Ég held að Marta María hafi eitthvað aðeins misskilið mig því hún segir á Smartlandi að ég sé að reyna að borða meira grænmeti. Það er alls ekki rétt, ég borða fullt af grænmeti og öðrum jurtum og þarf ekkert að auka við það. Ég er hins vegar að reyna að borða minna af kjöti og svoleiðis og það gengur verr.
Tökum kvöldmatinn minn til dæmis. Hann var bæði fiskur og kjöt, ég gat ekki látið annað duga. Reyndar líka baunir og græmeti og sollis en það hefði svosem alveg átt að duga mér, ég hefði getað sleppt fiskinum og ég tala nú ekki um kjötinu … Jæja, en kjötið var nú aðallega notað sem krydd. En þetta hefði semsagt getað verið linsubaunaréttur ef mér hefði sýnst svo.
Ég kom við í Víði á leiðinni heim og sá þar regnbogasilungsflak, ætli það hafi ekki verið svona 250-300 g. Passlegt fyrir mig í kvöldmatinn og í nestið á morgun. Svo að ég keypti það en vissi svosem ekkert hvað ég ætlaði að gera við það nema örugglega ekkert með sætu mauki eins og mangóchutney og ekkert með hnetum – ég er búin að elda slíka silungsrétti nokkrum sinnum undanfarið. Svo að ég fór í skápana þegar ég kom heim.
Það voru til puy-linsubaunir (200 ml), nokkrar litlar, nýjar kartöflur, tvær litlar bjórpylsur (mætti nota chorizo eða einhverja kryddpylsu, líka beikon), einn lítill rauðlaukur, einn hvítlauksgeiri, þrír litlir vorlaukar, steinselja, hálf sítróna, sirka 40 g af smjöri, 1/2 sítróna, pipar, salt, 1 tsk af grænmetiskrafti – jú, það mátti gera eitthvað úr þessu.
Ég byrjaði á að hita vatn í potti og setti svo linsubaunir og grænmetiskraft út í og lét malla í 15 mínútur (það er ekki nóg til að fullsjóða linsurnar en þær eru svo eldaðar áfram, sjá hér á eftir).
Ég skar kartöflurnar í tvennt (fernt eða smærra ef þær eru ekki sérlega litlar), pylsurnar í þunnar sneiðar og saxaði hvíta hlutann af vorlauknum, rauðlaukinn og hvítlaukinn.
Svo bræddi ég svona 2 tsk af smjörinu á pönnu og setti lauk, vorlauk, hvítlauk, pylsu og kartöflur á hana og lét krauma við meðalhita í svona 6-8 mínútur. Hrærði oft á meðan. Svo kreisti ég mestallan (en ekki allan) safann úr sítrónuhelmingnum yfir og lét sjóða niður.
Þegar linsurnar voru búnar að sjóða í 15 mínútur hellti ég þeim á pönnuna og lét sjóða áfram þar til linsurnar og kartöflurnar voru meyrar. Ef mikið soð er í linsupottinum er best að setja það ekki allt en geyma það sem er umfram og bæta því á pönnuna ef allur vökvi gufar upp. – Ef lítið soð er eftir á linsunum má bæta við vatni eftir þörfum en ekki meira en svo að allur vökvi hafi gufað upp þegar þetta er fullsoðið.
Á meðan bræddi ég afganginn af smjörinu á annarri pönnu, skar silungsflakið í þrjá bita (það má líka hafa það heilt), kryddaði með pipar og salti, setti bitana svo á pönnuna með roðhliðina niður og steikti við meðalhita í 5-6 mínútur, eða þar til silungurinn var nærri steiktur í gegn. Þá kreisti ég afganginn af safanum úr sítrónuhelmingnum yfir silunginn, sneri honum við og steikti í svona mínútu á hinni hliðinni.
Ég saxaði svo græna hlutann af vorlauknum og steinseljuna gróft og hrærði saman við linsublönduna.
Hellti svo öllu af pönnunni á fat og setti silunginn ofan á.
Þetta var nú ekki slæmt.
En semsagt bæði fiskur og kjöt (og baunir og grænmeti og alles) …
Steiktur silungur með linsubaunum og kartöflum
200 ml puy-linsur
1 tsk grænmetiskraftur
1 lítill rauðlaukur
2-3 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
2 litlar kryddpylsur
nokkrar litlar, nýjar kartöflur
40 g smjör
safi úr 1/2 sítrónu
silungsflak, svona 250-300 g
pipar
salt
steinselja