Og hvað varð eiginlega af sólinni? Ég búin að sitja ein í vinnunni í dag, allir aðrir í sumarfríi, og hlakka til að komast út í sólina. Og um leið og ég stóð upp úr stólnum og bjó mig undir að loka ritstjórnarskrifstofunni fór sólin og hefur ekki sést síðan. Ég sem ætlaði að koma við á kaffihúsi á leiðinni heim eða kannski bara hreiðra um mig í mínum ágætu híbýlum og fá mér einn bjór eða hvítvínsglas eða eitthvað til að verðlauna mig fyrir hvað ég er rosalega dugleg (eða reyndar er nú afskaplega rólegt í vinnunni og ég er bara að dunda mér við prófarkalestur og samanburð og svoleiðis). En þá var sólin semsagt farin.
Ég ætlaði svo að standa úti á svölum og grilla í sólinni. En gerði það ekki því það var engin sól og ég var komin í fýlu og nennti ekki að grilla. Svo að hér er bara uppskrift að því sem ég grillaði í gær. Þá var jú einmitt sól.
Ég grilla oft fisk en kannski ekki eins oft og ég mundi vilja gera, ég held að það sé af því að fiskur er yfirleitt svo fljóteldaður að mér finnst varla taka því að hita grillið fyrir hann – að minsta kosti þegar ég er bara að grilla ofan í sjálfa mig. Ég veit ekki hvort sama gildir um aðra en mér finnst ég allavega ekki sjá mjög oft uppskriftir að grilluðum fiski, t.d. á bloggum eða í blöðum, og ef eitthvað er af grilluðum fiski og skelfiski er það oftast lax, silungur eða humar. Og ég fletti grillbókinni hans Jóa Fel og sýndist hún vera sirka 87% kjöt og kjúklingur. Plús lax og humar. (En ég skoðaði hana nú ekki mjög vandlega svo kannski er þetta ekki alveg rétt.)
Allavega, ég keypti mér dálítinn bita af steinbít. Svona 300 g. Og jú, það er svona rétt að taki því að kveikja á grillinu fyrir það. En þetta er nú lítið grill.
Ég byrjaði á að búa til maríneringu: 2 msk af mildri chilisósu, 1 msk sojasósa, 2 msk olía, rifinn börkur og safi úr hálfri sítrónu, pipar og salt. Hrærði þetta saman.
Ég skar fiskinn í þrjá bita, velti þeim upp úr maríneringunni og lét liggja á meðan grillið var að hitna. Þarf ekki að vera lengur.
Ég byrjaði líka að undirbúa meðlætið. Ég hafði keypt grænkálsknippi í Víði og í því voru þrír litir af grænkáli – dökkgrænt, ljósgrænt og fjólublátt. Ég skar stilkana af grænkálinu og grófsaxaði það svo. Skar líka tvo tómata í bita og saxaði tvo vorlauka gróft og einn hvítlauksgeira fínt.
Ég hitaði 1-2 msk af olíu á pönnu, setti vorlauk og hvítlauk á hana og lét krauma í 2-3 mínútur.
Ég setti svo tómatana á pönnuna og síðan grænkálið, kryddaði með pipar og salti, bætti við svona 1 msk af furuhnetum (má sleppa) og lét þetta krauma við fremur vægan hita í 6-8 mínútur.
Nú var grillið orðið vel heitt og ég penslaði það meö smávegis olíu, setti steinbítinn á það og grillaði í 3 mínútur á annarri hliðinni – um að gera að hreyfa ekkert við honum hann festist kannski við grillið fyrst en ætti svo að losna af sjálfu sér – annars má renna spaða undir hann og snúa honum. Ég held ég hafi grillað hann í svona 2 mínútur á hinni hliðinni.
Ég setti svo grænkálsblönduna á fat og fiskinn ofan á og bar fram.
Þetta var alveg fínasti steinbítur barasta.
Grillaður steinbítur með grænkáli
300 g steinbítur (eða meira, maríneringin hefði dugað á helmingi stærri skammt)
2 msk mild chilisósa
1 msk sojasósa
2 msk ólífuolía
1/2 sítróna
pipar
salt
nokkur grænkálsblöð
2 vel þroskaðir tómatar
2 vorlaukar
1 hvítlauksgeir
1-2 msk ólífuolía
1 msk furuhnetur