Um kjötbollur og misskilning

Ég rakst á dögunum á dálítið skemmtilegt dæmi um það (sem ég hef reyndar oft drepið á) af hverju við matreiðslubókahöfundar – og bloggarar og aðrir sem skrifa uppskriftir – þurfum að skoða svolítið hvernig við orðum hlutina í uppskriftum og þurfum að hafa í huga að það lesa auðvitað ekki allir það sama úr textanum og maður er að meina þegar maður skrifar hann. Margt er auðvitað ófyrirsjáanlegt og ekkert við því að gera. En það sem höfundur og þeir sem eru vanir eldamennsku – og vanir aðferðinni sem verið er að nota – þurfa ekki útskýringu á getur vafist illilega fyrir öðrum og það sem einum finnst augljóst hvernig á að skilja getur annar skilið á allt annan hátt af því að hann þekkir ekki það sem verið er að gera.

Dæmið sem ég rakst á hefði reyndar líklega ekki vafist fyrir neinum á íslensku en enskan gerði fyrirmælin ónákvæmari. Þetta var semsagt í umsögn um matreiðslubók á amazon og sá sem skrifaði var reyndar mjög hrifinn af uppskriftunum en kvartaði yfir að bókin væri illa yfirlesin:  ,,We made meatballs today and the instruction is to soak bread in milk and then squeeze the fluid out of the bread and into this mix – but there is no clear instruction on what to then do with the bread.“ Nú vita líklega flestir sem fengist hafa eitthvað að ráði við kjötbollueldamennsku (en um þá göfugu list mætti skrifa margt og mikið)  hvað átt er við og á íslensku væri þetta orðað einhvernveginn svona ,,bleyttu brauðið í mjólkinni og kreistu svo úr því vætuna og blandaðu því saman við farsið“ en á ensku hefur líklega staðið ,,soak the bread in the milk, then squeeze out the fluid and mix it into the meat“ eða eitthvað álíka og þá getur ,,it“ vissulega misskilist ef maður kann ekki á kjötbollur.

En þetta er nú inngangur að því að ég gerði kjötbollur á dögunum sem voru einmitt með bleyttu brauði útí. Meira að segja tvisvar því ég gerði þær fyrst í sumarbústað á föstudagskvöldið, þegar við vorum nýkomin að sunnan og svöng og langaði í eitthvað frekar fljótlegt, og svo ákvað ég að setja uppskriftina hér en hafði ekki tekið neinar myndir af bollunum í Skagafirðinum svo ég gerði þær bara aftur. Með smábreytingum reyndar.

Til hvers brauðið? spyr nú kannski einhver. Sko, í flestum kjötbollum er egg, mjólk eða eitthvað annað ,,blautt“ hráefni sem bindiefni og brauð, brauðmylsna, hafragrjón, hveiti eða önnur sterkja til að mýkja kjötbollurnar. Það er vel hægt að sleppa brauði eða annarri sterkju en þá verða bollurnar yfirleitt þurrari og harðari. Þeir sem vilja forðast glúten geta notað hafragrjón; þeir sem eru á lágkolvetnafæði geta bara sleppt sterkjunni og notað þá kannski bara rauðuna úr egginu (en bollurnar verða samt ekki eins góðar, sko).

IMG_1991

 

Ég notaði semsagt 600 g af nautahakki, 1 rauðlauk (má vera venjulegur), tvo væna hvítlauksgeira, góðan slatta af basilíku, eitt egg sem er að fela sig á bak við basilíkuna á myndinni, 2-3 brauðsneiðar (ég átti ekki heimabakað brauð og heldur ekki deig svo ég keypti rosa hollt gróft lífskorna-eitthvað brauð sem var reyndar ekkert gott en mátti alveg nota í svona), sirka 150 ml af mjólk, 2-3 msk af hveiti til að velta bollunum upp úr, pipar, salt, 1 tsk af nautakrafti og 200 ml af rauðvíni í sósuna. Sósurauðvíni, sem ég á gjarna til en það má líka nota bara vatn og heldur meira af nautakrafti.

Svo notaði ég líka ólífuolíu, sósujafnara og sósulit sem er ekki á myndinni og heldur ekki í felum eins og eggið.

Í staðinn fyrir ferska basilíku (eða með henni) má nota ýmsar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar. Þurrkað timjan er til dæmis fínt.

IMG_1997

Ég byrjaði á að rífa brauðið niður og bleyta það í mjólkinni. Stundum (ef maður vill hafa farsið alveg slétt, til dæmis) er skorpan tekin af en mér fannst allt í lagi að hafa hana með þarna, hún var líka mjúk. Ég hafði brauðið í mjólkinni í fáeinar mínútur og lét það blotna vel í gegn.

