Ég fór í Gleðigönguna í dag eins og ég hef gert árlega frá því að systurdóttir mín kom út úr skápnum nítján ára og tók þátt í sinni fyrstu göngu. Þá gekk mestöll stórfjölskyldan með undir merkjum aðstandenda til að sýna henni stuðning. Nú eru hún og sambýliskonan göngustýrur og það var viðtal við hana í útvarpinu áðan. En við göngum ennþá með því þótt hún þurfi kannski ekki svo mikið á stuðningi okkar að halda lengur eru aðrir sem þurfa hann og eiga skilið að maður sýni samstöðu með þeim.
Fyrir nú utan hvað Gleðingangan er alltaf skemmtileg.
En allavega, ég varð svöng af þessari göngu en fór samt heim án þess að koma við í búð, hélt ég hlyti að eiga eitthvað ætilegt. Það var reyndar minna en ég bjóst við en ég átti samt bita af reyktum laxi sem ég ákvað að nota og svo rann upp fyrir mér að það er nú óralangt síðan ég hef eldað laxapasta. Svo það varð úr. Og þar sem ég var svöng gerði ég skammt sem dugir fyrir eina sársoltna konu eða tvær minna svangar. Afskaplega fljótlegt og einfalt, þarf í raun bara þann tíma sem tekur að hita vatnið fyrir spaghettíið og sjóða það.
Þetta var um 200 gramma stykki af laxi en ég notaði reyndar ekki nema helminginn. Lófafylli af basilíku, 2 tsk kapers (skolaður í köldu vatni), svona 25 g af smjöri, tveir hvítlauksgeirar, 100 ml af rjóma, pipar og salt (ekki mikið því laxinn og kapersinn er saltur) og spaghettí, svona 100-125 g.
Ég byrjaði semsagt á því að hita saltvatn í potti (lét tvo lítra duga fyrst pastamagnið var ekki meira). Þegar það var farið að bullsjóða henti ég spaghettíinu út í. Óbrotnu. Beið í hálfa mínútu þar til pastað var farið að mýkjast, hrærði til að lengjurnar færu allar niður í vatnið og loddu ekki saman og lét svo sjóða rösklega í – æi, þessar mínútur sem stóð á pakkanum, man ekki hvað þær voru margar.
Á meðan skar ég laxinn sem ég ætlaði að nota í þunnar sneiðar á ská og svo í bita. Síðan bræddi ég smjörið á pönnu og saxaði hvítlaukinn og lét hann krauma í smjörinu við vægan hita í 2-3 mínútur.
Þá bætti ég kapersinum á pönnuna og síðan grófsaxaðri basilíkunni og lét krauma aðeins.
Hellti svo rjómanum út í, kryddaði með pipar og salti, hitaði að suðu og lét malla í 2-3 mínútur. Þá var pastað soðið svo að ég tók frá dálítið pastasoð í bolla, hellti svo pastanu í sigti og lét renna af því snöggvast en hvolfdi því svo á pönnuna, setti reykta laxinn út á og blandaði vel. Þynnti sósuna ögn með pastasoði.
Ég hvolfdi svo öllu saman á disk, stráði ögn meiri nýmöluðum pipar yfir og skreytti með nokkrum basilíkublöðum til viðbótar.
Þeir sem ekki eru mjög ítalskir í sér geta rifið parmesanost yfir, mér finnst hann reyndar ekki passa en um það eru skiptar skoðanir. En þetta er ljómandi gott eins og það er.
Spaghettí með reyktum laxi og kapers
100-125 g spaghettí
salt
100 g reyktur lax (eða silungur)
25 g smjör
2 hvítlauksgeirar
2 tsk kapers
lófafylli af basilíku
100 ml rjómi
pipar
Þessi pastaréttur lýtur rosalega vel út – væri hægt að gera hann með elduðum lax ? 🙂
Já, alveg örugglega, en reykti laxinn gefur meira bragð svo það væri gott að setja t.d. aðeins meiri kapers og basilíku eða eitthvað annað.
ha ítalskir? ég hélt einmitt að Ítalir vildu alls ekki blanda fiski og osti.
Enda sagði ég ,,þeir sem ekki eru mjög ítalskir“ …
Reminder to self. Lesa almennilega :p