Ég átti hálfpartinn von á gestum um kaffileytið í dag og ákvað að baka köku. Gestirnir forfölluðust reyndar en þeir fá líka köku ef þeir koma á morgun og við Hjalti fengum desert (búðingurinn sem ég var að gera í eftirmat handa okkur mæðginunum var ekki orðinn stífur svo ég greip til kökunnar).
Ég var búin að ákveða að gera eplaköku en var ekki alveg viss hvernig hún ætti að vera. En svo rak ég augun í kornflexafgang í poka – ég á eiginlega aldrei kornflex en hafði keypt þetta til að nota í kornflexhjúpaða kjúklinganagga sem ég gerði fyrir útgáfuboðið vegna bókarinnar minnar. (Ég ætla ekkert að nota tækifærið og plögga bókina, geri ráð fyrir að allir lesendur séu þegar búnir að kaupa hana sko …)
Allavega, mér datt í hug hvort ég gæti ekki notað kornflexið í eplaköku. Fór og fletti upp í nokkrum bókum og vafraði aðeins um á netinu og fékk ýmsar hugmyndir. Og hér er útkoman.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 180°C.
Ég tók þrjú epli (Pink Lady), flysjaði þau, skar í fjórðunga, kjarnhreinsaði og skar svo í bita. Setti þau í skál, kreisti safa úr hálfri sítrónu yfir og velti bitunum upp úr safanum.
Svo vigtaði ég 100 g af linu smjöri og 100 g af hrásykri í hrærivélarskálina og hrærði vel saman. Það má alveg nota venjulegan sykur en það vildi svo til að ég átti engan slíkan.
Þegar blandan var orðin létt og ljós sótti ég tvö (stór) egg, braut þau í litla skál og þeytti þeim saman við í nokkrum skömmtum.
Ég vigtaði svo 90 g af hveiti og 90 g af kartöflumjöli, blandaði 1 tsk af lyftidufti saman við, setti út í hrærivélarskálina og hrærði á minnsta hraða, bara rétt til að blanda þessu saman en alls ekki meira.
Það má nota eintómt hveiti en kakan verður betri ef kartöflumjöl er haft til helminga.
Svo setti ég deigið í form og sléttaði úr því (þetta þarf að gera strax því deig með kartöflumjöli þolir illa að bíða; þess vegna þarf ofninn að vera orðin heitur og maður þarf að vera búinn að útbúa eplin), dreifði eplabitunum yfir og þrýsti þeim létt niður í deigið með flötum lófa. Setti formið á næstneðstu rim í ofninum og bakaði í 20 mínútur.
Formið, já. Hér er mikilvægur punktur. Það er mjög, mjög gott að nota smelluform eða annað lausbotna form. Ég var eitthvað annars hugar þegar ég sótti form og þetta sílikonform, sem annars er alveg ágætt, var bara ekki heppilegt fyrir svona köku. Eins og sést hér á eftir.
Á meðan kakan var í ofninum hrærði ég vel saman 50 g af linu smjöri og 40 g af hrásykri (aftur: má vera venjulegur). Vigtaði svo 75 g af kornflexi, hellti út í hrærivélarskálina og blandaði saman við – á minnsta mögulega hraða og notaði núna hrærarann en ekki þeytarann, eins og þegar ég var að hræra deigið. Kornflexið á bara rétt að blandast saman við smjörið og sykurinn en alls ekki að kurlast, það á að vera gróft.
Ég tók svo kökuna úr ofninum og hellti kornflexmulningnum yfir..
Dreifði jafnt úr kornflexinu á yfirborð kökunnar og setti hana svo aftur í ofninn í 12 mínútur. Hún átti að vera á sama hita (180°C) og áður en líklega hef ég rekið mig eitthvað í hitastillitakkann því þegar ég tók hana út sá ég að ofnhitinn var 200°C, sem var aðeins of mikið en kom þó ekki verulega að sök þar sem það var ekki allan tímann.
En kakan brann ekkert (og ef ein og ein flaga verður of dökk má bara tína þær af) og varð nokkuð hugguleg, fannst mér. Það var hins vegar töluvert vesen að ná henni úr forminu því svona köku er náttúrlega ekki hægt að hvolfa, þá er hætt við að stór hluti af kornflexinu fari veg allrar veraldar. Það hafðist þó á endanum …
Og júju, þetta reyndist hin ágætasta kaka barasta.
Eplakaka með kornflexi
3 epli
safi úr 1/2 sítrónu
100 g smjör, lint
100 g hrásykur eða sykur
2 egg, stór
90 g hveiti
90 g kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft
Ofan á:
50 g smjör, lint
40 g hrásykur eða sykur
75 g kornflex