Eitthvað gult í staðinn fyrir sólina

Getur að verið að það hafi ekkert rignt í dag? Ekki eftir að ég vaknaði allavega. En það hlýtur að breytast. Þetta verður eins og í Hundrað ára einsemd, það rignir í fjögur ár, ellefu mánuði og tvo daga, eða hvað það nú var.

Það hefur nú kannski ekki verið mikið ísveður að undanförnu, ekki frekar en grillveður. En ég gerði samt mjög sólarlegan ís um daginn sem ég átti alltaf eftir að setja hér inn. Svona til að fá eitthvað gult í tilveruna, þótt það sé ekki uppi á himninum.

Ég átti semsagt verulega vel þroskað mangó (ókei, það hafði gleymst í ísskápnum) sem þó var ekkert farið að skemmast en var mjög ilmríkt og safaríkt, svona af því tagi sem maður á helst að borða í baði eins og einhver sagði – en ég er ekki með baðker lengur, bara sturtu, og það hentar einhvern veginn ekki að borða mangó í sturtu. Svo að ég ákvað að búa til ís.

IMG_6484

 

Sem sagt, eitt vænt og vel þroskað mangó, þrjú egg, hálf sítróna, 250 ml af rjóma og 3 msk af hunangi. Mangóið var mjög sætt svo að ég þóttist viss um að það mundi duga en ef þið viljið sætari ís má nota meira hunang. Eða sykur.

IMG_6489

Ég byrjaði á að flysja mangóið og skera aldinkjötið utan af steininum. Gerði þetta á diski svo að sem allra minnst af safanum færi til spillis. Svo setti ég mangóið í matvinnsluvél ásamt hunanginu og safanum úr sítrónunni og maukaði það.

IMG_6495

 

Ég þeytti svo eggin mjög vel og stífþeytti rjómann.

IMG_6496

 

Blandaði mangómaukinu og eggjahrærunni gætilega saman með sleikju og blandaði svo rjómanum saman við.

IMG_6503

 

Síðan setti ég allt í ísvélina og lét hana ganga í 15-20 mínútur, þar til blandan var orðin þykk. Þá setti ég hana í box og frysti hana. Ef maður á ekki ísvél má bara setja blönduna beint í frysti en þá þarf að taka hana út og hræra í henni á svona hálftíma fresti á meðan hún er að frjósa (þar til hún er orðin svo frosin að það er ekki hægt lengur). Þetta er gert til að koma í veg fyrir kristalla- og ísnálamyndun.

Ég setti reyndar fáeina dropa af gulum matarlít út í ísblönduna til að fá skemmtilegri lit á ísinn en það er engin þörf á því.

IMG_6589

 

Svo þarf að taka ísinn úr frysti í tæka tíð áður en hann er borinn fram til að láta hann mýkjast aðeins.

IMG_6594

 

Ég hafði nokkur hindber sem ég hafði látið þiðna og ýrt örlitlu Grand Marnier yfir með og svo bar ég þennan sama ís seinna fram með volgri nektarínuböku. Hvorttveggja var fínt.

 

Mangóís

1 mjög vel þroskað mangó (þetta var frekar stórt, mættu líka vera 2 minni)

3 msk hunang, eða eftir smekk (má líka nota sykur)

safi úr 1/2 sítrónu

3 egg

250 ml rjómi

e.t.v. fáeinir dropar af matarlit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s