Það var víst töluvert um vöfflubakstur í Þingholtunum í gær, á menningarnóttina sem er ekki nótt – eða allavega er önnur sort af menningu tekin við hér í miðbænum um það leyti sem menningarnóttin fer að standa undir nafni – eða öllu heldur seinni hlutanum af því. En ég tók ekki þátt í þessum vöfflubakstri nema hvað það komu gestir og ég skellti í fáeinar. Bara hefðbundnar einfaldar vöfflur, án uppskriftar eða mælinga.
En svo var ég að lesa í morgun um íslenskar nítjándu aldar veislur, brúðkaup og erfidrykkjur og svoleiðis, þar sem yfirleitt var boðið upp á vínsúpu (sem var eiginlega sambland af sætsúpu og glöggi), steik og bakkelsi á eftir. Þetta var einkum steikt bakkelsi, lummur fyrir almúgann og pönnukökur handa fyrirfólkinu, eins og mig minnir að ég hafi sagt frá hér fyrr í sumar, og svo þegar líða tók á öldina urðu vöplur æ algengari. En til að baka þær þurfti náttúrlega sérstakt áhald og það var ekki til á hverjum bæ framan af.
(Vöplur, sagði ég, ekki vöfflur, því það var heitið sem ég ólst upp við. Mig rámar óljóst í steikingu í gamla vöplujárninu sem var hitað á eldavélarhellu; það var ekki komið rafmagn heima fyrstu árin. En vöfflujárn var örugglega eitt af fyrstu rafmagnsheimilistækjunum sem komu í Djúpadal og það voru oft vöfflur á borðum. Með miklum sykri eða rabarbarasultu.)
En í þessum nítjándu aldar veislulýsingum rakst ég á heitið grinda(r)brauð, sem mun hafa verið tilraun til að íslenska vöffluheitið. Mér finnst það skemmtilegt en á ekki von á að vel mundi ganga að fá það tekið upp. Mér finnst það samt eiga miklu betur við vöfflur bakaðar í svokölluðu belgísku vöfflujárni en þessar hefðbundnu:
Sko bara, er þetta ekki réttnefnt grindabrauð?
Og þetta varð allt til þess að mig fór að langa í vöfflur (mér dettur heldur ekki í hug að kalla svona bakkelsi vöplur, það eru bara þessar gömlu hefðbundnu) og ákvað að baka nokkrar. Í belgíska vöfflujárninu mínu (ég á báðar sortir).
Ég notaði ekki venjulegu uppskriftina mína sem er ekki uppskrift, heldur aðra sem er ögn fyrirhafnarsamari (þó ekki mikið) en mér finnst gefa sérlega léttar og stökkar vöfflur.
Það væri synd að segja að hráefnið í þessar vöfflur sé sérlega litríkt. Þarna er allt hvítt nema vanilluessesinn (jú, og olían er litlaus). En þetta er alltsvo 175 g hveiti, 50 g kartöflumjöl, 1 tsk lyftiduft, 1/4 tsk matarsódi, 1/4 tsk salt, 1 egg (stórt), 1 msk sykur (má sleppa en hann gerir vöfflurnar brúnni og stökkari), 175 ml hrein jógúrt, 4 msk mjólk (ég bætti aðeins við seinna svo þetta urðu 6 msk í allt), 100 ml matarolía og 1/2 tsk vanilluessens.
Ég byrjaði á að aðskilja eggin og þeyta hvítuna. Þar sem þetta var bara ein hvíta notaði ég mjög litla skál, rétt svo að þeytararnir kæmust fyrir, og það tók ekki nema hálfa mínútu eða svo að þeyta þar til komnir voru stífir toppar. Það borgar sig aldrei að ofþeyta hvítur, ekki taka mark á neinum sem segir að það eigi að þeyta þær ,,til dauðs“ eða eitthvað álíka.
Ég setti svo sykurinn og vanilluessensinn út í og blandaði saman við (þeytti í svona 5 sekúndur í viðbót en það má líka blanda þessu saman við með sleikju).
Svo blandaði ég hveiti, kartöflumjöli, lyftiefnum og salti saman í skál og setti eggjarauðuna, jógúrtina, mjólkina og olíuna út í og hrærði þar til blandan var nokkurn veginn kekkjalaus.
Ég setti svo eggjahvítuna út í og blandaði gætilega saman. Fannst soppan aðeins of þykk svo ég bætti við 2 msk af mjólk til að þynna hana ögn.
Ég var búin að hita vöfflujárnið og setti deigið á það með ausu. Það verður hver að finna út fyrir sig hvaða magn á að setja, hver hitinn á að vera og hve lengi á að steikja. Ég byrjaði með aðeins of lítið (magnið sem þarna sést en þó ekkert að ráði – matskeið í viðbót hefði verið passlegt).
Eins og sést fyllti vafflan ekki alveg út í járnið þótt ekki munaði miklu svo ég bætti svolitlu við þær sem á eftir fóru. Ég steikti vöfflurnar við ríflega meðalhita, svona 4-5 mínútur. Deigið dugði í 10 stykki (þ.e. 5 umferðir).
Þær eru bestar nýsteiktar og stökkar og ef maður ætlar að bera allar fram í einu er gott að hita ofninn og láta þær sem búið er að steikja bíða í honum – á grind en ekki plötu. En annars er alltaf best að setja þær á rist og stafla þeim ekki upp fyrr en kannski um leið og þær eru bornar fram. Eins og ég gerði hér.
Ég átti bláber og jarðarber og hafði þau með, ásamt þeyttum rjóma. Þetta er afskaplega sykurlítið en að sama skapi gott en þeir sem vilja sætari vöfflur gætu til dæmis hellt hlynsírópi yfir eða borið vöfflurnar fram með heitri karamellusósu og pekanhnetum eða einhverju slíku …
En ég lét berin og rjómann nægja í þetta skipti.
Stökkar vöfflur
1 egg
1 msk sykur (má sleppa)
1/2 tsk vanilluessens
175 g hveiti
50 g kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
175 ml hrein jógúrt (má nota súrmjólk)
6 msk mjólk, eða eftir þörfum
100 ml matarolía
Í Belgíu dusta menn flórsykri yfir vöfflurnar. Síðan má raða á þær berjum og rjóma : )
[…] mér einmitt vöplur í dag en ætla nú ekki að hafa uppskrift af þeim – ein svoleiðis er til dæmis hér – en svo var ég að hugsa um hvað ég ætti að fá mér út á þær. Mér voru gefnar […]