Einbúamatur

Eins og ég hef oft talað um áður er ekki alltaf auðvelt fyrir einbúa að kaupa nógu litla skammta af ýmsu hráefni. Sumt kaupi ég þess vegna yfirleitt ekki nema þegar ég á von á einhverjum í mat en margt annað kaupi ég handa sjálfri mér þótt skammturinn sé of stór í eina máltíð. Mér finnst allt í lagi að borða eitthvað í kvöldmatinn og afganginn í hádeginu daginn eftir í vinnunni (og ég elda oftast miðað við það, þ.e. reyni að hafa afgang, það er bæði betra og ódýrara en fara út í sjoppu eftir samloku eða einhverju).

En oftar en ekki er hráefnið í pakkningunum samt meira en þarf í slíkt og ég vil nú helst ekki borða sama matinn kvölds og morgna tvo daga í röð. Þá er um ýmsar leiðir að velja, stundum getur maður fryst hluta af hráefninu (óelduðu) og notað seinna, stundum elda ég úr því öllu en er þá með í huga að nota afganginn í einvern annan rétt (t.d. gera plokkfisk eða fiskibuff úr fiskafgöngum) en algengast er þó líklega að ég taki helminginn af hráefninu sem ég keypti frá og noti það 1-2 dögum seinna til að elda einhvern rétt sem er gjörólíkur þeim fyrri.

Þetta var einmitt það sem ég gerði á mánudaginn. Ég hafði keypt bakka af kjúlingalundum á laugardaginn og notaði helminginn af þeim í sumarlegt salat. En þá var hinn helmingurinn eftir og það rigndi og ég var ekkert í skapi fyrir neitt sumarlegt á mánudeginum. Svo ég ákvað að nota kjúklinginn í litla böku. Eða reyndar tvær litlar bökur, ég ætlaði semsagt að taka hluta með í nesti á þriðjudaginn og þá er þægilegast að hafa þetta í tvennu lagi. Það má auðvitað alveg eins gera eina böku.

IMG_6732

 

Þetta voru semsagt átta lundir (en í þennan rétt má líka nota niðurskornar bringur eða læri og svo líka kjúklingaafganga af ýmsu tagi). Ég átti líka sveppi, svona 200 g. Tók tvær smjördeigsplötur úr frysti og lét þær þiðna – það tekur 15-20 mínútur og tók vænt kniipp af basilíku. Svo notaði ég einn lauk, 150 ml af rjóma, tvo hvítlauksgeira, pipar, salt og svona hálfa teskeið af þurrkuðu timjani. Og svona 25 g af smjöri.

IMG_6735

 

Ég hitaði ofninn í 215°C. Saxaði laukinn og hvítlaukinn, bræddi smjörið á pönnu og lét laukana krauma í því í nokkrar mínútur.

IMG_6740

 

Á meðan skar ég sveppina í sneiðar. Setti þá svo á pönnuna og lét þá krauma smástund; hrærði oft á meðan. Þegar þeir voru aðeins farnir að taka lit skar ég kjúklinginn í bita (3-4 bita hverja lund), setti á pönnuna og brúnaði við meðalhita. Kryddaði með timjani, pipar og salti og hrærði oft í.

IMG_6743

 

Þegar kjúklingurinn var allur búinn að taka lit hellti ég rjómanum á pönnuna og lét sjóða við meðalhita þar til rjóminn hafði soðið dálítið niður og var farinn að þykkna.

IMG_6746

 

Á meðan þetta mallaði tók ég smjördeigsplöturnar og flatti hvora um sig út nokkurn veginn i ferhyrning – ég flatti þær einungis á þverveginn svo þær lengdust ekkert, breikkuðu bara. Ef maður er með eitt stærra form má hins vegar leggja þær þannig að þær skarist ögn, þrýsta samskeytunum saman og fletja þær svo út eftir því hvernig formið er lagað. Plöturnar/platan eiga að vera það stórar að þær nái vel út fyrir brúnirnar á forminu.

IMG_6748

 

Ég saxaði svo basilíkuna og hrærði henni saman við kjúklingakássuna og tók svo pottinn af hitanum.

IMG_6754

 

Ég skipti kássunni jafnt á milli formanna, lagði svo deigplöturnar yfir þau og þrýsti deiginu laust niður með fingurgómunum út við kantinn. Penslaði deigið svo með eggjarauðu (sem ég gleymdi að hafa með á hráefnismyndinni), setti formin á bökunarplötu og bakaði á neðstu rim í svona 15 mínútur, eða þar til deigið hafði blásið vel út og tekið fallegan gullinbrúnan lit.

IMG_6782

 

Það er mjög ráðlegt að hafa plötu undir formunum því trúlega mun eitthvað af sósunni sjóða upp úr og vella út fyrir barmana …

IMG_6798

 

Það þarf ekkert með þessu nema kannski grænt salat – ég notaði spínat.

IMG_6808

 

Sósan var frekar þunn en ég vildi hafa hana þannig – og svo má rífa/skera bita af smjördeiginu og dýfa í sósuna. En auðvitað má líka þykkja hana aðeins áður en kássan er sett í fomin.

 

 

Litlar kjúklingabökur

250-300 g kjúklingakjöt

200 g sveppir

2 smjördeigsplötur (úr 5 plötu pakka)

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

150 ml rjómi

knippi af basilíku

1/2 tsk timjan

pipar

salt

1 eggjarauða

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s