Ég bakaði brauð úr rúgmjöli í dag. Það var samt ekki rúgbrauð því þegar fólk segir rúgbrauð á það yfirleitt við seytt rúgbrauð – eða það er að segja, sætt, dökkt, hægbakað rúgbrauð. En þetta var nú ekki svoleiðis svo ég ætla að kalla það rúgmjölsbrauð. Reyndar var hveiti í því líka en það gildir nú líka um flest venjulegt rúgbrauð. Og fræ. Svo að – já, rúgmjölsbrauð með fræjum.
Upphaflega ætlaði ég reyndar að baka heilhveitbrauð en heilhveitið hafði klárast í vöfflubakstri í morgun og ég nennti ekki út í búð eftir heilhveitipoka eins og veðrið var. Enda nóg til af rúgmjöli og það er reyndar dálítið langt síðan ég hef bakað eitthvað annað en rúgbrauð úr því. Það var því tilvalið að baka rúgmjölsbrauð.
Ég bjó til deig í tvö brauð þótt ég bakaði bara annað núna (helmingurinn af deiginu bíður betri tíma í ísskápnum) og setti 850 ml af ylvolgu vatni í hrærivélarskál, stráði 1 msk af geri yfir og lét standa í nokkrar mínútur. – Það er hægt að komast af án hrærivélar en þetta er þykkt og þungt og mikið deig og aflmikil hrærivél léttir verkið ansi mikið.
Ég byrjaði á að hræra 500 g af rúgmjöli og 1 msk af salti saman við, þar til kominn var þykkur grautur.
Þá setti ég 100 ml af graskersfræjum og sama magn af sólblómafræjum (sem heita ekki sólkjarnafræ, ekki veit ég hverjum datt það í hug) út í og hrærði.
Bætti svo við brauðhveiti í nokkrum skömmtum – ég held að ég hafi notað 900 grömm af því en það getur verið svolítið misjafnt eftir því hvað mjölið tekur mikinn vökva í sig. Deigið á að vera frekar þétt en þó þannig að ekki sé hægt að taka á því og hnoða það nema maka hendurnar í hveiti.
Svona, semsagt. Ég setti deigið svo í skál (hefði auðvitað getað látið það lyfta sér í hrærivélarskálinni en ég þurfti að nota hana í annað), breiddi viskastykki yfir og lét deigið lyfta sér við stofuhita í svona þrjá tíma. Give or take, það er ekki nákvæmnisatriði.
Þá var deigið búið að lyfta sér ágætlega. Ég sló það aðeins niður, skipti því í tvennt, setti helminginn í krukku inni í ísskáp en mótaði hinn helminginn í lengju á hveitistráðu borði (og með vel hveitistráðum höndum).
Ég setti deigið í hefunarkörfu og lét það lyfta sér þar en það má líka setja það í form eða láta það bara lyfta sér á bretti og renna því yfir á plötu, það er svo þétt í sér að það ætti að halda lögun nokkurn veginn. Ég lét það lyfta sér í svona 40 mínútur og eftir 20 mínútur kveikti ég á ofninum á 240°C og setti leirdiskinn sem ég baka oftast á inn til að hita hann (það má líka hita bara bökunarplötu).
Ég tók svo leirdiskinn (eða plötuna) út, hvolfdi brauðinu á hann, setti það í ofninn og bakaði í um 35 mínútur.
Þetta eru nú kolvetni að mínu skapi.
Bara stilla sig um það í svona 20-30 mínútur að skera … en það er nú ekki endilega auðvelt.
Rúgmjölsbrauð með fræjum
850 ml ylvolgt vatn
1 msk ger
500 g rúgmjöl
1 msk salt
100 ml graskersfræ
100 ml sólblómafræ
900-950 g brauðhveiti
Mér dettur í hug hvort þetta með sólkjarnafræin komi úr þýskunni, þar sem þau heita sonnenblumenkernen – sólblómakjarnar.
Trúlega. Ég held að þetta hafi fyrst sést í vörulýsingum á brauðum frá Myllunni 1989, þeir hafa kannski verið með þýska uppskrift …