Ég er í breytinga- og grúskstuði heimavið þessa dagana (í sumarfríinu) af ýmsum ástæðum – breytingarnar eru reyndar nauðsynlegar því bæði þarf ég að endurskipuleggja til að koma fyrir húsmunum sem ég fékk á dögunum úr búi foreldra minna og svo hrundi rúmið mitt undan mér og ég ákvað að skipta (og áður en einhver fer að segja brandara um alla þyngdina (mig) sem rúmið hefur þurft að bera, þá brotnaði löppin undan því þeim megin sem enginn sefur nokkurntíma nema Úlfur dóttursonur minn þá sjaldan hann gistir hjá mér, svo það var líklega ekki ástæðan – rúmið bara orðið gamalt og lasburða). Allavega, ég ætla að nota tækifærið, fá mér minna rúm og flytja mig inn í minna herbergi en breyta gamla herberginu í vinnu-, bóka-, dútl- og geymsluherbergi. Það heitir núna alltmögulegtherbergið.
En þetta þýðir allt heilmikla flutninga á húsgögnum og bókum og kössum og dóti, enda er ég komin með þursabit. Og svo er ég að nota tækifærið og fara í gegnum fullt af kössum og körfum og skúffum og hillum og reyna að henda sem mestu því ég er safnari og þá erum við ekki að tala um matreiðslubækur. Ég er voða lítið fyrir að henda, satt að segja, og þess vegna er dáááááálítið mikið af þessu. En ég er að reyna að vera hörð …
Málið er að maður rekst á svo margt í svona grúski og þarf að skoða myndir og lesa bréf og fletta bæklingum og allt það. Og ég rakst meðal annars á mynd af hafralummum – eða skonsum, ég er ekki viss hvort á að kalla það – sem ég bakaði stundum á tímabili og þóttu góðar en ég var eiginlega búin að gleyma. Ég mundi reyndar ekki uppskriftina en hún var mjög einföld og lítið mál að endurskapa hana. Svo að ég gerði það um helgina, tvisvar meira að segja.
Það eru hafragrjón í þessum skonsum (jú, ætli ég kalli það ekki bara skonsur) en það er hveiti líka svo þetta er ekki fyrir þá sem vilja forðast hveiti alfarið. Ég notaði smjör núna en hef líka notað olíu með góðum árangri. Það er enginn sykur í deiginu en það er upplagt að blanda ávöxtum saman við og gera þær sætar þannig (þá mundi ég kannski frekar kalla þær lummur) eða borða þær með hlynsírópi, hunangi eða sultu.
Ég byrjaði á að hræra saman 2 egg og 200 ml af mjólk (ég notaði léttmjólk) í skál.
Svo hrærði ég 150 g af hveiti, 1 1/2 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti saman við.
Og síðan blandaði ég 150 g af hafragrjónum saman við. Deigið á að vera þykkt, svo þykkt að það renni frekar lítið út á pönnunni og skonsurnar verði þykkar, en þó ekki þurrt. Það má þynna það með mjólk eða þykkja það með ögn af hveiti eftir þörfum, en þó ekki fyrr en búið er að bræða 50 g af smjöri og hræra saman við (eða 3-4 msk af olíu).
Á þessu stigi eru bragðefni sett út í ef þau eru notuð, sem þarf svosem ekki. Ég ætlaði að gera bæði sætar og ósætar skonsur og notaði svolítinn fínrifinn sítrónubörk í helminginn af deiginu en hálfa teskeið af vanilluessens í hinn helminginn. En þegar ég gerði skonsurnar aftur daginn eftir (fyrir afmælið hennar Gurríar) setti ég nokkur söxuð basilíkublöð og nýmalaðan svartan pipar út í deigið, það kom sérlega vel út.
Ég hitaði svo pönnuna með svolitlu smjöri og setti deigið á pönnuna með matskeið, þær urðu kannski svona 8 cm í þvermál. Þegar ég gerði skonsurnar fyrir afmælisveisluna hafði ég þær minni, svona 6 cm.
Ég steikti þær við vægan hita í svona 5-6 mínútur á annarri hliðinni, eða þar til loftbólugöt voru farin að sjást á yfirborðinu – þá styttist í að þær séu steiktar í gegn.
Þá bætti ég smjöri á pönnuna og sneri þeim. Steikti þær í svona tvær mínútur á hinni hliðinni og tók þær svo af pönnunni og lét kólna.
