Júju, það skein sól í dag, sveimér þá, og jafnvel útlit fyrir aðeins meiri sól á næstunni (7-9-13). Það var gefið sólarfrí í vinnunni hjá mér – reyndar fáir sem nutu þess sérstaklega því það eru eiginlega allir í fríi þessa dagana, nema ég náttúrlega. Svo ég rölti í bæinn og settist úti og fékk mér snarl og hvítvínsglas og svo hitti ég einkasoninn og við settumst líka úti í sólinni á Laugaveginum og ég fékk mér meira snarl og annað hvítvínsglas. Þetta var ósköp ljúft.
Svo þegar ég kom heim áttaði ég mig á því að ég var náttúrlega ekkert svöng lengur (og þaðan af síður hvítvínsþyrst) svo að ég fékk mér bara sneið af heimabökuðu brauði með áleggi í staðinn fyrir kvöldmat. En hér kemur samt uppskrift að grillrétti sem ég eldaði á dögunum; þá var reyndar rigning og ég var ekkert að grilla, heldur notaði grillpönnu en það má gera hvort heldur sem er.
Mig langaði semsagt í einhvers konar sataypinna með hnetusósu. Ég var fyrst að hugsa um að nota kjúkling en svo fannst mér að ég hefði svo oft eldað kjúkling að undanförnu og langaði hvort eð var meira í lambakjöt. Svo að ég fann framhryggjarbita í Víði, hann var líklega tæp 300 grömm, og keypti hann.
Svo var ég með chili-hvítlaukssósu (má nota hvaða chilisósu sem er, bara eftir smekk – ætli ég hafi ekki notað svona 3 msk af þessari, hún er ekkert sérlega sterk), 1 1/2 msk af sojasósu, 1 1/2 msk af olíu, pipar, salt, hálfa límónu, tvo hvítlauksgeira og dálítinn engiferbita.
Ég saxaði engifer og hvítlauk, reif börkinn af límónunni og kreisti safann úr henni og blandaði svo öllu nema kjötinu saman í skál.
Ég skar kjötið í fremur þunnar sneiðar eftir endilöngu – held ég hafi fengið svona 8 sneiðar úr bitanum. Það má líka skera þvert á vöðvann og fá fleiri en minni bita.
Ég setti kjötið svo út í kryddlöginn, blandaði vel og lét standa í svona klukkutíma á eldhúsbekknum. Það má líka hafa það lengur í maríneringunni en þá í kæli.
Ég bjó á meðan til sósuna. Setti 200 ml af hnetusmjöri (ég notaði gróft) í pott ásamt 2 msk af chili-hvítlaukssósunni, 1 msk af austurlenskri fiskisósu, 1 msk af sojasósu, 2 msk af púðursykri og safanum úr hinum helmingnum af límónunni í pott, hitaði rólega og hrærði saman á meðan.
Svo bætti ég við kókosmjólk (notaði létt-kókosmjólk). Það er hægt að bæta við svona 150 ml af henni og fá þá svona þykka sósu, eða allt að heilli dós (400 ml) og fá þá frekar þunna sósu eins og sést á myndunum hér á eftir. Ég lét sósuna malla við vægan hita í nokkrar mínútur eftir að kókosmjólkin var komin út í.
Ég þræddi svo kjötið upp á teina – ef maður notar tréteina er best að leggja þá í bleyti í kalt vatn fyrst í svona hálftíma.
Svo hitaði ég grillpönnu (eða útigrill ef veðrið gefur tilefni til þess) og grillaði pinnana við góðan hita í 3-4 mínútur á hvorri hlið.
Og bar þá svo fram með sósunni, ásamt soðnum hrísgrjónum og slatta af kóríanderlaufi (má sleppa).
Eins og þarna sést ákvað ég að hafa sósuna töluvert þynnri en hún er á hinni myndinni. – Svona sósa er mjög fiturík og það getur verið ágætt að láta hana standa í nokkra stund, þar til hún fer að skilja sig aðeins, fleyta þá fitu ofan af og hræra svo í henni aftur áður en hún er borin fram (hita hana ef þarf).
Lamba-sataypinnar
300 g framhryggur eða annar góður vöðvi af lambi
2-3 msk chilisósa (ég notaði chili-hvítlaukssósu)
1 1/2 msk sojasósa
1 1/2 msk olía
hálf límóna
2 hvítlauksgeirar
1-2 cm biti af engifer
pipar
salt
Hnetusósa
200 ml hnetusmjör
2 msk chili-hvítlaukssósa
1 msk austurlensk fiskisósa
2 msk púðursykur
1/2 límóna