Ég er bara ekki búin að vera í nokkru einasta bloggstuði að undanförnu. Hef reyndar haft meira en nóg að gera, þó ekki svo að ég hafi ekki eldað mat af og til en ég hef kannski ekki gert mikið af því að mynda hann eða skrifa niður uppskriftir.
En þetta stendur nú kannski til bóta og hér kemur allavega frásögn af kvöldmatnum mínum. Bæði í kvöld og annað kvöld, hugsa ég, því þetta var mun stærri skammtur en fyrir mig eina og ég reikna alveg með að ég noti afganginn á morgun í einhvern allt öðruvísi rétt. Kannski pasta- eða hrísgrjónarétt, ég er ekki búin að ákveða það.
Ég er búin að vera í dálítið nostalgísku skapi að undanförnu og það kom sterklega til greina þegar ég var að kaupa í matinn að elda einhvern gamlan rétt frá mömmu – en svo hætti ég nú við það, bæti það kannski upp seinna í kvöld. Við systkinin vorum nefnilega að tæma íbúð foreldra okkar og þar kom auðvitað eitt og annað upp í hendurnar sem kveikti minningar – og svo kom ég heim með tvær mublur sem ótal minningar tengjast, nærri sextugan skenk og meira en hundrað ára gamla kommóðu.
En ég fór semsagt aðra leið og greip með mér grísalund úr Bónus. Það var eitthvað svo viðeigandi einmitt í dag að versla í Bónus og kaupa grís. Svo átti ég butternut-kúrbít og fleira heima.
Ég var semsagt með eina svínalund, um 540 grömm. Hálfan butternut-kúrbít, 100 g af döðlum, tvær rósmaríngreinar, einn hvítlauksgeira (ég veit að það eru tveir á myndinni en þegar upp var staðið notaði ég bara annan), pipar, salt og 2-3 msk af olíu.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stillti hann á 200°C.
Svo skóf ég fræin úr butternutkúrbítnum með skeið og flysjaði hann með flysjunarjárni. Skar kúrbítshelminginn svo í tvennt eftir endilöngu og síðan í bita.
Ég skar svo einn hvítlauksgeira í flísar, setti í eldfast mót ásamt butternutkúrbítnum, hellti helmingnum af olíunni yfir, hrærði í til að þekja bitana með olíu, kryddaði með pipar og salti, saxaði nálarnar af annarri rósmaríngreininni og stráði yfir, setti í ofninn og bakaði í um 15 mínútur. – Það er best að mótið sé nokkru stærra en magnið af kúrbít gefur tilefni til því kjötið fer svo í það líka.
Ég tók svo lundina og skar burt himnur (ekki sinar: sinar eru það sem tengir vöðva við bein). Þær eru seigar undir tönn og steikin lítur líka betur út ef þær eru fjarlægðar. En það þarf svosem ekki að skera burt hverja örðu. Best er að stinga beittum hníf undir himnuna, renna blaðinu meðfram henni og reyna að láta það hallast örlítið upp á við til að skera sem næst himnunni svo að sem minnst fari af kjötinu.
Ég saxaði nálarnar af hinni rósmaríngreininni, blandaði saman við pipar og salt, stráði yfir lundina á öllium hliðum og neri kryddinu inn í hana.
Ég hitaði svo afganginn af olíunni á pönnu og brúnaði lundina á öllum hliðum við góðan hita. Það passaði að þegar það var búið var butternutkúrbíturinn einmitt búinn að vera í 15 mínútur í ofninum. Ég tók þá fatið út, ýtti kúrbítnum til hliðanna, lagði lundina í mitt fatið, hellti olíunni af pönnunni yfir og setti aftur í ofninn í 10 mínútur. Þá dreifði ég döðlunum yfir og steikti áfram í um 5 mínútur.
Ég lét lundina svo bíða í nokkrar mínútur áður en ég bar hana fram.
Bar þetta svo fram í fatinu.
Mér dugði alveg að hafa salat með þessu en það mætti líka hafa t.d. kartöflustöppu eða eitthvert soðið grænmeti eins og t.d. spergilkál.
Svínalund með butternut-kúrbít og döðlum
1 svínalund, 500-600 g
1/2-1 butternut-kúrbítur
1 hvítlauksgeiri
2 rósmaríngreinar
100 g döðlur, steinlausar
pipar
salt
2-3 msk olía