Ég blandaði lófafylli af f hindberjum og lófafylli af brómberjum saman við afganginn af deiginu og steikti skonsur/lummur úr því líka.
Og hér eru þær. Góðar volgar.
Þessar ósætu lét ég kólna alveg og smurði þær svo og setti álegg á þær. Primadonnaost og reyktan lax í þessu tilviki en það má vera hvað sem er. Þessar með basilíkunni voru líka mjög góðar með eintómu smjöri.
Ég skreytti laxaskonsurnar með timjankvisti en það var semsagt bara skraut.
Uppskriftin dugir í 12-20 skonsur eftir stærð en það er ekkert mál að minnka hana eða stækka.
Hafraskonsur
2 egg
200 ml mjólk
150 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
150 g hafragrjón
50 g smjör eða 3-4 msk olía (og meira til að steikja upp úr)
Bragðefni eftir smekk, t.d. rifinn sítrónubörkur, vanilla, basilíka, pipar
e.t.v frosin ber eftir smekk
Þessar uppskrift var frábær ! Skellti í þær í morgun hafði þær ósykraðar og fóru vel niður með góðri sultu.
Annars er ein spurning ótengd þessari uppskrift sem ég ætlaði að athuga hvort þú gæri svarað ( sem helsti matargúrú landsins ) hver er munurinn á parmesan kjúklingi og mílanó kjúkling ?
Þessi er svolítið erfið vegna þess að bæði heitin hafa verið notuð um ýmiss konar samsetningar og ég held að núna séu þetta meira og minna samheiti. Raunar eru þetta hvorttveggja ítalsk-amerískir réttir sem eiga uppruna sinn í ítölskum kálfakjötsréttum, cotelette alla milanese (kóteletta í raspi, ekki ósvipuð vínarsnitsel) og costelette alla parmigiana (kóteletta í raspi sem var djúpsteikt og ekki með neinum parmesanosti, heldur kennd við borgina Parma). Sá réttur varð í Ameríku að kjúklingarétti (kjúklingur mun auðfengnari og ódýrari þar en kálfakjöt) þar sem kjúklingurinn var steiktur og síðan þakinn tómatsósu og mozzarellaosti. Seinna hefur fólki svo farið að þykja eðlilegt að réttur sem hét Parmesan chicken innihéldi parmesanost og þá var farið að nota hann með eða í staðinn fyrir mozzarellaostinn.
Það sama gerðist með mílanósku kálfakótelettuna, það var farið að nota kjúklingabringur í réttinn og þar var líka farið að bæta við tómatmauki og mozzarellaosti og þetta var kallað milanese alla napolitana (tómatarnir og mozzarellaosturinn voru áhrif frá Napólí). Þannig að réttirnir voru orðnir mjög líkir eða nánast sami rétturinn en svo urðu líka til alls konar tilbrigði við þá báða.
Sumstaðar er ,,milanese“ notað um alls konar kjöt sem er barið þunnt, velt upp úr eggi og brauðmylsnu og steikt. Og sama er í rauninni með parmesan eða parmigiana, nema þá er yfirleitt parmesanostur í raspinu (sem er raunar oft líka í milanese-kjúklingi). En þessi heiti eru líka notuð um margskonar aðra kjúklingarétti sem eiga í rauninni fátt sameiginlegt nema kjúklingnum er velt upp úr raspi. Stundum er tómatsósa, stundum ekki, stundum ostur, stundum ekki …
Heldurðu að ég hafi ekki akkúrat verið að dusta rykið af hafralummuskonsunum mínum í morgun 🙂 Maður er ekkert lengur að þessu en að rista brauð…
Einmitt. Svo komst ég að því um helgina að þetta er upplagt sumarbústaðabakkelsi – það væri jafnvel hægt að blanda saman þurrefnunum áður en maður fer í bústaðinn og hafa meðferðis í boxi, þá þarf bara mjólk, egg og svo olíu eða smjör til viðbótar. Og svo kannski einhver bragðefni eftir smekk – eða bara nýtínd ber eða eitthvað slíkt.
Já það er sniðugt! Þegar ég var unglingur þá átti ég einmitt allt í kryddbrauð í góðu lokuðu boxi, hellti svo bara í skál, ekkert nema mjólk útí og í formið!
[…] ég eitthvað fljótlegt. Stundum enda ég í lummum eða vöfflum eða skonsum af einhverju tagi, eins og þessum hér, en stundum langar mig meira í brauð og þá er flatbrauð langfljótlegast. Og núna vildi svo […]