Kolvetnajöfnun

Ferðasögur og matarveislur búnar, nú tekur hversdagurinn við … og síðasti sumarfrísdagurinn minn í bili. Mér hefur tekist að gera um það bil fimm prósent af því sem ég ætlaði mér að gera heima við í fríinu.

Ég ákvað nú samt í morgun að ég yrði að sýna einhvern lit og fór að taka til í fataskápnum mínum. Sem entist mér eiginlega til hádegis (þetta er ekki það stór fataskápur en ég var ekkert afspyrnu rösk við verkið). Þá var ég náttúrlega orðin svöng en það var rigning og ég nennti ekki út í búð og ákvað að nota það sem til væri. Þar sem ég hafði ýmist borðað úti eða borðað ekki neitt síðan ég kom heim (uppsafnaður forði sko) var birgðastaðan ekki góð. En það voru þó til egg og spænsk salamípylsa og fullt af basilíku og tómatar og ostbiti, svo að ég gerði mér ommelettu. Hugsaði á meðan ég var að borða hana: heyrðu, þetta er örugglega fullkomlega gjaldgengt í LCHF… Sem það var, en ekki halda að ég sé að fara að byrja á einhverju lágkolvetnamataræði.

Nei, það rann þvert á móti upp fyrir mér að ég þyrfti að kolvetnajafna til að vega upp á móti þessu. Svo að ég ákvað að baka brauð. Ég hafði verið að lesa þetta bráðskemmtilega blogg (níu ára sonur matarrýnisins Jay Rayner að gera tilraunir í brauðbakstri með móður sinni, móðirin skrásetur árangurinn) og líklega kveikti það hugmyndina: mig langaði í pekanhnetu- og trönuberjabrauð.

Það var ekkert deig í krukkunni minni svo að ég byrjaði á að búa það til. Ákvað að gera heilhveitibrauð (eða birgðastaðan ákvað það eiginlega fyrir mig, ég sá að hvíta hveitið mundi ekki nægja) og svo veitir mér ekkert af grófmeti eftir öll fínheitin síðustu dagana. Og ég gerði skammt sem dugir í tvö brauð og baka því örugglega aftur á – ja, líklega á sunnudag, nú á ég deig í ísskápnum.

Jamm, og þetta er með kolvetnum og glúteni og geri og öllu þessu baneitraða sem flestir eru að reyna að forðast.

IMG_6299

En ég byrjaði á því að hita dálítið vatn og blanda því svo saman við kalt vatn þar til ég var komin með 750 ml af ylvolgu vatni. Einhversstaðar í kringum 40°C alltsvo. Setti það í hrærivélarskálina og stráði 1 msk af geri yfir. Lét standa í nokkrar mínútur.

IMG_6305

Ég setti svo 500 g af heilhveiti, 350 g af hveiti og 2 tsk af salti út í, setti hnoðkrókinn á hrærivélina og hnoðaði deigið rólega í nokkrar mínútur.  Ef ég hefði ætlað að baka deigið í formi eða hrúga því bara á plötuna hefði ég látið þar við sitja en þar sem ég ætlaði að fletja deigið út var það heldur lint svo ég bætti við svona 50 g af hveiti, gæti þurft meira.

IMG_6324

Svona vildi ég hafa deigið – þegar ég lyfti deigkróknum seig deigið hægt og rólega niður í skálina og slitnaði að lokum. Deigið virðist vera of blautt til að hægt sé að fletja það út en það jafnar sig í lyftingunni.

IMG_6325

Ég setti það svo í krukku (má auðvitað bara vera í hrærivélarskálinni, lagði plastdisk yfir (nú, eða plastfilmu eða viskastykki) og lét það standa á eldhúsbekknum á meðan ég fór út í svona þrjá tíma (það var hætt að rigna).

IMG_6394

Þegar ég kom heim leit deigið svona út, hafði lyft sér næstum upp að krukkubörmunum.

IMG_6397

Og í því hafði myndast þetta fína net af glútenþráðum (hey, þið sem hafið illan bifur á glúteni: þarna er óvinurinn).

IMG_6407

Ég skipti deiginu í tvennt, setti annan helminginn aftur í krukkuna og stakk í ísskápinn til síðari nota. Stráði hveiti á marmaraplötuna mína (eða eldhúsbekkinn), prófaði deigið, ákvað að hnoða örlitlu hveiti (2-3 matskeiðum kannski) upp í það og svo flatti ég það út í þykka plötu.

IMG_6411

Svo grófsaxaði ég 80 g af pekanhnetum, blandaði saman við 40 g af þurrkuðum trönuberjum (mætti líka nota t.d. rúsínur, eða eintómar hnetur), stráði jafnt á deigið (þó ekki kantana) og rúllaði því upp í lengju. Braut endana á rúllunni inn til að loka þeim.

IMG_6417

Ég tók svo aflanga hefunarkörfu, stráði hveiti í hana og setti deiglengjuna í hana og lét samskeytin snúa upp. Ég var nærri búin að láta þau snúa niður af því að það gerir maður venjulega þegar eitthvað svona er sett í form – en á síðustu stundu mundi ég að hefunarkarfan er einmitt ekki form og það sem snýr upp í hefuninni mun snúa niður á brauðinu.

Það er auðvitað engin þörf á að nota hefunarkörfu, það má annaðhvort baka brauðið á plötu (það verður þó flatara og kannski ólögulegra) eða í stóru jólakökuformi (og þá er það látið lyfta sér í forminu og samskeytin látin snúa niður).

IMG_6420

Ég lét það lyfta sér í svona hálftíma og á meðan hitaði ég ofninn í 230°C og hitaði leirplattann sem ég nota oftast til brauðbakstur í ofninum. En það má líka nota bökunarplötu og hita hana þá bara í svona 5 mínútur. Þegar brauðið var búið að lyfta sér og ofninn orðinn heitur setti ég ílát með sjóðandi vatni á botninn á ofninum (ekki nauðsynlegt en gufan gefur betri skorpu á brauðið), tók heitan leirplattann út og hvolfdi brauðinu úr hefunarkörfunni á hann. Setti það svo í ofninn og bakaði í 35 mínútur.

IMG_6431

Það er mikilvægt að brauðið fái að hálfkólna áður en farið er að skera í það. Já, ég veit, það er erfitt að bíða og brauðilmurinn er freistandi. En brauðið verður mun betra ef það er ekki skorið strax.

IMG_6465

En núna má …

IMG_6476

Pekanhnetur og trönuber, mmm …

Pekanhnetu- og trönuberjabrauð

750 ml vatn

1 msk ger

500 g heilhveiti

350-450 g hveiti

2 tsk salt

80 g pekanhnetur

40 g þurrkuð trönuber

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s