Kaka með kaffinu

Ég ætlaði eiginlega ekkert að vera með kökuuppskrift núna en á heimleiðinni úr vinnunni var ég að rifja upp baksturstilraunir mínar á unglingsárum og mundi eftir köku sem mér þótti ágæt – þetta var ein af tilraununum sem tókst en það gerðu þær sannarlega ekki allar. Og ég áttaði mig á því að hún var satt að segja mjög lík köku sem ég bakaði af fingrum fram í sumarbústað á dögunum og var alveg ágæt. Það var engin uppskrift að henni og ég hafði heldur ekki uppskrift að kökunni sem ég bakaði í árdaga en allt í einu langaði mig að gera einhvernveginn svona köku, sambland af þessum tveimur, svo að þegar ég kom heim athugaði ég hvort ég ætti ekki örugglega til epli (þetta var alltsvo eplakaka). Jú, þau voru til svo að í staðinn fyrir að elda eitthvað heilsusamlegt í kvöldmatinn bakaði ég köku. Svona fer það stundum.

En vinnufélagarnir græða nú líklega á þessu …

IMG_1316

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo bræddi ég 100 g af smjöri og setti í hrærivélarskálina ásamt 90 g af sykri og 90 g af púðursykri. (Það mega alveg vera 100 g sko, ef ekki er til nákvæm vigt).

IMG_1319

Ég hrærði þetta saman og  þeytti svo þremur eggjum og 1 tsk af vanilluessens saman við.

IMG_1321

Blandaði saman 250 g af hveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti og 1/2 tsk af kanel, setti út í skálina með blautefnunum og hrærði – en bara rétt eins og þurfti til að blanda þessu saman. Þetta varð frekar þykkt deig.

IMG_1328

Ég penslaði meðalstórt smelluform með olíu, klippti hring úr bökunarpappír og setti á botninn, hellti deiginu í formið og dreifði úr því með sleikju. Það þarf alls ekki að vera slétt.

IMG_1330

Ég tók svo þrjú epli. Best er að þau séu frekar sæt og safarík – ég var með Pink Lady en það mætti t.d. nota Gala, Golden Delicious eða Jonagold. Flysjaði þau, skar í fjórðunga, skar burt stilk og kjarna og skar hvern fjórðung svo í fjóra báta.

IMG_1332

Ég raðaði eplabátum svo í hring meðfram brún formsins. Lét þá skarast aðeins og en lagði þá bara ofan á deigið, var eiginlega ekkert að þrýsta þeim niður.

IMG_1333

Það fóru um 2 1/2 epli í hringinn og ég tók það hálfa sem eftir var og skar í litla bita. Blandaði þeim saman við 2-3 msk af grófmuldum pekanhnetum (mættu vera valhnetur, eða bara sleppa) og setti í miðjuna. Svo stráði ég svona 3 matskeiðum af púðursykri yfir allt saman. Setti svo kökuna í ofninn, á neðstu rim, og bakaði í hálftíma.

IMG_1355

Ég tók svo kökuna út, losaði hana úr forminu og lét hana kólna á grind. Setti hana svo á fat.

IMG_1385

Mér finnst ekki þurfa neitt með svona köku en það má auðvitað alveg hafa þeyttan rjóma með.

IMG_1413

Púðursykurinn karamelliserast ofan á kökunni. Hún var alveg ágæt bara.

Eplakaka með púðursykri

100 g bráðið smjör

90 g sykur

90 g púðursykur (og 3 msk ofan á kökuna)

3 egg (stór)

1 tsk vanilluessens

250 g hveiti

2 tsk lyftiduft

1/4 tsk salt

1/2 tsk kanell

3 sæt epli

2-3 msk grófmuldar pekan- eða valhnetur

Færðu inn athugasemd