Alvöru steik á grillið

Það er komin helgi og þokkalegt veður (hey, það rignir allavega ekki rétt þessa stundina!) svo það má búast við að eitthvað verði gert af því að grilla. Ég veit reyndar ekkert enn hvað ég geri … Ég hef ekki verið með mikið af grilluppskriftum í sumar, held þær hafi verið fleiri í fyrrasumar, en ég ætla að setja inn eina hér af því að ég á hana til – gerði þetta um síðustu helgi, svona á milli rigningarskúra.

Þetta er nú heldur meira en hæfilegt er fyrir eina konu, enda nenni ég sjaldan að kveikja á grillinu fyrir mig eina. Ég var með svangt fólk sem hafði staðið í miklum framkvæmdum fyrr um daginn í mat og ég ákvað að gera svolítið vel við þau – eða reyndar aðallega við sjálfa mig. Mig langaði í alvörusteik svo að ég rölti í Nóatún og fann þar tvær vænar porterhouse-steikur í kjötborðinu.

IMG_6605

Þær voru reyndar merktar og seldar sem T-bein-steikur en þetta eru porterhouse-steikur, það fer ekkert á milli mála. Þessu er svosem oft ruglað saman, enda hvorttveggja bitar af aftanverðum hryggnum, en T-bein-steikin er skorin framar en porterhouse-steikin og henni fylgir þar af leiðandi minna af lundinni (lundin mjókkar fram eftir hryggnum). Porterhouse-steikin er því (finnst mér) betri biti – svo ekki kvarta ég … Þær voru þykkt skornar og vænar, hátt í 600 g hvor um sig.

IMG_6613

Ég tók þær úr kæli um klukkutíma áður en ég kveikti á grillinu, stráði dálitlu sjávarsalti á báðar hliðar og lét þær liggja. Það er oft sagt – og ég hef oft sagt það sjálf – að það eigi ekki að salta kjöt löngu fyrir matreiðslu því saltið dragi út vökva og geri kjötið þurrara. Og það er rétt ef maður er með þunnar sneiðar, þá er oft best að salta ekki fyrirfram eða allavega ekki láta liggja lengi í söltum kryddlegi. En þetta voru þykkt skornar steikur og ég vildi draga aðeins safa úr yfirborðinu til að hafa það sem þurrast.

IMG_6645

Ég kveikti svo á grillinu, stillti brennarana á fullt og lokaði því. Á meðan það var að hitna þerraði ég steikurnar vel með eldhúspappír, bar svo ögn af ólífuolíu á þær og kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar og söxuðu rósmaríni.

IMG_6682

Þegar grillið var orðið eins heitt og það getur orðið (mig minnir að hitamælirinn í lokinu hafi sýnt 300°C) slökkti ég á brennaranum í miðjunni. Þetta er lítið Weber-grill með einum brennara í miðjunni og öðrum sem er allan hringinn í kringum hann. Ég lagði svo steikurnar á grillið og hafði þær yfir beinum loga að mestu en þó þannig að lundin væri nær brennaranum sem slökkt var á – þetta geri ég vegna þess að hún þarf heldur minni steikingu og þar sem ekki er hægt að grilla hana skemur en afganginn af steikinni er best að snúa kjötinu þannig að heldur minni hiti sé á lundinni.

Ég grillaði steikurnar í þrjár mínútur svona við háan hita, lokaði grillinu og lét þær vera alveg óhreyfðar. Hefði mögulega haft grillið opið ef það hefði verið sól og logn og mjög heitt í veðri.

IMG_6686

Þá sneri ég þeim við en lét þær vera eins og áður – lundina lengst frá beina eldinum. Grillaði þær svona í aðrar þrjár mínútur.

IMG_6695

Þá færði ég báðar steikurnar inn á miðjuna og grillaði þær áfram við óbeinan eld á lokuðu grilli í nokkrar mínútur (4-8 kannski, eftir því hvað steikurnar eru þykkar og hvað maður vill hafa þær mikið steiktar). Ég notaði hitamæli (instant-read) sem ég stakk inn í vöðvan miðjan og tók steikurnar af grillinu þegar hann sýndi 54°C.

IMG_6701

Þetta er nú bara girnilegt stykki, er það ekki?

Ég fór svo með steikurnar inn í eldhús, breiddi álpappír lauslega yfir og lét þær standa í svona 6-8 mínútur áður en ég bar þær fram. Þegar þær eru skornar er best að skera kjötið fyrst frá beininu og skera það svo í stykki eða sneiðar – það er til að tryggja að allir fái bita bæði af lundinni og hryggvöðvanum í stað þess að sumir fái kannski bara lund og aðrir bara hryggvöðva.

IMG_6722

Með þessu hafði ég Hasselback-kartöflur, salat og sósu – sem ég gleymdi að taka myndir af eða mæla nákvæmlega en hún var mjög einföld: Vatn – kannski 200 ml – sett í pott með 2 tsk af nautakrafti og látið sjóða aðeins. 2 msk af Pedro Ximenes-sérríi út í (má líka nota púrtvín) og soðið áfram dálitla stund. Þá er 200 ml af rjóma hellt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Smakkað og bragðbætt með pipar og salti eftir þörfum, litað aðeins með sósulit og ef sósan er mjög þunn má þykkja hana aðeins.

Þetta þótti honum syni mínum góð sósa eins og sjá má og hann lagði hald á leifarnar af henni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s