Bónusbaka

Ég keypti nektarínubakka í Bónus í gær. Hann var í afsláttarhillunni og kostaði heilar fimmtíu krónur. Tvær af nektarínunum voru skemmdar og ég henti þeim; hinar átta eða níu voru í fínu lagi. Svo þetta voru hin bestu kaup, mig minnir að fullt verð á svona bakka hafi verið eitthvað um sex hundruð krónur (kannski misminni en allavega var fimmtíukallinn gott verð).

Ég kaupi stundum grænmeti og ávexti sem fást á spottprís af því að það er eitthvað farið að láta á sjá eða skemmast en það fer algjörlega eftir hvað og hvernig. Í svona ávaxtabökkum er kannski bara einn ávöxtur eða tveir skemmdir en allt annað í fínu lagi en það getur líka verið að allir séu eitthvað farnir að láta á sjá og þá borgar sig ekki að kaupa þá. En sveppir sem eru bara farnir að dökkna og kannski þorna aðeins eru nú bara bragðmeiri og betri fyrir vikið – maður notar þá svosem ekki í salat (en það geri ég yfirleitt ekki hvort eð er) en þeir eru afbragðsgóðir í súpur, sósur og pottrétti til dæmis. Og bananar sem eru eiginlega orðnir svartir eru langbestir í bakstur.

En þetta voru nektarínurnar. Ég ákvað að það væri best að nota þær strax og þá lá beinast við að gera  böku úr þeim.

IMG_7440

Ég byrjaði á að henda þessum ónýtu og skola hinar vel í köldu vatni. Lét þær svo standa í sigtinu og þorna á meðan ég gerði bökudeigið.

IMG_7421

Ég setti 200 g af hveiti, 1/2 tsk af salti og 1 msk af sykri í matvinnsluvélina. Það má alveg sleppa sykrinum og ef maður er að gera ósæta böku er það auðvitað sjálfsagt en ég nota oftar en ekki ögn af sykri í bökudeig fyrir sætar bökur. Svo skar ég 110 g af köldu smjör í litla bita og setti út í.

IMG_7428

Ég lét vélina ganga (notaði púlshnappinn, en það borgar sig allavega að láta vélina ekki ganga lengur en þarf) þar til smjörið var vel mulið saman við deigið. Þá bætti ég við ísköldu vatni smátt og smátt, hálfri matskeið eða svo í senn, þar til deigið var hæfilegt; ætli ég hafi ekki þurft svona 2 1/2 msk í allt en það getur verið misjafnt eftir því hvernig hveitið er. Það er best að prófa deigið, það lítur kannski út fyrir að vera hálfþurrt duft en ef maður tekur svolítið af því og þrýstir saman með fingrunum og það loðir saman og myndar auðveldlega kúlu er það tilbúið.

IMG_7432

Ég hellti deiginu svo á vinnuborð, mótaði það í kúlu, stráði hveiti á borðið og á deigið og flatti það út í hring og lagði yfir meðalstórt bökumót.   Deigið ætti að vera meðfærilegt en ef illa gengur að fletja það út án þess að það molni eða rifni má hafa bökunarpappírsörk undir og aðra ofan á meðan það er flatt út. Til að flytja það og leggja yfir formið er gott að rúlla því upp á kökukeflið. Svo skar ég umframdeig af við barmana með hníf.

Ég ætlaði að baka deigið blint, eins og það er kallað, þ.e. að forbaka bökuskelina án fyllingar. Þá er hætt við að deigbarmarnir sígi niður og botninn verði ósléttur ef ekkert er að gert. Venjulega klippi ég hring úr bökunarpappír, legg yfir deigið og set svo farg ofan á til að deigið haldi lögun (ég nota þar til gerðar leirkúlur sem farg en það má líka nota þurrkaðar baunir eða hrísgrjón). En þegar til átti að taka var bökunarpappírinn búinn. Svo að þess í stað setti ég formið með bökudeiginu í frysti á meðan ofninn var að hitna í 190°C. Það dugir oft.

IMG_7446

Ég setti svo hálffrosna bökuskelina í ofninn á næstneðstu rim og bakaði hana í 15 mínútur. Á meðan skar ég nektarínurnar  (8-9 stykki) í báta og steinhreinsaði þær.

IMG_7447

Það virkaði næstum alveg að frysta skelina, þegar ég tók hana úr ofninum hafði barmurinn reyndar fallið inn á einum stað en ég ýtti honum upp aftur; hann brotnaði aðeins en ég vissi að fyllingin myndi halda honum í skorðum.

IMG_7449

Ég hrærði saman 3 egg, 100 ml af rjóma, 2 msk af sykri, 2 msk af hveiti og 1 tsk af vanilluessens í skál.

IMG_7452

Svo dreifði ég nektarínubátunum í bökuskelina – þeir fylltu hana alveg – og hellti deigsoppunni jafnt yfir. Setti hana svo í ofninn og bakaði í svona hálftíma …

IMG_7454

… eða þar til fyllingin var stífnuð (svona nokkurn veginn) og nektarínurnar aðeins byrjaðar að taka lit. Því miður missa þær fallega rauða litinn við baksturinn en það koma bara aðrir litir í staðinn.

Ég hef alltaf plötu undir svona bökum í ofninum því það hefur komið fyrir að fyllingin flæði aðeins upp úr og niður á ofnbotninn.

IMG_7478

Ég sigtaði 1-2 tsk af flórsykri yfir bökuna en það má alveg sleppa því.

IMG_7486

Hún er góð bæði volg og köld.

Smáviðbót: Ég var spurð hvernig ég hefði náð bökunni úr forminu, gleymdi alveg að nefna það. Venjulega nota ég reyndar lausbotna form en fann ekki botninn úr því í þetta skipti. Ég var með annan disk fyrir utan tertudiskinn, lagði hann ofan á bökuna, sneri diskinum og forminu og tók formið svo bakan var eftir á diskinum á hvolfi. Lagði svo tertudiskinn ofan á og hvolfdi öllu saman aftur. En þetta gengur ekki við allar tegundir af bökum, sumar myndu láta á sjá (en þá er ágætt að nota flórsykurinn, hann felur ýmis missmíði …).

 

Nektarínubaka

Deig:

200 g hveiti

1 msk sykur (má sleppa)

1/2 tsk salt

110 g kalt smjör

ískalt vatn eftir þörfum

Fylling:

8-10 nektarínur

3 egg

100 ml rjómi

2 msk sykur

2 msk hveiti

1 tsk vanilluessens

e.t.v flórsykur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s