Ofgnótt af rjómaosti

Stundum langar mig í köku. Og af því að ég hef alltaf verið á því að það sé nú meira gaman að falla fyrir freistingum en standast þær (þótt það sé kannski ekki ráðlegt að gera það að reglu), þá læt ég það oft eftir mér að baka köku.

En mig langar sjaldnast í nema eina sneið af köku, eða tvær í hæsta lagi. Og af því að það er eiginlega ekki hægt að baka bara eina sneið eða tvær, þá fá yfirleitt einhverjir aðrir að njóta góðs af kökuílöngun minni. Vinnufélagarnir oftast nær.

Í gær opnaði ég til dæmis ísskápinn, horfði á tvær öskjur af rjómaosti sem ég átti óvart (eða mig vantaði smárjómaost í annað, mundi ekki að ég átti óátekna öskju heima og keypti nýja) og allt í einu langaði mig svo í ostaköku. Bakaða ostaköku, þær þykja mér yfirleitt betri en hinar. Ég fór að hugsa um með hverju ég gæti bragðbætt hana, datt ýmislegt í hug, jafnvel ýmislegt sem ég átti til (ekki nennti ég út í búð í rokinu) en ákvað svo að það yrði karamelluostakaka.

Hljómar vel, er það ekki?

IMG_2450

En ekkert heilhveitikex (þ.e. Haustkex, sem er ekki hafrakex, take note) í þetta skipti. Ég átti Lu kanilkex og notaði það. Sextán kökur, það eru eitthvað um 190 grömm. Meira  komst ekki í litlu kvörnina svo ég ákvað að láta það duga.

IMG_2462

Ég lét töfrasprotann mylja kexið smátt og hrærði svo 75 g af linu smjöri saman við.

IMG_2466

Stráði mylsnunni á botninn á meðalstóru smelluformi og þrýsti því létt niður og aðeins upp með hliðunum. Ég var búin að hita ofninn í 180°C og bakaði botninn í svona 5 mínútur. Tók hann svo út og lét kólna og lækkaði hitann í 160°C.

IMG_2469

Á meðan fór ég að undirbúa fyllinguna. Ég byrjaði á að setja 150 ml af rjóma, 100 g af púðursykri og 50 g af smjöri í pott, hitaði að suðu og lét þetta svo malla góða stund …

IMG_2496

… Þar til komin var þykk, fallega gullinbrún karamellusósa. Þá tók ég hana af hitanum og lét hana kólna aðeins.

IMG_2481

Á meðan sósan mallaði setti ég 500 g af mjúkum rjómaosti, 4 egg, 100 g af sykri og 1 1/2 tsk af vanilluessens í hrærivélarskálina og hrærði þetta vel saman.

IMG_2490

Endaði á að hræra einni dós (200 g) af sýrðum rjóma, 18%, saman við. Hellti svo blöndunni yfir kanilkexbotninn í forminu.

IMG_2514

Svo dreypti ég karamellusósunni yfir úr sleif. Ég notaði reyndar ekki alla sósuna, skildi rúmlega þriðjunginn eftir – það má velgja hana og bera fram með kökunni eða geyma hana í kæli og nota t.d. út á ís seinna.

IMG_2519

Ég bakaði kökuna við 160°C í 45-50 mínútur, slökkti svo á ofninum og lét hana kólna í klukkutíma. – Eftir á að hyggja hefði e.t.v. verið betra að hafa hitann aðeins lægri, 150°C eða svo, og baka kökuna í klukkutíma; ég hugsaði ekki út í að ég var bæði með botn úr dökku, sætu kexi og svo var formið svart og þetta varð til þess að botninn dökknaði heldur meira en ég vildi (en brann þó ekki).

Ég lét kökuna kólna alveg í forminu en losaði hana svo úr því, renndi henni á kökudisk og setti hana í kæli yfir nótt.

IMG_2581

Þetta varð hin ágætasta kaka.

IMG_2592

Ég held hún hafi ekki minnkað vinsældir mínar neitt að ráði, nema hugsanlega ef einhver vinnufélaga minna skyldi vera í átaki.

 

Karamelluostakaka

Botn:

190-200 g kanilkex (LU)

75 g smjör

Karamellusósa:

150 ml rjómi

100 g púðursykur

50 g smjör

Fylling:

500 g rjómaostur

100 g sykur

4 egg

1 1/2 tsk vanilluessens

200 g sýrður rjómi

3 comments

  1. Þessi er alveg fullkomin í þessu svakalega haust/vetrar veðri sem nú stendur yfir !

  2. Hljomar vel! A hvað stillingu er svona bakað, blæstri…undirhita…eða?

    • Ég baka eiginlega allt á jöfnum hita (ég man ekki einu sinni hvort ofninn minn er með sérstakar stillingar fyrir undir- og yfirhita) og nota sjaldan blástur. Tek fram í uppskriftum ef e´g geri það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s