IMG_2001

Á meðan saxaði ég laukinn og hvítlaukinn og setti í skál og svo tók ég brauðið, kreisti mjólkina lauslega úr því, setti það (brauðið, svo það fari nú ekki á milli mála) út í og blandaði þessu vel saman þannig að brauðið færi í mauk. Það má nota sleif en ég notaði nú bara hendurnar.

(Ef ekki er notað rauðvín í sósuna má vel nýta mjólkina í hana. En mjólk og rauðvín fara ekki vel saman svo að ef rauðvínið er notað er best að henda mjólkinni.)

IMG_2006

Ég saxaði svo meiripartinn af basilíkunni (skildi nokkur blöð eftir) frekar gróft og blandaði saman við ásamt pipar og salti.

IMG_2012

Að lokum setti ég hakkið og eggið út í og blandaði vel saman. Eins og ég sagði, þá finnst mér langfljótlegast og þægilegast að gera þetta með höndunum en auðvitað má nota sleif. – Ef ég er ekki viss um hvort kryddunin sé í lagi steiki ég oft litla prufubollu á þessu stigi og smakka hana til að geta bætt við- kryddi ef þarf.

IMG_2014

Ég tók svo dálítið af farsinu, mótaði í meðalstóra bollu í lófanum og flatti bolluna svo aðeins út á milli lófanna því ég vildi bollur sem aðeins þyrfti að steikja á tveimur hliðum – eiginlega lítil buff, kannski. Úr þessu urðu einar 14 bollur.

IMG_2017

Hitaði svona 2-3 msk af ólífuolíu á pönnu, velti bollunum upp úr hveiti, raðaði þeim á pönnuna og brúnaði á annarri hliðinni við nokkuð góðan hita í svona 2 mínútur, eða þar til þær höfðu tekið góðan lit. Þá sneri ég þeim gætilega og brúnaði álíka lengi á hinni hliðinni.

.IMG_2030

Þá hellti ég rauðvíninu á pönnuna, setti nautakraftinn út í ásamt dálitlum pipar og salti, hitaði að suðu og lét malla rólega svona 5 mínútur. Það er ágætt að snúa bollunum aftur eftir 2-3 mínútur en ekki nauðsynlegt og ef þær eru lausar í sér og hættir við að molna er betra að sleppa því.

Þegar þær voru tilbúnar tók ég þær upp með spaða og setti á disk, bætti dálitlu vatni á pönnuna (magnið fer eftir hvað maður vill mikla sósu og það gæti þurft að bæta við kjötkrafti og kryddi), lét sjóða rösklega upp og þykkti svo sósuna með sósujafnara og dekkti hana með matarlit. Ég setti bollurnar svo aftur á pönnuna og bar þær fram á henni en það má líka setja þær beint á fat þegar þær eru teknar af pönnunni og hella svo sósunni yfir.

IMG_2045

Ég saxaði svo afganginn af basilíkunni og stráði yfir bollurnar.

IMG_2071

Ég hafði kúskús með bollunum og það var fínt en fyrir norðan á dögunum vorum við með sæta kartöflustöppu og ekki var það síðra.

IMG_2083

 

Kjötbollur í rauðvínssósu

2-3 brauðsneiðar

150 ml mjólk

600 g nautahakk

1 laukur

2-3 hvítlauksgeirar

slatti af basilíku

pipar

salt

1 egg

hveiti til að velta bollunum upp úr

ólífuolía til steikingar

200 ml rauðvín

1 tsk nautakraftur, eða eftir þörfum

vatn eftir þörfum

sósujafnari

sósulitur (má sleppa)

2 comments

  1. Þessi réttur lýtur alveg svakalega vel út 🙂

    Annars verð ég bara að spyrja hvar þú fékkst þessa voldugu pönnu ? lýtur rosalega vel út !

  2. Þetta er Lodge steypujárnspanna. Ég nota fyrst og fremst steypujárnspönnur, kann afskaplega vel við þær og á einar sex-sjö í mismunandi stærðum – þessi er tólf tommu en ég á eina fimmtán tommu og hún er verulega voldug. En þær eru náttúrlega níðþungar, þessar stærri … Það festist eiginlega ekkert við þær, þær brúna vel og gæti ekki verið auðveldara að þrífa þær, ég nota aldrei annað en heitt vatn og uppþvottabursta. Og þær endast og endast og endast.

    Ég held að Lodge hafi ekki fengist hér þegar ég keypti þessar (en reyndar aðrar tegundir sem eru sjálfsagt ekkert síðri. Þær fást núna í Kokku en kosta sitt. Ég keypti mínar aftur á móti flestar frá Bandaríkjunum í gegnum Shop USA og tókst að finna mjög góðan díl, sérstaklega á fyrri sendingunni. Annars er sendingarkostnaður stórmál á svona þungavöru svo það er skiljanlegt að þær kosti töluvert hingað komnar þótt þær séu til þess að gera hræódýrar vestra.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s