Sænskar kartöflur

Ok, ég var búin að lofa þessari uppskrift í dag svo hér kemur hún.

Hasselback-kartöflur eru sænsk uppfinning, kenndar við veitingahúsið Hasselbacken í Stokkhólmi, og sumar heimildir segja jafnvel að þær hafi fengið nafn á 18. öld en þar er einhver ruglingur á ferðinni. Sögu veitingahússins má vissulega rekja aftur í aldir – nafnið hefur verið notað frá 1760 – en kartöflurnar frægu voru fyrst bornar þar fram upp úr 1950 og einhvers staðar hef ég lesið að það hafi verið kokkanemi að nafni Lars Elison sem fyrstur fékk hugmyndina. Hvort það er rétt veit ég ekki en kartöflurnar urðu að minnsta kosti þekktar undir nafni veitingahússins og nutu mikilla vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum, bæði á veitingahúsum og í heimahúsum. Svo duttu þær dálítið úr tísku um tíma en nú sér maður þær æ oftar.

Ýmsir vilja meina að þetta sé einfaldlega langbesta aðferðin til að elda kartöflur. Þær steikjast í gegn og eru mjúkar og meyrar að innan en vegna allra skurðanna verður yfirborðið meira og ósléttara en ella og brúnast þar af leiðandi betur og verður stökkara og bragðmeira. Og svo er auðvitað hægt að krydda þær og bragðbæta á ýmsa vegu og ef þær eru t.d. steiktar með kjöti draga þær í sig safa úr steikarfatinu og bragð af kjötinu.

Það er hægt að strá osti (bragðmiklum, t.d. parmesan eða cheddar) á kartöflurnar, stinga nokkrum lárviðarlaufum eða hinum og þessum kryddjurtum inn á milli sumra sneiðanna, strá grófu salti og/eða hvítlauk yfir, nota beikon eða bara það sem manni dettur í hug – sumt er bakað með allan tímann, sumt er best að setja undir lok bökunartímans eða bara þegar kartöflurnar koma úr ofninum. Hasselback-kartöflur með kurluðu beikoni og osti geta til dæmis verið ágætis máltíð með salati en annars eru kartöflurnar yfirleitt hafðar sem meðlæti með steik.

Áður fyrr held ég að kartöflurnar hafi alltaf eða að minnsta kosti oftast verið flysjaðar en nú orðið sér maður þær mun oftar með hýðinu og það finnst mér líka best, svo framarlega sem hýðið er þunnt. Það er best að nota mjöllitlar kartöflur (ekki bökunarkartöflur, helst meðalstórar, en langar og fremur mjóar kartöflur henta líka vel.

IMG_6623

Galdurinn við Hasselback-kartöflur er að skera djúpt í þær og hafa nógu stutt á milli skurðanna svo að sneiðarnar (sem eru samfastar neðst) séu þunnar og breiði úr sér (þessar kartöflur eru stundum kallaðar harmonikukartöflur á erlendum málum). Ég á sérstakan, lítinn trébakka til að leggja kartöflurnar í á meðan skorið er í þær og þá verða skurðirnir allir jafndjúpir, en það er líka hægt að leggja sleif eða eitthvert áhald með mjóu tréskafti (eða matprjóna) framan við kartöfluna (enn betra að hafa tvær sleifar/tvo prjóna, fyrir framan og aftan – þá verða allir skurðir jafndjúpir).

IMG_6621

Svo þarf bara sæmilega beittan hníf. Ég reyni að hafa 1-2 mm á milli skurðanna en það verður stundum aðeins meira, það gerir ekkert. Ég kveikti svo á ofninum og stillti hann á 200°C. Það er reyndar held ég algengar að hafa hitann hærri, 220°C eða svo, og steikja þá kartöflurnar heldur skemur en ég gerði.

IMG_6626

Ég ýtti svolítið ofan á kartöflurnar til að losa sneiðarnar ögn í sundur – annars er mér sagt að það sé gott að skola kartöflurnar úr köldu vatni til að skola burt sterkju svo sneiðarnar loði ekki eins saman en ég hef ekki prófað það. Þá þarf líka að þerra þær vel. En ég hellti 1 msk af ólífuolíu í eldfast mót, velti kartöflunum vel upp úr þeim og lét svo skurðina snúa upp. Stráði grófmöluðum svörtum pipar, sjávarsalti og ögn af hvítlauk yfir.

IMG_6634

Ég skar eina sítrónu í 4 þykkar sneiðar og setti í mótið með kartöflunum. Þetta er ekki hefðbundið (það er svosem fátt sem er hefðbundið við Hasselback-kartöflur nema hvernig þær eru skornar) en ég vildi fá svolítinn sítrónukeim og svo eru karamelliseraðar sítrónur svo ansi fallegar og lífga upp á réttinn. Ég var að hugsa um að setja ögn af rósmaríni líka en það var rósmarín á steikinni svo mér fannst það kannski einum of og hætti við. Ég skar svo smábita af smjöri og setti ofan á hverja kartöflu – kannski 50 g í allt. Setti svo fatið á næstneðstu rim í ofninum.

IMG_6660

Ég bakaði kartöflurnar í um klukkutíma. Þær voru líklega tilbúnar nokkru áður en sá tím var liðinn en biðu hreint engan skaða af því að bakast aðeins lengur. Það má stinga prjóni í þær til að athuga hvort þær séu tilbúnar.

IMG_6679

Reyndar þurftu kartöflurnar að bíða drjúga stund því gestirnir voru seinir og ég setti svolitla smjörklípu ofan á hverja um sig og breiddi álpappír yfir fatið. – Sítrónusneiðarnar eru aðallega punt eins og ég sagði en þær voru samt allar borðaðar með bestu lyst.

3 comments

  1. Flottar hjá þér! 🙂 Þessar kartöflur eru í algjöru uppáhaldi hjá mér, mér finnst þær einmitt langbestar bara með olíu, smjöri og kryddi.

    • Já, ég var einmitt að skoða mynd áðan af Hasselback-kartöflum sem voru nánast troðnar fullar af osti og með tacosósu ofan á, það fannst mér ekki girnilegt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s