Ég sat í strætó áðan og var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn. Var reyndar að koma úr Kringlunni og hafði komið við í Hagkaup og birgt mig upp af Extra Mature Cheddar-osti en svo rakst ég á tilboð á frosinni T-bein steik, þar stóð 1899 kr/kg (yfirstrikað), Tilboð: 1599 kr. 450 grömm. Það fannst mér sérkennilegt tilboð og einhvernveginn hætti við að kaupa í matinn. Hætti þó ekki við ostinn.
En kona lifir ekki á einum saman osti þótt ágætur sé og þótt ég eigi deig í ísskápnum sem ég hefði getað bakað úr og fengið mér nýbakað brauð með osti. En þar sem ég sat í strætó fór ég að hugsa um kálfshausa næstum upp úr þurru (svona er nú hugsanagangur minn) og í framhaldi af því mundi ég allt í einu að ég átti sviðahaus í frysti. Keypti hann um daginn og ætlaði að elda en svo varð ekki úr því og síðan hefur hann legið í frystinum og alltaf þegar ég mundi eftir honum var ég mjög tímabundin eða það var útgáfuboð eða matarboð eða eitthvað. Eða einhver úr fjölskyldunni var að koma í mat. Fjölskyldan mín borðar ekki svið, bölvaðir gikkirnir. Skil þau ekki.
En nú var enginn að koma í mat og ég ekkert tímabundin. Þetta var ekki stór haus og þyrfti engan óratíma þótt hann væri frosinn. Svo ég ákvað að nota tækifærið og elda mér svið. Þau þykja mér góður matur en ég geri lítið af því að sjóða þau núorðið, elda þau frekar á annan hátt. Miklu betra. Kannski ekki þjóðleg aðferð en hráefnið er það allavega …
Ég byrjaði á því, þegar ég kom heim svona korter í sex, að kveikja á ofninum og stilla á 210°C. Sótti svo sviðahausinn (eða kjammana tvo) í frystiskápinn.
Ég tók eldfast mót, hellti 2-3 msk af ólífuolíu á botninn,nuddaði sviðakjammana upp úr olíunni, kryddaði þá með salti og töluverðum pipar á báðum hliðum og setti þá í formið. Setti eina eða tvær rósmaríngreinar í formið (má líka nota þurrkaðar kryddjurtir og skar tvo væna hvítlauksgeira í sneiðar og dreifði yfir.
Svo breiddi ég álpappírsörk þétt yfir formið og setti það í ofninn í um hálftíma.
Á meðan hafði ég flysjað og skorið niður 3-4 gulrætur og hitað 250 ml af hvítvíni að suðu. Ég dreifði gulrótabitunum í fatið …
… og hellti svo sjóðheitu hvítvíninu yfir sviðin, breiddi álpappírinn aftur yfir og setti í ofninn í 40 mínútur.
Þá fjarlægði ég álpappírinn, hækkaði hitann í 240°C eða svo og steikti áfram í svona 10 mínútur, eða þar til skinnið var þurrt og aðeins byrjað að verða stökkt en ekki hart.
Bar sviðin fram í fatinu, með gulrótunum, hvítvínssoðinu, basilíkukryddaðri kartöflustöppu (nei, alls enginn sykur!) og salatblöðum.
Þetta þykir mér nú hreint ágætur matur. Eiginlega miklu betri en soðin svið. (Augað er líka betra svona.)
En hey, það hefur hver sinn smekk.
Brauð með osti – kálfshausar (sem ég las reyndar fyrst sem kálhausar!) – sviðahausar … hahaha … ég elska að lesa um hugleiðingar þínar um mat! 😀 Ég veit samt ekki hvort ég get sagt að sviðin séu rosalega girnileg (ég er í hópi með bölvuðu gikkunum!) en ef einhver getur gert sviðahausa girnilega þá ert það þú – þeir verða til dæmis strax huggulegri með hvítlauk og rósmarín! 🙂
Hugsanir mínar fara oft ýmsar krókaleiðir þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að elda. – Hausar af ýmsum skepnum eru stórlega vanmetinn matur en maður þarf að átta sig á að það er hægt að gera fleira við þá en bara sjóða þá í saltvatni.
ég hef bara lesið mig aðeins til um svið en þar kemur alltaf fram að maður ætti að sjóða í amk. 2 tíma…er það alveg örugg að hafa hann bara í um klukkutíma í ofni?
Mamma sauð svið alltaf í um klukkutíma (heldur lengur auðvitað ef þau fara frosin í pottinn) og það hef ég líka alltaf gert. Ég er því búin að borða svið soðin í klukkutíma síðustu 56 árin og hefur ekki orðið meint af því …
Þessi svið voru bökuð í um 1 klst og 20 mínútur (fóru frosin í ofninn) við háan hita (fyrst 210°C og svo 240°C síðustu mínúturnar og það er alveg örugglega nóg. Lambasvið eiga ekki að þurfa nema klukkutíma, nema helst ef á að nota þau í sviðasultu, þá sýð ég þau eitthvað lengur. Þó aldrei í tvo klukkutíma.
Ég hef reyndar líka bakað svið í leirpotti (sviðuðum römertopf) með grænmeti og þá lengur, 2-3 tíma, en þá við mun lægri hita. Og grillað þau á útigrilli með góðum árangri.