Ég hef hingað til stoppað í einhverja daga í London, annaðhvort fyrir eða eftir ráðstefnuna í Oxford þau ár sem ég hef sótt hana, en nú var ég nýbúin að vera þar með barnabörnunum og ákvað að sleppa London alveg en vera í staðinn í tvo daga í Oxford eftir ráðstefnuna í algjöru afslappelsi. Það eru mjög tíðar rútuferðir á milli Heathrow og Oxford og þetta var miklu þægilegra en að hafa viðkomu í London – og ódýrara líka.
Svo að þegar matarráðstefnunni lauk um fimmleytið á sunnudag tók ég ekki leigubíl á járnbrautarstöðina, heldur lagði af stað labbandi með töskuna í eftirdragi að hótelinu þar sem ég hafði pantað gistingu, Cotswold Lodge í Norður-Oxford – það var svona 20 mínútna labb kannski. Ég var þarna eina nótt eftir ráðstefnuna í fyrra svo ég þekkti leiðina. Í fyrra var eiginlega stanslaus rigning alla helgina nema einmitt þessar mínútur sem ég var að labba frá St. Catz og á hótelið, þá stytti upp. Núna var ég farin að óska þess að ég yrði jafnheppin og ský drægi fyrir sólu á meðan ég var á röltinu. En sólin skein í heiði allan tímann, hitinn var 27-8 stig og ég var kófsveitt þegar ég kom að hótelinu.
Cotswold Lodge er notalegt, frekar gamaldags hótel í 10-15 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum; ég var í litlu en kósí einstaklingsherbergi á efri hæðinni þarna í álmunni til vinstri, með litlar og huggulegar svalir. Þarna er bæði lokaður bakgarður og fyrir framan hótelið er notaleg verönd þar sem hægt er að sitja með kaffi eða hvítvínsglas og njóta sólar. Og allt starfsfólkið er alveg sérstalega vingjarnlegt og lipurt.
Ég var þreytt eftir annasama daga á ráðstefnunni og ákvað að borða bara á veitingastað hótelsins, sem er alveg þokkalegur. Byrjaði á kjúklingalifrarkæfu sem var vel útilátin og borin fram með sultuðum rauðlauk og ristuðu brauði.
Aðalrétturinn var svo hægelduð svínasíða með madeirasósu, vínberjum, baunum, spergilkáli og fondantkartöflu. Þetta var, eins og forrétturinn, ágætt en ekki eftirminnilegt. Ég sleppti eftirrétti en settist þess í stað út á svalirnar mínar með kaffibolla.
Ég var ekki í neinu skapi fyrir morgunmat þegar ég vaknaði á mánudeginum, heldur rölti í bæinn í blíðviðrinu, skoðaði mig um og leit inn í nokkrar búðir. Hafði hálfpartinn ætlað á Ashmolean-safnið en það var náttúrlega lokað eins og söfn eru iðulega á mánudögum. Svo að þegar ég var orðin þreytt í fótunum og sársvöng labbaði ég aftur norður Banbury Road í átt að hótelinu. Var með ákveðinn áfangastað í huga en átti ekki pantað borð þar svo ég vissi ekki hvort það gengi upp – annars vissi ég af nokkrum veitingastöðum nálægt hótelinu sem ég gat vel hugsað mér að prófa. En svo var ekkert mál að fá borð á Gee’s, sem er á ská á móti Cotswold Lodge.
Gee’s er gamalgróinn veitingastaður sem hefur lengi notið vinsælda en var tekinn í gegn í vetur – bæði innréttingar, matseðill og annað – og ég sé á Tripadvisor og víðar að það eru mjög skiptar skoðanir um hvernig til hafi tekist. Ég set reyndar spurningarmerki við stólana en bekkirnir (ég sat á einum slíkum) eru mjög þægilegir og garðhýsið er frábært á svona sólskinsdegi.
Það er ýmislegt hefðbundið á matseðlinum á Gee’s, borgarar, grillsteikur og fleira og það sem ég sá á diskum hjá öðrum gestum leit ágætlega út. En ég sækist alltaf fremur eftir því sem maður fær ekki á hvaða stað sem er og þegar ég sá að Gee’s bauð upp á andahjörtu með hestabaunum á brioche var ég fljót að ákveða forréttinn. Ég þurfti ekki að bíða sérlega lengi (og fékk nýjar og afar góðar radísur og sjávarsalt að gæða mér á meðan ég beið) og þetta var ansi gott – þó var brioche-brauðið aðeins of dökkristað en ekki brunnið að ráði svo það slapp alveg. En þetta er nú ekki fyrir alla.
Aðalrétturinn var vissulega ekki fyrir alla heldur, hálf beikonvafin dúfa. Ég veit að þetta er eitthvað sem margir gætu ekki hugsað sér að borða …
… en dúfan var mjög góð, alveg passlega elduð fyrir minn smekk (en örugglega of lítið fyrir suma). En ókei, kannski hefði ég ekki átt að hafa klóna með á myndinni …
Þar sem ég var alls ekki að fara að gera neitt og það fór ákaflega vel um mig þarna í horninu á garðskálanum á Gee’s ákvað ég að fá mér eftirrétt og valdi sveskjuís með Pedro Ximénes. Ef þið kannist ekki við Pedro Ximénes-sérrí, þá er það dísætt og þykkt með miklu sveskju- og rúsínubragði og getur verið alveg einstaklega gott í smáum skömmtum. Þegar ég smakkaði það fyrst var það einhver algjör lúxus-útgáfa (þetta var í sérrísmökkunarferð til Jerez) og ég man að ég hugsaði ,,þessu mætti nú líkja við að vera kysst í fyrsta sinn“. En svo rifjaði ég upp fyrsta kossinn minn og hætti við samlíkinguna. Þetta Pedro Ximénes var nú ekki alveg í þeim klassa en það var ágætt. Og ég þarf að gera einhverjar sveskjuístilraunir á næstunni.
