Tilbrigði við klassík

Þið vitið kannski að ég er að skrifa um mat í tímaritið MAN en fyrsta tölublaðið kom út fyrir tæpum mánuði, það næsta kemur í búðir á morgun skilst mér og ég er akkúrat að semja og mynda uppskriftir fyrir nóvemberblaðið. Þarna verð ég svotil eingöngu með uppskriftir sem ég sem sérstaklega fyrir blaðið og hef hvergi birt annars staðar áður (með einni undantekningu þó, ég setti inn eina uppskrift úr nýju kjúklingabókinni minni, maður verður nú að plögga aðeins þegar færi gefst), enda þætti mér hálfgert svindl að setja þarna uppskriftir sem er hægt að finna ókeypis á netinu.

Hins vegar getur vel verið að ég eigi eftir að setja eina og eina uppskrift úr blaðinu inn hér á bloggið þegar blaðið er komið úr sölu. Og þar sem nýtt blað á að koma í búðir í fyrramálið ætla ég að setja hér eina uppskrift – kjúklingauppskrift reyndar en hún er þó ekki úr kjúklingabókinni, heldur gerði ég hana fyrir MAN.

Ég er semsagt með nokkrar uppskriftir í hverju blaði og þær eru undir einum hatti en svo set ég eins konar ,,tag“ á hverja uppskrift um sig sem síðuhaus. Sum þessi tögg verða líklega nokkurn veginn föst í hverju blaði, önnur meira fljótandi – þarna hef ég t.d. merkt uppskriftir ,,fyrir einn eða tvo“, ,,fljótlegt og einfalt“, ,,haustlegt og heitt“ og ,,tilbrigði við klassík“. Síðastnefnda hausinn hef ég sett á uppskriftir þar sem ég tek klassískan rétt, segi aðeins frá honum og gef svo uppskrift að rétti sem er, eins og nafnið bendir til, tilbrigði við hefðbundna uppskrift (í sumum tilvikum örugglega töluvert frábrugðið).

Rétturinn sem ég ætla að setja hér er einmitt úr þessum flokki, það er að segja tilbrigði við cordon bleu-kjúkling, sem flestir kannast við. Hann er reyndar stundum fyrir misskilning kallaður Gordon Blue. Cordon bleu (blái borðinn)  er franskt heiðurstákn og nafn á frægum matreiðsluskólum. Margir telja því að rétturinn sé klassískur franskur réttur en hann er raunar upprunninn í Bandaríkjunum um 1965. Svissneski rétturinn cordon bleu er hins vegar kálfasnitsel (nú oft líka úr svínakjöti), fyllt með osti.

Til eru margar útfærslur á réttinum; oftast eru kjúklingabringur skornar í tvennt á þykktina eða barðar þar til þær eru þunnar og þær síðan brotnar eða þeim vafið utan um skinku og ost áður en þeim er velt upp úr raspi og þær svo steiktar eða bakaðar. Hér barði ég aftur á móti ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur skar ég vasa í bringurnar og vafði skinkunni utan um ostinn, það dregur úr líkum á að osturinn leki allur út þegar hann bráðnar.

Uppskriftin er miðuð við þrjá til fjóra en þetta er auðvitað réttur sem er ekkert mál að gera fyrir einn. Eða tíu ef því er að skipta.

Og ef þið kaupið nýtt MAN á morgun er þar annað tilbrigði við alltaðra klassík. Og fleira gott.

IMG_8417

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég svona 120 g af osti – ég notaði Tind af því að ég átti hann en það má vera hvaða bragðmikill ostur sem er og skar í 6 stauta. Tók svo 6 sneiðar af hráskinku og vafði einni utan um hvern staut. En það hefði líka mátt nota góða soðna skinku  – helst ekki venjulega brauðskinku samt.

IMG_8422

 

Ég lagði svo bringurnar þrjár sem ég var með á bretti, skar djúpan vasa í hliðina á hverri bringu og stakk tveimur skinkuvöfðum ostastautum í hvern vasa.

IMG_8424

 

Það má loka fyrir opið með tannstönglum en ætti þó að vera óþarft og ég sleppti því. Ég kryddaði svo bringurnar með pipar og salti.

IMG_8426

Ég tók svo 200 ml af raspi – ég notaði panko (já, ég veit, ég er svolítið hrifin af því þessa dagana) en það má líka nota venjulega þurra brauðmylsnu eða fínmylja dagsgamalt brauð i matvinnsluvél og svona 25 g af nýrifnum parmesanosti og blandaði þessu vel saman á diski. Á annan disk braut ég eitt egg og þeytti 1 tsk af dijonsinnepi saman við það með gafffli og svo setti ég 2 msk af hveiti á þriðja diskinn.

IMG_8432

 

Ég velti svo bringunum fyrst upp úr hveiti, svo úr eggjablöndu og þrýsti þeim að lokum vel niður í raspið svo að það þakti þær alveg. Raðaði bringunum í eldfast mót og setti þær svo í ofninn. Eftir 10 mínútur lækkaði ég hitann í 175°C og bakaði bringurnar í um 20 mínútur í viðbót.

IMG_8445

 

Osturinn var aðeins farinn að leka út úr bringunum en skinkan hélt annars vel utan um hann.

IMG_8482

Með þessu mætti t..d bera fram soðin hrísgrjón eða pasta, kartöflustöppu eða soðnar nýjar kartöflur, soðnar gulrætur og grænar baunir, gott salat og margt fleira.

IMG_8500

 

Dálítið öðruvísi en hefðbundinn cordon bleu-kjúklingur, jújú. En gott var það.

 

Tibrigði við cordon bleu-kjúkling

3-4 kjúklingabringur

120-150 g ostur (ég notaði Tind)

6-8 skinkusneiðar (hráskinka eða góð soðin skinka)

pipar

salt

200 ml ólitað rasp, gjarna panko

25 g parmesanostur, nýrifinn

1 egg

1 tsk dijon-sinnep

2 msk hveiti

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s