Jarðarberjaostabaka (jájá, ég er í sumarskapi)

Það var reyndar sól drjúga stund í dag en það var sennilega bara af því að það var verið að halda upp á afmælið hans Úlfs dóttursonar míns og það er hefði fyrir því að það sé gott veður í afmælisveislunni hans. Svo við gátum drukkið afmæliskaffið úti eins og oft áður. Hann Úlfur verður semsagt tólf ára á morgun, það er nú heilmikill aldur. Ég veit reyndar ekki hvort það breytir nokkru núorðið nema maður þarf að fara að borga fullorðinsfargjald í flugvél og svona en þegar ég varð tólf ára fyrir rúmum 44 árum var það töluverður áfangi, maður mátti fara í bíó á kvöldin og fékk nafnskírteini og eitthvað fleira. Ég var bara á góðri leið með að verða fullorðin.

Ég var búin að lofa að baka Nutellamúffur og gerði það en svo átti ég þessi laglegu litlu jarðarber og langaði að gera eitthvað úr þeim líka.

IMG_7279

 

Ég átti til smjördeigsrúllu – kælt, útflatt deig frá Wewalka, ekki frosnar plötur – og ákvað að einfalda málið og nota það bara. Svo að ég kveikti á ofninum á 210°C*, tók mascarponeost sem ég ætlaði að nota í fyllingu úr kæli og tók smjördeigið úr umbúðunum og fletti rúllunni í sundur.

IMG_7362

 

Ég var ekkert að losa deigið af bökunarpappírnum sem það var á, lagði það (pappír og deig) bara yfir form sem var svolítið minna en deigið, þannig að það náði upp á barmana. Penslaði það svo með sleginni eggjarauðu.

IMG_7367

 

Svo bakaði ég það í svona 14-15 mínútur. Það þandist út eins og smjördeig á að gera og þar sem ég hafði ekki sett neitt farg á miðjuna (eins og ég geri stundum) hafði það blásið vel upp í miðju, þar sem fyllingin átti að koma, en það gerði ekkert til ..,

IMG_7374

 

… ég þrýsti því bara niður með flötum spaða. Ef efsta lagið skyldi verða of dökkt má fletta því ofan af í leiðinni  – en ég gerði það nú ekki, enda var það ekki eins dökkt og það sýnist á myndinni. Ég setti svo smjördeigsbotninn á grind og lét hann kólna alveg.

IMG_7381

 

Svo útbjó ég fyllinguna: setti 250 g (1 dós) af mascarpone-osti í matvinnsluvélina (má líka nota þeytara) og bætti við 3 msk af sykri og 6 msk af Royal vanillubúðingsdufti. Þeytti þetta saman.

IMG_7382

Síðan stífþeytti ég 250 ml af rjóma, setti svo mascarpone-blönduna út í ásamt 1 tsk af vanilluessens og hrærði saman.

IMG_7386

 

Ég smurði svo fyllingunni á kaldan smjördeigsbotninn, sem ég var búin að setja á fat.

IMG_7418

 

Og raðaði að lokum 400 g af jarðarberjum ofan á. Setti þetta í ísskápinn og kældi vel.

IMG_7395

 

Það mætti alveg sigta svolítinn flórsykur yfir jarðarberin áður en bakan er borin fram – fyllingin er frekar lítið sæt og þolir það alveg. En það má líka sleppa því, ég gerði það ekki.

 

Smjördeigsbaka með jarðarberjum og vanilluostakremi

1 smjördeigsrúlla

1 eggjarauða

250 g mascarponeostur

3 msk sykur

6 msk Royal vanillubúðingsduft

250 ml rjómi

1 tsk vanilluessens

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s