Ég bað um rauðsprettuflak í fiskborðinu í búðinni í gær. Strákurinn sem afgreiddi mig tók upp flak, ég kinkaði kolli og hann teygði sig eftir bakka til að vigta það í en hikaði svo og spurði: -Vildirðu annars heldur hvítu hliðina?
En mér var alveg samaog ég spurði hvort hún væri mun vinsælli. Hann sagði að svo væri og sagði að margir vildu ekki dökku hliðina, teldu hana verri og sumir fussuðu og sveiuðu og segðu hana óæta. Það fannst mér merkilegt því ég hef aldrei tekið eftir neinum bragðmun. Eini munurinn finnst mér vera sá að það er hægt að borða roðið á hvítu hliðinni. En jæja, kannski er einhver bragðmunur sem ég hef bara ekki nógu þroskaða bragðlauka til að skynja. Ég held samt frekar að þetta sé eins og með svörtu sviðahausana.
Ég steikti reyndar flakið með roðinu þótt þetta væri dökka hliðin en hefði líklega roðflett það ef ég hefði ekki ætlað að snúa því, t.d. ef ég hefði ætlað að ofnbaka rauðsprettuna. En mér finnst minni hætta á að það detti í sundur ef roðið er á. Oft eru rauðsprettuflök skorin í tvennt eftir endilöngu en ég gerði það ekki, snyrti flakið bara.
Ég var með hugmynd sem innihélt kapers. Ég var alveg viss um að ég ætti kapers í ísskápnum, mér finnst eins og undanfarin ár hafi ég alltaf verið að rekast á kaperskrukkur þegar ég er að leita að einhverju á efstu hillunni. En svo reyndist bara ekki vera til neinn kapers þegar til átti að taka og krukkan sem ég hafði verið alveg sannfærð um að væri kaperskrukka reyndist innihalda græn piparkorn í saltlegi. Og mig langaði ekki að nota þau. Svo ég breytti um plan.
En ég átti nokkrar grænar ólífur, furuhnetur (2 msk), smjör (50 g), pipar og salt, hálfa sítrónu, tvo vel þroskaða tómata, væna lúku af spínati, tvo vorlauka og dálítið hveiti (2 msk eða svo). Svo notaði ég líka 1 msk af ólífuolíu, sem ég gleymdi að hafa með á myndinni.
Ég skar ólífurnar og vorlaukinn í bita og tómatana í báta. Svo blandaði pipar og salti saman við hveitið og velti flakinu vel upp úr því.
Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu og svona 2 tsk af smjöri á pönnu. Setti rauðsprettuflakið á hana með roðhliðina upp og steikti í 2 mínútur við nokkuð góðan hita.
Svo sneri ég flakinu gætilega – ég á stóran spaða sem hentar vel til slíks en það mætti líka nota t.d. pönnukökuspaða. Steikti flakið áfram í 1-2 mínútur en tók það svo af pönnunni, setti á disk og breiddi álpappír lauslega yfir. Tók frá 1 tsk af smjörinu sem eftir var en bætti hinu á pönnuna og lækkaði hitann dálítið.
Setti svo vorlauk, furuhnetur og ólífur á pönnuna og lét krauma 1-2 mínútur. Kreisti þá safann úr sítrónunni yfir og lét sjóða aðeins niður.
Á meðan bræddi ég smjörið sem eftir var, lét tómatana krauma aðeins í því og setti svo spínatið út í, hrærði og lét krauma í mínútu eða svo. Kryddaði með pipar og salti.
Ég setti svo flakið aftur á pönnuna, dreifði svolitlu af ólífu-furuhnetu-vorlauksblöndunni yfir og bar fram með spínatinu.
Þetta var semsagt dökka flakið af rauðsprettunni. Ég get borið vitni um að óætt var það nú ekki. Hreint ekki.
Rauðspretta með ólífum og furuhnetum
1 rauðsprettuflak, 350-400 g
2 msk hveiti
pipar
salt
50 g smjör
1 msk ólífuolía
2 msk furuhnetur
8-10 grænar ólífur
2 vorlaukar
1/2 sítróna
2-3 vel þroskaðir tómatar
væn lúka af spínati
Óætt? Rugl.
Ég borða líka dökka roðið. Pínu grófara en bara alveg ljómandi ágætt samt.
Já, það er í fínu lagi að borða það þegar það er steikt en þegar ég geri t.d. rauðspretturúllur roðfletti ég dökku flökin.
En strákurinn í fiskborðinu fullyrti að það væru margir sem vildu alls ekki dökku hliðina.
já ég steiki reyndar alltaf rauðsprettuna.
Ég er alin upp við mikið fiskát og hef aldrei heyrt þetta með dökku hliðina en það var sagt að dökka hliðin væri joðmeiri og steinefnaríkari. Ég harðsteiki dökku hliðina upp úr miklu smjöri sný flakinu við og aðeins steiki fiskinn aðeins. Manninum mínum sem er alinn upp í sveit og er lítill fiskmaður finnst þetta mjög gott. kv. gua