Stöppulummur

Ég skrapp i Góða hirðinn eftir vinnu að gá hvort þar væru einhverjir fallegir gamlir diskar. Þeir voru náttúrlega ekki til en ég fór út með fullan poka af skrani engu að síður. Ég hafði ætlað að fara í búð og kaupa eitthvað í kvöldmatinn í leiðinni, kannski í Hagkaup í Skeifunni eða Víði, eða koma við í Nóatúni. En pokinn var þungur – það var meðal annars panna í honum – og ég ákvað að ég nennti nú ekki að drösla honum með mér í búðaferð.

Ég var þess vegna að velta því fyrir mér í strætó á heimleiðinni (stór hluti af matarpælingum mínum fer fram í strætó, þið sem keyrið og þurfið að hafa hugann við umferðina vitið ekki af hverju þið eruð að missa). Ég hefði náttúrlega bara getað skilað dótinu heim og farið svo út í búð en ég var nú á því að ég gæti alveg átt eitthvað heima sem hægt væri að nýta.

Og svo mundi ég að það var afgangur af kartöflustöppunni sem var með sviðunum í gær. Ég tók afganginn af sviðinum með sem nesti í hádeginu ásamt stöppu en það var samt þó dálítill afgangur af þessari fínu basilíkukartöflustöppu sem ekkert vit var í að henda.

Og svo átti ég beikon. Ég á nú oftar en ekki beikon.

Aðeins um kartöflustöppu annars: Ég veit satt að segja ekki hvort mundi virka að nota sykraða stöppu í þetta, það gæti þó vel verið ef er mjög lítill sykur í henni. Sjálf nota ég aldrei sykur í kartöflustöppu, krydda hana með pipar, salti, ýmiss konar kryddjurtum, rifnum parmesanosti eða hinu og þessu öðru sem mér dettur í hug. En ekki sykri.

Ég vigtaði kartöflustöppuafganginn, þetta voru rétt um 200 grömm. Sirka einn bolli líklega. – Ég skoðaði nokkrar uppskriftir áður en ég fór að elda og í þeirri fyrstu sem ég rakst á voru fjórir bollar af stöppu og þrjár sneiðar af beikoni. Það fannst mér þunnur þrettándi og las ekki lengra í þeirri uppskrift.

IMG_3279

En semsagt: um 200 g af stöppu – þessi var krydduð með basilíku en það er ekki nauðsynlegt. Fimm vænar beikonsneiðar. Tvö egg, einn vorlaukur, 60 g af hveiti, 3/4 tsk lyftiduft, 1/4 tsk paprikuduft, pipar og salt (kryddmagnið fer náttúrlega eftir því hvað stappan er mikið krydduð). Svo notaði ég ögn af mjólk, sem er ekki á myndinni því ég var ekki viss hvort ég þyrfti hana, og olíu til að steikja upp úr.

IMG_3282

Ég byrjaði á að steikja beikonið. Sneiðarnar voru svo langar að ég skar þær í tvennt svo þetta voru tíu sneiðar. Ég raðaði þeim á þurra pönnu, hitaði hana og steikti beikonið þar til það var stökkt. Notaði mína ágætu beikonpressu, sem er bæði til að halda sneiðunum flötum og sléttum og til að pressa fitu úr þeim, en hún er nú ekkert lífsnauðsynleg.

Þegar beikonið var orðið steikt á báðum hliðum setti ég það á eldhúspappír á vinnuborði, lagði meiri eldhúspappír ofan á og pressaði vel með beikonpressunni til að losna við sem mest af fitu.

IMG_3284

Á meðan beikonið var að kólna setti ég hveiti, lyftiduft, papriku, pipar, salt og egg í skál og hrærði saman þar til deigið var nokkurn veginn slétt.

IMG_3289

Þá setti ég stöppuna út í og hrærði henni saman við og þynnti svo aðeins með mjólk – ég þurfti svona tvær matskeiðar en það fer auðvitað eftir því hvað kartöflustappan er þykk.

IMG_3291

Ég saxaði svo beikonið og vorlaukinn og blandaði saman við með sleikju.

IMG_3293

Það var dálítil beikonfita á pönnunni en ég bætti við ögn af olíu og hitaði. Svo setti ég deigið á pönnuna með lítilli ausu. Þetta urðu 7-8 lummur alls.

IMG_3298

Ég steikti lummurnar við meðalhita í svona 2 mínútur á hvorri hlið.

IMG_3300

Staflaði þeim svo upp og bar fram með grænu salati. Það mætti svosem hafa ýmislegt með, meira beikon til dæmis … eða steikta tómata, ferskt tómatsalat, bakaðar baunir, kryddjurtasósu, spælegg og fleira og fleira.

IMG_3333

En þetta dugði mér nú alveg.

 

Kartöflulummur með beikoni

200 g ósæt kartöflustappa, gjarna með kryddjurtum

nokkrar beikonsneiðar

2 egg

60 g hveiti

3/4 tsk lyftiduft

1/4 tsk paprikuduft

pipar

salt

2 msk mjólk, eða eftir þörfum

1 vorlaukur

olía til steikingar

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s