Ég átti nokkrar sneiðar af svínahnakka sem ég hafði keypt til að elda um helgina, vissi ekki þá hvort ég fengi einhvern í mat, en svo var ég nú bara ein og var einhvernveginn ekki í skapi til að hægelda þær eins og ég hafði ætlað (líklega í sinnepsrjómasósu, geri það seinna). En þegar ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti þá að gera mundi ég að ég var aldrei búin að prófa nýju hakkavélina.
Ég nefnilega eignaðist nýja Bosch-hrærivél á dögunum og er ansi ánægð með hana, það sem ég er búin að prófa. En það fylgdu henni ýmsir aukahlutir og dippidúttar og þar á meðal þessi forláta hakkavél. Svo að ég ákvað að nú væri kominn tími til að prófa hakkavélina og gera mér eitthvað úr grísahakki. Til dæmis kjötbollur.
Það er auðvitað alveg hægt að kaupa hakk og nota það. En kosturinn við að eiga hakkavél og hakka sitt eigið kjöt er auðvitað ekki síst að maður veit þá nákvæmlega hvað er í hakkinu. Hvort það er mest fita, sinar og ólseigir vöðvar eða eitthvað annað. Og þessi svínahnakki var býsna magur, jafnvel svo magur að ég velti fyrir mér hvort ég ætti að blanda svolítilli olíu saman við hakkið en það reyndist þó óþarfi (ja, það fylgdi reyndar ögn af olíu með tómötunum. Meira um það hér á eftir).
Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C. Sneri svo arminum á hrærivélinni til að koma hakkavélinni fyrir og setti hana saman og á sinn stað. Tók tvær vænar svínahnakkasneiðar, um 400 g (geymdi hitt til seinni tíma) og skar þær í ræmu. Flysjaði svo einn lauk og skar í bita, skar tvo hvítlauksgeira í litla bita og tók svo 5-6 sólþurrkaða tómata sem ég átti og skar í bita. Setti þetta allt í bakkann á hakkavélinni og kveikti á henni.
Þeir sem ekki eiga svona forláta hakkavél geta auðvitað bara tekið 400 g af hakki og saxað lauk, hvítlauk og sólþurrkaða tómata smátt og blandað saman við.
Hún svínvirkaði (eða getur maður annars sagt það þegar verið er að hakka svín?) og var auðvitað enga stund að hakka allt saman. Mér fannst hún hakka jafnar en gamla Kenwood-vélin mín en það var kannski ímyndun. En það er engin ímyndun að hún er svona sex sinnum lágværari.
Ég ákvað að krydda bollurnar með salti (um 1 tsk), pipar (um 1/2 tsk), timjani (1 tsk) og paprikudufti (1 tsk).
Setti svo hakkið í skál, stráði kryddinu yfir og bætti við einu eggi og 200 ml af raspi. Ég notaði japanskt panko-rasp (fæst m.a. í Kosti) en það má líka nota annað rasp eða mala brauð í matvinnsluvél.
Ég blandaði öllu vel saman með höndunum. Mótaði svo litlar bollur úr farsinu, á stærð við valhnetu eða svo – þetta urðu einar 30 bollur. Raðaði þeim á pappírsklædda bökunarplötu og ýrði örlítilli olíu yfir.
Svo setti ég plötuna í miðjan ofninn og stillti tímamælinn á 16 mínútur.
Á meðan bjó ég til sósu fyrir bollurnar. Byrjaði á að hita 2 msk af ólífuolíu á pönnu, saxaði 1 hvítlauksgeira smátt og lét hann krauma smástund við fremur vægan hita án þess að brúnast. Bætti svo 200 g af kirsiberjatómötum á pönnuna og steikti þá smástund. Kryddaði með pipar og salti og stráði svona 1 tsk af þurrkaðri basilíku yfir. (Þessi er heimaþurrkuð.) Bætti líka við einni lítilli, rauðri papriku sem ég fræhreinsaði og saxaði fremur smátt.
Þegar tómatarnirog paprikan voru aðeins farin að mýkjast hellti ég 150 ml af rauðvínsafgangi sem ég átti á pönnuna og bætti við 1/2 tsk af kjötkrafti. Ef ekki er til rauðvín má bara nota vatn og bæta kannski við 1 tsk af hvítvinsediki og/eða 1 tsk af kjötkrafti. Nú, eða grænmetiskrafti.
Lét þetta malla á meðan bollurnar voru að steikjast og hrærði öðru hverju. Það er líka ágætt að merja tómatana aðeins með sleifinni. Svo smakkaði ég sósuna og bætti við pipar og salti eftir þörfum. – Ef uppgufun er mikil má bæta við dálitlu vatni svo sósan brenni ekki við.
Bollurnar voru tilbúnar, steiktar í gegn og aðeins farnar að taka lit (reyndar vel brúnaðar á botninum, ef maður vill hafa jafnari steikingu má snúa þeim eða hræra í þeim einu sinni eða tvisvar á meðan þær eru í ofninum.
Ég setti bollurnar svo út í sósuna og blandaði vel. Bar þær svo fram í pönnunni.
Ég hafði nú bara salat með bollunum. En það mætti líka hafa soðnar kartöflur eða kartöflustöppu. Eða þá hrísgrjón.
Grísabollur í tómat-paprikusósu
400 g svínakjöt (eða svínahakk)
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
5-6 sólþurrkaðir tómatar
1 tsk þurrkað timjan
1 tsk paprikuduft
1 tsk salt, eða eftir smekk
1/2 tsk hvítur pipar, eða eftir smekk
1 egg
200 ml rasp (ég notaði panko)
örlítil olia
Tómat-paprikusósa
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri
200 g kirsiberjatómatar
1 tsk þurrkuð basilíka
pipar
salt
1 lítil rauð paprika
150 ml rauðvín (eða vatn)
1/2 tsk kjötkraftur