og hrærði vel saman. Það má nota hvítan sykur eingöngu en mér finnst betra í svona köku að blanda tegundunum saman.

IMG_3810

Ég tók  þrjú egg, braut þau eitt í senn í litla skál og þeytti þeim saman við.

IMG_3813

Síðan setti ég súkkulaðið út í og hrærði því saman við.

IMG_3817

Ég vigtaði svo 125 g af hveiti og 40 g af kakói og blandaði 1 tsk af lyftidufti og 1/4 tsk af salti saman við. Mældi 125 ml af mjólk og setti svona þriðjung af hveitiblöndunni og þriðjung af mjólkinni út í á víxl og hrærið rólega saman. Best er að hræra sem minnst, bara rétt til að blanda öllu saman.

IMG_3823

Ég tók meðalstórt smelluform, penslaði það með ögn af olíu (það á að vera viðloðunarfrítt en ég treysti því aldrei), hellti deiginu í það og jafnaði með sleikju. Setti þetta svo á neðstu rim í ofninum og bakaði í um 20 mínútur, eða þar til kakan var laus frá börmunum og svampkennd.

IMG_3829

Ég tók kökuna úr ofninum, lét hana kólna aðeins í forminu en losaði hana svo úr, setti á grind og lét kólna alveg.

Þá var það kremið: Ég byrjaði á að hræra  saman 125 g af linu smjöri, 200 g af flórsykri, 30 g af kakódufti og  ásamt 1 tsk af vanilluessens (eða vanilludropum) og þynnti svo með ögn af rjóma (má nota mjólk) – ég notaði 2-3 matskeiðar. Kremið á að vera frekar þykkt en það þarf þó að vera hægt að smyrja því.

IMG_3834

Kexið sem ég hafði keypt var McVities Digestive Caramels en það var nú út af Taggart – eða Kexinu – það má nota aðrar tegundir. Ég notaði hálfan pakka af þessu kexi.

IMG_3836

Ég tók þrjár kexkökur frá og geymdi en saxaði hinar – ekki sérlega fínt en hluti af kexinu molnar alltaf niður í misgrófa mylsnu þegar það er brytjað.

IMG_3840

Ég blandaði svo kexinu saman við kremið og smurði því jafnt yfir kökubotninn með spaða.

IMG_3844

Svo saxaði ég kexkökurnar þrjár sem ég hafði tekið frá og stráði þeim yfir.

IMG_3862

Og nú er ég bara að bíða eftir að Taggart byrji.

Taggartkaka

60 g suðusúkkulaði

125 g lint smjör

75 g púðursykur

50 g sykur

3 egg

125 g hveiti

40 g kakóduft

1 ts lyftiduft

1/4 tsk salt

125 ml mjólk

olía eða smjör til að smyrja formið

Kexkremið:

125 g lint smjör

200 g flórsykur

30 g kakóduft

1 tsk vanilluessens

rjómi eða mjólk eftir þörfum

170 g McVities Digestive Caramel-kex (eða annað súkkulaðikex eftir ástæðum)

5 comments

  1. Ummm þessi lítur vel út, sérstaklega dökkt og þykkt kremið. Mér hefur aldrei dottið í hug að mylja kex í krem! Var hún góð?

    • Já, ég fór með hana í vinnuna og hún þótti ansi góð. – Það mætti líka nota aðrar tegundir af kexi, mér dettur til dæmis í hug að Oreo eða eitthvað slíkt gæti passað. En seig karamellan sem er í þessu fannst mér koma mjög vel út.

  2. Sæl aftur Nanna, hljómar vel með kexið!

    Og fyrst ég er komin í súkkulaðikökupælingar, veist þú í hverju það liggur að stundum kemur eins og pínu brennt bragð eða biturt af súkkulaðiköku? Þetta á yfirleitt við þegar ég reyni að baka þessar dökku og mjúku með sóda, miklu kakó og kaffi í deiginu, en ég er þó ekki að tala um sódabragð. Er það kannski bara samspil af þessu öllu (kakóinu kannski)? eða dettur þér eitthvað trix í hug…

    • Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður; ef þetta er alltaf sama eða nánast sama uppskriftin gætu hlutföllin í henni verið eitthvað skökk, t.d. of mikið af lyftiefni, en ef þetta gerist með mismunandi uppskriftir (en þó allar af þeirri týpu sem þú lýsir) er sennilegra að það tengist eitthvað hráefnistegundunum. Notarðu alltaf sömu tegund af kakói og þá hverja? Þú gætir prófað að skipta um tegund. Kaffið gæti líka verið sökudólgurinn (eða samspil kakós og kaffis) og það má prófa með því að nota einfaldlega heitt vatn í staðinn fyrir kaffi.

      Kakó sem hefur verið meðhöndlað með aðferð sem kallast ,,dutch process“ til að lækka sýrustigið er síður beiskt en annað kakó (gjarna merkt ,,natural“) og hentar því betur ef maður vill beiskjulausar kökur. Hins vegar þarf þá að vera eitthvert súrt hráefni í deiginu (t.d. súrmjólk) til að lyftingin sé eins og hún á að vera því matarsódinn þarf sýru til að virka.

      • Takk takk, já ég hef bara stundum orðið vör við þetta í svona dökkum kökuuppskriftum. Held ég sé þá bara að setja dassi of mikið af sterkum hráefnum. Prófaði þessa síðustu köku sem ég gerði aftur í gær og minnkaði þá bæði kakó og setti einmitt heitt vatn á móti kaffinu og hún varð súperfín 🙂 Setti einmitt súrmjólk fyrir buttermilk til að fá sýruna!

        Held raunar að þetta sé einhver viðkvæmni í mér bara því aðrir hafa ekki kvartað, ég get oft ekki borðað sódabrauð sem aðrir virðast geta borðað með bestu lyst…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s