Sumarlegt í rigningu

Ég er ekki mikið fyrir að grilla með regnhlíf. Allt í lagi þegar eru einhverjir smáskúrir en ekki þegar rignir að ráði. Ég hafði hálfpartinn ætlað að grilla í kvöld en þar sem ég var bara að elda fyrir mig eina nennti ég ekki að standa við grillið í rigningu fyrir svona smotterí. Svo ég breytti matseðlinum og tók nokkrar kjúklingalundir sem ég átti.

Rétturinn var hins vegar mjög sumarlegur og hefði átt vel við í sól og hita. En jæja, hann var litríkur og lífgaði upp á rigningargrámann. Fékk reyndar hugmyndina þegar ég rifjaði upp salat sem ég fékk í Oxford, vatnsmelóna, fetaostur og basilíka – en ég átti ekki vatnsmelónu, bara græna melónu. Aftur á móti átti ég nektarínur. Og nóg af fetaosti og basilíku.

Þetta er fljótleg matreiðsla, tekur varla nema tíu mínútur. Jæja, eða fimmtán kannski.

IMG_6509

 

Ég tók semsagt 7 kjúklingalundir  – svona 250 grömm kannski – hálfa græna melónu, tvær nektarínur, svona 75 grömm af fetaosti, væna lófafylli af blönduðum salatblöðum, slatta af basilíku, hálfa sítrónu, 2 1/2 msk af ólífuolíu, svona þriðjung úr teskeið af þurrkuðu timjani, ögn af paprikudufti, pipar og salt.

IMG_6515

 

Ég byrjaði á að hella svona 1 msk af olíu yfir kjúklinginn og velta honum upp úr henni og svo blandaði ég kryddinu saman og stráði því yfir báðar hliðar.

IMG_6517

 

Ég hitaði litla grillpönnu (en það má líka alveg nota venjulega pönnu) og steikti kjúklingalundirnar við góðan hita í um 4 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru rétt steiktar í gegn en enn safaríkar og mjúkar.

IMG_6521

 

Á meðan skóf ég steinana úr melónunni, skar hýðið af og skar hana í bita, skar nektarínurnar í báta og grófsaxaði basilíkuna. Setti salatblöðin á disk, blandaði melónubitum, nektarínubátum, basilíku og grófmuldum fetaosti saman við, hristi saman afganginn af olíunni, safann úr sítrónunni og ögn af piðar og salti, hellti yfir og blandaði. Svo lagði ég kjúklingalundirnar ofan á.

IMG_6555

 

Sérlega sumarlegur kvöldverður. Og upplífgandi í rigningunni.

 

Kjúklingasalat með melónu, nektarínum og feta

250 g kjúklingalundir

1/2 lítil melóna

2 nektarínur

75 g fetaostur

væn lófafylli af salatblöðum

slatti af basilíku

1/2 sítróna

2 1/2 msk ólífuolía

1/3 tsk timjan

ögn af papriku

pipar

salt

 

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s