Ég var með dótturfjölskylduna í mat um helgina, sem var náttúrlega alveg ágætt. Dótturdóttirin er að vísu sérlega matvönd og borðar eiginlega ekki neitt en bróðir hennar bætir það upp svo um munar, borðar næstum allt (nema sveppi) og mikið af því. Þær mæðgurnar eru hins vegar hættar að borða viðbættan sykur, sem er hið besta mál en kallar svolítið á nýjar hugmyndir.
Ég hef sjálf aldrei verið mikið fyrir dísæta eftirrétti og kökur, er til dæmis ekki nema hóflega hrifin af marenskökum, en nota þó oft dálítið af sykri í eftirrétti og fleira. En þegar ég er að velta fyrir mér eftirréttum sem ég get gefið mæðgunum rennur stundum upp fyrir mér að ég get gert eitthvað svipað og ég er vön, nema sleppt sykrinum. Stundum er ég eiginlega að nota hann bara af gömlum vana – ég hef til dæmis yfirleitt sett 1-2 matskeiðar af sykri í pönnuköku- og vöffludeig (nema þegar ég er að nota þetta í ósæta rétti) en það er auðvitað óþarfi og ég er hætt því núna, allavega í pönnukökurnar). Og í marga rétti sem innihalda sæta ávexti er auðvitað engin þörf á að bæta við sykri, sætan í ávöxtunum á alveg að duga.
Jújú, það eru til ýmiss konar sætuefni og gervisykur. Ég nota þetta aldrei, finnst meira vit í að venja sig af sætubragðinu.
En allavega, hér er eftirrétturinn sem ég gerði. Enginn viðbættur sykur (en töluvert af sykri í ávöxtunum og safanum svosem).
Ég átti nokkrar huggulegar, rauðar plómur (6-7 stykki) sem ég skar í tvennt og tók steininn úr. Hitaði ofninn í 180°C og raðaði plómunum í eldfast mót með skurðflötinn upp.
Svo grófsaxaði ég 25 g af valhnetum og 25 g af pistasíuhnetum, setti í skál og blandaði 1/2 tsk af kanel saman við.
Ég stráði blöndunni yfir plómurnar og kreisti svo safann úr einni appelsínu (safaríkri, ef notuð er appelsína sem ekki er mjög safarík gæti verið betra að nota tvær) og hellti í formið meðfram plómunum.
Svo setti ég formið í ofninn og bakaði plómurnar í um 20 mínútur. Það er þó vissara að fylgjast með þeim undir lokin því hneturnar gætu farið að dökkna um of og þá má breiða álpappír yfir til að hlífa þeim – nú, eða taka bara fatið út ef manni sýnist plómurnar orðnar vel meyrar.
Ég hafði mascaraponeost með en það mætti líka hafa t.d. ís eða rjóma.
Neinei, það vantaði sko engan sykur á þetta.
Bakaðar plómur með hnetum og kanel
6-8 plómur
25 g valhnetur
25 g pistasíuhnetur
1/2 tsk kanell
safi úr 1-2 appelsínum
mascarponeostur