Ég átti svo pantað borð á Cherwell Boathouse um kvöldið og mér til ánægju reyndist það vera nákvæmlega borðið sem ég hafði óskað mér – á svölum neðan við útipall veitingahússins, alveg á árbakkanum ofan við bátaleiguna. Varla hægt að ímynda sér meiri enska sveitarómantík á svona sumarkvöldi.
Ég byrjaði á humarbisku með koníaksrjóma og glasi af nýsjálensku Sauvignon Blanc. Alveg afbragð hvorttveggja.
Á milli rétta var svo hægt að fylgjast með lífinu á ánni, þar var alltaf eitthvað að gerast. Mér skilst reyndar að besta skemmtiatriðið sé þegar einhver dettur í ána (það er ekki óalgengt, kannski vegna þess að oft er vínflaska tekin með á bátinn …) en sá eini sem datt út í var þessi hundur. Honum var þó fljótt bjargað upp í bátinn þar sem hann hristi sig duglega og bleytti alla um borð – og þarna stendur hann rennblautur og skömmustulegur og var afar ánægður þegar hann gat stokkið í land.
En svo kom aðalrétturinn, vel hangin sirloin-steik með kartöfluköku og bordelaise-sósu og ég lýg því ekki, mér fannst steikin svo falleg og litirnir svo æðislegir að ég ætlaði ekki að tíma að skera í hana – en svo var hún svo girnileg líka og auðvitað sigraði sulturinn. Og nei, hún olli engum sérstökum vonbrigðum, hreint ekki.
Með þessu drakk ég alveg ágætt Rioja-vín.
Eftirrétturinn var svo núggatís með heslihnetum og pistasíum og skógarber með. Þetta var allt alveg ljómandi gott og ekki upp á Cherwell Boathouse að klaga á nokkurn hátt.
Ég finn stundum fyrir því þegar ég fer ein út að borða að þjónarnir annaðhvort sinna mér lítið eða eru alltof umhyggju- eða afskiptasamir, halda kannski að kona sem er ein að borða þurfi á því að halda á einhvern hátt. En þarna fékk ég nákvæmlega sömu athygli og aðrir og fljóta og góða þjónustu þegar ég þurfti og var annars látin í friði. Sem er akkúrat það sem ég vil.
Ég borðaði morgunmat á hótelinu á þriðjudegi – hann var ekkert sérstakur og eiginlega það eina sem ég var ekki alveg sátt við þar – og tékkaði mig svo út, fékk að geyma töskuna en rölti í bæinn og fór á Ashmolean-safnið. Skoðaði reyndar mest gömul mataráhöld (nema hvað) en heilsaði samt upp á dúdúfuglinn og fleiri áhugaverða gripi.
Á þakhæð safnsins er nýtt veitingahús sem er mjög vinsælt, ekki síst í hádegismat á svona degi. Þar er nefnilega fjöldi borða á þakinu og hluti þess er meira að segja grasklæddur og með sólstólum. Ég prófaði þá reyndar ekki … Ég kom rétt fyrir hádegi og þá voru frekar fáir en um leið og klukkan varð tólf streymdi fólk að og bráðlega var hvert sæti setið. Þannig að ef þið farið þangað mæli ég með að mæta snemma eða panta borð. (Það er bara opið á kvöldin föstudaga og laugardaga.)
Ég var nú ekkert voðalega svöng eftir allt átið undanfarna daga og langaði ekkert sérlega í aðalrétt svo að ég pantaði tvo forrétti sem ég bað um að fá samtímis – salat með vatnsmelónu, fetaosti og basilíku og disk með köldu kjöti og pylsum. Þetta voru hins vegar stærri skammtar en ég hafði haldið …
Ég hafði pantað eftirrétt – estragon-panna cotta með jarðarberjum – en þar sem ég var svo södd var ég mjög sátt við að hann kom ekki strax, heldur sat bara og naut sólarinnar og virti fyrir mér aðra gesti (og matinn þeirra, sem virtist yfirleitt ansi álitlegur). En svo leið og beið og þegar ég loksins spurði hvort eftirrétturinn færi ekki að koma kom upp úr dúrnum að hann hafði gleymst … En hann var góður þegar hann kom. Og ég var hvort eð var bara að drepa tímann þar til ég þyrfti að sækja töskuna og taka rútuna á Heathrow.
Þetta var semsagt Oxford-ferðin mín, sem var stanslaus veisla. Ég er þegar farin að hlakka til að fara aftur næsta ár.
Kristín Parísardama bauð okkur einmitt upp á andahjörtu í matarboðinu okkar í París í fyrrasumar. Hef varla smakkað annað eins góðgæti.