Ég setti mynd af þessum rétti á Facebook hjá mér í gær án þess að segja hvað þetta væri og átti reyndar von á að fá einhverjar spurningar um það en þær komu ekki. Þetta er hins vegar ekki fyrir alla svo þeim sem lækuðu verður fyrirgefið ef þeir skipta um skoðun … En þetta er afar þjóðlegur réttur.
Við Silja Aðalsteins vorum eitthvað að rabba um mat í vinnunni á dögunum eins og við gerum stundum og ég nefndi hefði einhvern tíma gert athugun í bresku matreiðslubókunum mínum (þ.e. þeim þeirra sem eru um hefðbundna, gamaldags eða héraðsbundna matargerð, þær eru allmargar) á nýtingu á broddi (colostrum). Ég komst að því að nyrst, á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum og þar, voru eldaðir réttir sem voru nánast alveg eins og íslenskar ábrystir en eftir því sem sunnar dró urðu réttirnir flóknari og íburðarmeiri; ég nenni ekki að fletta því upp núna en mig minnir að suður í Devon hafi broddurinn verið notaður í fínar bökur og búðinga.
Og þá rifjaðist upp að ég átti hálfan lítra af broddi í frysti og mig fór að langa í ábrystir. Eða nei, ekki alveg hefðbundnar ábrystir, meira eitthvað sem gæti verið frá – ja, sunnanverðu Skotlandi kannski eða Norður-Englandi, sé tekið mið af því sem ég sagði áðan um landfræðilega þróun réttanna.
Ég byrjaði nú á að taka broddinn úr frysti daginn áður en ég ætlaði að elda úr honum (og tveimur dögum áður en ég ætlaði að borða hann) og lét hann þiðna í ísskápnum.
Daginn eftir byrjaði ég á að taka 100 ml af mjólk og setja í pott. Svo klauf ég eina vanillustöng, skóf fræin úr henni og setti bæði fræ og stöng í pott ásamt þremur matskeiðum af hrásykri (má vera venjulegur), hitaði að suðu og slökkti svo undir pottinum og lét standa í svona 10 mínútur. Hitaði á meðan ofninn í 170°C.
Svo tók ég lítið, eldfast mót og hellti broddinum í það.
Ég hellti svo vanillumjólkinni saman við í gegnum sigti, þannig að kornin fóru með en stangarpartarnir sátu eftir í sigtinu. Ég ætlaði að breiða álpappír þétt yfir formið en hann var búinn þegar til átti að taka svo að ég tók bökunarpappírsörk og vafði henni utan um formið, setti það svo á bökunarplötu og stakk henni í ofninn á næstneðstu rim.
Ef ég hefði viljað hafa ábrystirnar alveg sléttar og sprungulausar hefði ég bakað þær í vatnsbaði, sett formið ofan í annað form og hellt sjóðandi vatni í ytra forminu, hugsanlega haft hitann aðeins lægri – en ég sleppti því í þetta skipti.
Ég bakaði ábrystirnar í 35-40 mínútur (fer svolítið eftir stærðinni á forminu og þar með þykktinni á ábrystunum. Tók þær svo út og lét kólna og setti svo formið í kæli til næsta dags.
Ég tók svo hringlaga útstungujárn (líka hægt að nota t.d. vatnsglas) og stakk út hringi úr ábrystunum. Renndi spaða undir hvern hring til að losa hann og setti þá á diska.
Ofan á er svo rabarbari og rifsber, hvorttveggja úr garðinum hennar Valgerðar Ben. samstarfskonu minnar. Ég setti sirka 100 g af rabarbara og 100 g af rifsberjum frosið í pott ásamt örlitlu vatni og svona 3 msk af hrásykri (má vera venjulegur), hitaði að suðu og lét sjóða í nokkrar mínútur og þykkti svo ögn með svona hálfri teskeið af maizenamjöli hrærðu út í köldu vatni. Hrúgaði þessu ofan á ábrystirnar.
Vanilluábrystir með rabarara og rifsberjum
500 ml broddmjólk
150 ml mjólk
1 vanillustöng
3 msk hrásykur (eða venjulegur sykur)
Ofan á:
100 g rabarbari
100 g rifsber
3 msk hrásykur
svolítið vatn
1/2 tsk maizenamjöl
Well I sincerely enjoyed studying it. This article provided by you is very effective for good planning.