Eat food. Not too much. Mostly plants, segir Michael Pollan og þetta eru náttúrlega einhver einföldustu og bestu – nei, ekki einhver, þessi sjö orð eru einföldustu og bestu ráðleggingar sem hægt er að gefa um mataræði og heilsu, það er ég sannfærð um.
Mér gengur samt misjafnlega að fara eftir þeim. Eat food – allt í lagi með það sko. Þegar Pollan segir food á hann við alvörumat, sem minnst unninn, ekki verksmiðjuframleiddan og alls ekki einhvern samsetning sem er merktur heilsu- eða hollustu- eitthvað í bak og fyrir. Eða eins og hann segir: ,, … if you’re concerned about your health, you should probably avoid food products that make health claims. Why? Because a health claim on a food product is a good indication that it’s not really food, and food is what you want to eat.“ Oftast er það svo að því fleiri innihaldsefni sem talin eru upp á umbúðum um matvöru, þeim mun minna langar mig í hana. Auk þess get ég yfirleitt gert eitthvað betra sjálf. Svo þetta gengur ágætlega.
Not too much … já. Ég borða oft of mikið. En ég reyni núorðið að takmarka ofátið við hollari endann á skalanum. Borða frekar of mikið af mögru kjöti, fiski og grænmeti en af kökum og sætmeti til dæmis. (Þetta gengur misjafnlega – en er þó í áttina.)
Mostly plants. Þar er kannski aðalþröskuldurinn. Vissulega borða ég heilmikið úr jurtaríkinu, grænmeti, ávexti, korn, baunir og þess háttar en oftast nær er ég með kjöt eða fisk og þá er hlutfallið af því á móti meðlætinu oft hærra en það ætti að vera. Að hluta til e.t.v. vegna þess að ég er oftast að elda fyrir mig eina og það er ekki alltaf auðvelt að kaupa og/eða elda litla skammta af kjöti og fiski og ég freistast þá til að borða meira af því en ég geri kannski annars.
En ég er samt að reyna að skipta meira og meira yfir í grænmeti þótt ég verði örugglega alltaf alæta. Og þegar ég sá það í dag að ég mætti eiginlega ekki vera að því að koma við í búð á heimleiðinni ákvað ég að taka bara baunadós úr jarðskjálftabirgðunum mínum og nota eitthvað fleira sem ég ætti til og búa mér til baunabuff í kvöldmatinn. Reyndar vissi ég að það var ekki mikið til því ég var búin að vera í sumarbústað í Skagafirði frá því á fimmtudagsmorgun, kom heim seint í gærkvöld og hafði ekkert farið í búð. En eitthvað hlaut að finnast.
Ég kafaði ofan í jarðskjálftabirgðirnar (niðursuðudósasafnið mitt heitir þetta af því að það gæti jú komið sér vel ef náttúruhamfarir riðu yfir) og greip dós. Hélt að það væru kjúklingabaunir en sá þegar ég var búin að opna hana að þetta voru augnbaunir. En það skipti ekki máli svosem, það má nota ýmsar tegundir af baunum.
Svo var ég með tvær gulrætur (frekar litlar), sellerístöngul, rauðlauk, eitt egg, sítrónu (notaði bara börkinn), nokkrar timjangreinar (má líka vera þurrkað timjan), smábita af parmesanosti (má sleppa), 200 ml af raspi (ég notaði panko-rasp, má vera venjulegt), 1 msk af karrídufti, 1 tsk af kummini, ögn af cayennepipar og salt. Það má annars nota hvaða krydd sem mann lystir en það er best að vera ekkert að spara það sérstaklega.
Ég byrjaði á að flysja gulræturnar og rauðlaukinn, skar hvorttveggja í bita ásamt sellerístönglinum og setti í matvinnsluvélina. Strauk líka blöðin af timjaninu og setti út í. Svo grófsaxaði ég þetta í vélinni.
Svo fínreif ég sítrónubörkinn og parmesanbitann og setti út í.
Hellti öllum leginum af baununum og setti þær út í ásamt egginu og kryddinu. Notaði púlshnappinn á vélinni til að grófmala baunirnar því ég vildi alls ekki að þetta yrði að fínu mauki.
Það er sjálfsagt að smakka maukið til að athuga hvort kryddunin er hæfileg. Reyndar má alveg borða það eins og það kemur fyrir ef maður nennir ekki að steikja …
Að lokum blandaði ég raspinu saman við. Það gæti þurft aðeins meira rasp ef maukið er svolítið blautt eða loðir illa saman.
Svo mótaði ég um 1 cm þykk buff úr maukinu. Ég hafði þau frekar lítil, þá ætti þetta að duga í 8-10 buff, en það má alveg hafa þau stærri eða þá gera litlar bollur úr maukinu. Hitaði svona 3 msk af olíu á pönnu og steikti buffin við meðalhita í 3-4 mínútur á hvorri hlið.
Á meðan gerði ég sósu til að hafa með: Setti 200 ml af hreinni jógúrt í skál, setti svona 2 msk af mangóchutney út í, hrærði saman og malaði dálítinn pipar yfir. Þessi sósa verður svolítið sæt en það má alveg nota minna mangóchutney og e.t.v. hafa eitthvert krydd eða kryddjurtir í staðinn.
Ég setti svo buffin á fat …
Þar sem buffin innihalda bæði baunir og grænmeti er kannski ekki endilega þörf á miklu meðlæti. Ég hefði þó haft grænt salat ef ég hefði átt einhver salatblöð en lét nægja að hafa gúrkusneiðar og sellerílauf með, auk mangójógúrtsósunnar.
Ég reyndi að halda mig við ,,not too much“-prinsippið – en þetta voru alveg ágæt buff og ég hefði vel getað borðað eitt í viðbót. En ég á allavega eitthvað eftir til að taka með og borða í hádeginu á morgun.
Bauna- og grænmetisbuff
1 dós niðursoðnar baunir (t.d. kjúklinga-, augn- eða smjörbaunir)
2 gulrætur
1 sellerístöngull
1 rauðlaukur
nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan
börkur af 1 sítrónu
smábiti af parmesanosti
1 egg
1 msk karríduft
1 tsk kummin
cayennepipar á hnífsoddi
salt
3 msk olía til steikingar
*
Mangó-jógúrtsósa
200 ml hrein jógúrt
2 msk mangóchutney
nýmalaður pipar
Hve mikið af raspi var notað? 🙂
Það stendur þarna, 200 ml (2 dl), en eins og ég segi líka gæti þurft meira ef maukið er blautt.