Ég hef verið að nota rauðrófur töluvert að undanförnu, afkomendum mínum til mismikillar ánægju. Sumum þeirra þykja rauðrófur góðar, aðrir vilja hreint ekki sjá þær og svo er ónefndur afkomandi sem borðar alls ekki rauðrófur en vill endilega rauðrófusalat ef það er með fagurbleikum eplum eða perum sem hægt er að tína úr.
Sjálfri þykja mér rauðrófur ansi góðar, kann vel við jarðarbragðið (eða moldarbragðið) sem sumum er svo illa við. Lengi framan af voru þó einu rauðrófurnar sem ég þekkti þessar súrsuðu. Til allrar hamingju er fólk þó smátt og smátt að læra að gera fleira við rauðrófur því þær eru spennandi hráefni og geta gert matinn svo skemmtilega litríkan.
Ég átti steinbít í gær sem ég ákvað að steikja handa mér og syninum (hann er grasekkill þessa dagana, tengdadóttirin er í einhverjum jarðfræðileiðangri á Hawaii) og hafa með kartöflur og rauðrófusalat. Var semsagt búin að gleyma að hann borðar ekki rauðrófur (hvernig á maður að nenna að fylgjast með sérviskunni í þessu liði?) en það gerði reyndar ekkert til, það var þá bara meira handa mér.
Það er hægt að gera salat bæði úr bökuðum og hráum rauðrófum og að þessu sinni ákvað ég að hafa þær hráar en rífa þær mjög fínt. Slíkt er ekki ráðlegt að gera á rifjárni þótt það sé svosem hægt og það verður allavega að vera með hanska svo maður verði ekki eldrauður á höndunum og jafnvel víðar. Ég átti náttúrlega enga hanska. En Bosch-hrærivélinni sem ég er að prófa þessa dagana fylgir meðal annars rifjárn svo ég ákvað að nota það. Setti plötuna með fínustu götunum í það.
Ég var með gulrætur í salatinu líka og byrjaði á að flysja tvær vænar gulrætur og rífa þær fínt. Svo flysjaði ég tvær meðalstórar rauðrófur (hélt um þær með álpappírsbút til að sleppa við rauðu blettina að mestu og hafði líka pappírsbút undir til að hlífa brettinu), skar þær í stóra bita og setti í rifjárnið.
Rifjárnið var semsagt mjög fínt og þetta urðu eiginlega bara mjóir þræðir. Ég ákvað að það væri betra að hafa aðeins grófari áferð með svo ég skipti um plötu, tók aðra mun grófari, og reif eina gulrót í viðbót saman við hitt.
Ég setti 2 matskeiðar af bragðmildri olíu, safa úr 1/3 af sítrónu, 1/2 teskeið af dijonsinnepi og dálítið af pipar og salti í hristiglas og hristi vel saman.
Hellti þessu yfir rauðrófurnar og gulræturnar og blandaði vel
Setti svo væna lófafylli af klettasalati í skál, dreifði rauðrófublöndunni yfir og blandaði lauslega.
Ég var búin að sjóða nokkrar kartöflur en nú tók ég pönnu, bræddi 60 g af smjöri á henni, skar steinbítinn (um 500 g) í stykki og kryddaði með pipar og salti og svo raðaði ég þeim á pönnuna og steikti við nokkuð góðan hita í svona 2 mínútur. Sneri þeim þá, skar kartöflurnar í tvennt, setti þær á pönnuna hjá steinbítnum með skurðflötiinn niður og steikti þetta í 3-4 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt steiktur í gegn og kartöflurnar farnar að taka lit.
Þetta var alveg hreint ágætt. Það er að segja ef maður kann að meta rauðrófur. Sonurinn fékk bara steinbít og kartöflur og hann kvartaði nú ekkert.
[…] hef svosem verið með rauðrófuuppskriftir áður, til dæmis að rauðrófusalati með perum, rauðrófu- og gulrótasalati og bökuðum rauðrófum með spínati og kjöti. Það er hægt að baka þær, sjóða og grilla […]