Af lífrænum laukum

Ég rölti upp í Nóatún í gær til að finna eitthvað til að gefa fólki í kvöldmatinn. Velti fyrir mér ýmsu sem ég sá í kjötborðinu en svo rak ég augun í nautafillet á tilboði, eitthvað um 3300 krónur kílóið. Það leit ágætlega út og þarna var biti sem virtist hæfilega stór svo ég bað um hann. Tæp 900 grömm og kostaði eitthvað rétt undir þrjú þúsund kallinum.

En svo fór ég að hugsa um meðlæti og sá meðal annars fyrir mér tómatsalat með rauðlauk og fleiru. Ég átti fína, vel þroskaða tómata heima en var ekki viss með rauðlaukinn svo ég ákvað að kaupa einn eða tvo. Í grænmetisborðinu var karfa með stökum rauðlaukum, en þeir voru bara tveir eða þrír og litu ekkert sérstaklega vel út en hins vegar voru þarna pokar með fjórum rauðlaukum sem voru heldur álitlegri (en þó ekki svo glæsilegir að ég félli í stafi). Ég reyndi að leita að verðmerkingu því ég hef reynslu af því að nokkrir rauðlaukar saman séu töluvert dýrari en stakir rauðlaukar en sá enga í fljótu bragði svo ég ákvað að þeir gætu nú ekki verið svo dýrir og tók þá samt.

En þegar ég var að skoða kassakvittunina (ég reyni að skoða alltaf kassakvittunina áður en ég fer frá kassanum) sá ég að ég hafði keypt lífrænt ræktaðan rauðlauk sem kostaði hátt á fimmta hundrað krónur fyrir þessa fjóra, sem voru eitthvað um hálft kíló. Það var nú ekki meiningin. Laukurinn var á botninum á troðfullum innkaupapokanum svo ég nennti ekki að gá en spurði kassastelpuna hvort þetta væri örugglega lífrænt ræktaður laukur sem ég væri með, ég hélt nefnilega að lífrænt ræktað grænmeti og ávextir væri allt á sama stað. Jújú, sagði hún og byrjaði svo á ræðu um hvað hann væri miklu bragðbetri og hollari en annar rauðlaukur. Ég stoppaði hana af, sagði henni að ég væri nú bara að hugsa um verð og endingu (í tvö síðustu skiptin sem ég keypti lífrænt ræktaðan rauðlauk myglaði hann nánast á heimleiðinni úr búðinni) og fór svo.

Ekki misskilja, ég hef síður en svo neitt á móti lífrænt ræktuðum vörum og stundum eru þær bragðbetri en aðrar en ég er ekkert endilega sannfærð um að það hafi neitt með lífrænuna að gera. Margir virðast telja að lífrænt ræktað sé pottþéttur gæðastimpill og þýði að varan sé sjálfkrafa bragðbetri (auk annars) en það er ekkert endilega svo. Og fallegu hugmyndirnar sem maður gerir sér um smábændurna sem rækta lífrænt á jörðinni sinni eru ekki alltaf réttar, sjá t.d. kaflann Corporate Takeover í þessari grein hér.

IMG_9877

En svo þegar ég kom heim sá ég að ég átti allavega einn rauðlauk. Hann var keyptur í Bónus, líklega fyrir hálfum mánuði. Ég ætla ekki að segja hvor er hvor.

IMG_9881

En ég ákvað að gera bragðprófun. Skar sneiðar neðan af báðum laukunum. Svo skar ég smábita af Bónuslauknum og smakkaði. Bragðið var beiskt og skarpt og laukurinn ónothæfur í salat. Svo skar ég smábita af þeim lífræna og smakkaði. Bragðið var beiskt og skarpt og laukurinn ónothæfur í salat. Þeir brögðuðust sem sagt nákvæmlega eins.

Mér er reyndar sagt að mildari og sætari rauðlaukur fáist bæði í Frú Laugu og Kosti. Þarf að athuga það.

IMG_9886

Ég steinhætti við salatið en ákvað að nota rauðlaukinn samt sem áður. Ég saxaði þann lífræna smátt – geymdi Bónuslaukinn – og setti í eldfast mót ásamt tveimur söxuðum hvítlauksgeirum, söxuðum nálum af tveimur rósmaríngreinum og nokkrum smátt söxuðum timjangreinum (má líka nota bara aðra kryddjurtina). Svo tók ég eina teskeið af piparkornum og eina af mustarðskornum (sinnepsfræjum, en það má sleppa þeim) og grófsteytti í mortéli. Blandaði þessu svo saman við laukinn ásamt dálitlu salti.

IMG_9893

Ég tók svo nautafilletið og lagði ofan á. Blandaði saman 3 msk af olíu og 1 1/2 msk af balsamediki og hellti yfir kjötið.

IMG_9900

Svo velti ég kjötinu upp úr laukblöndunni og mokaði henni yfir. Lét það standa við stofuhita í svona klukkutíma og sneri því tvisvar eða þrisvar. Hitaði svo ofninn í 225, mokaði öllu sem var í fatinu ofan á kjötið og setti það í ofninn.

IMG_9912

Eftir 10 mínútur lækkaði ég hitann í 200°C og steikti kjötið áfram í – ja, ætli það hafi ekki verið svona 8-10 mínútur, eða þangað til kjöthitamælir sem stungið var í miðjuna sýndi 52°C (fyrir medium rare). Þá tók ég kjötið út, breiddi lauslega yfir það og lét standa í um 10 mínútur.

IMG_9927

Svo bar ég kjötið fram með laukblöndunni, soðnum nýjum kartöflum, sveppasósu og grænu salati og tómötum. Afskaplega meyrt og gott.

Nautasteik með laukblöndu

900 g nautafillet

1 rauðlaukur, þarf ekkert að vera lífrænt ræktaður

2 hvítlauksgeirrar

2-3 rósmaríngreinar

2-3 timjangreinar

1 tsk piparkorn

1 tsk mustarðskorn (má sleppa)

salt

3 msk olía

1 1/2 msk balsamedik

3 comments

  1. Laukur sem er seldur í lengjum, þrír saman í þröngu plastneti er hroðalega dýr. Ég fer sér ferð eitthvert annað til að kaupa lauk í lausu þegar bara er til svona, til dæmis í Krónunni. Ónefndur vinur minn losar laukana úr netinu og lætur vigta á kassanum eins og hann hafi verið í lausu…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s