Best að halda áfram með frásögnina af ráðstefnunni á meðan ég man þetta enn, ég er að verða svo gleymin með aldrinum (það er reyndar ein ástæðan fyrir því að ég tek svo mikið af myndum).
Dagskráin á laugardeginum var pökkuð og maður þurfti að velja og hafna en ég kaus meðal annars að hlusta á erindi um áhrif ísskápavæðingar á matargerð amerískra gyðinga, sjá nokkur skemmtileg vídeó af venjulegu fólki (allt frá tíu ára stelpu til karls á áttræðisaldri) að elda eftir eigin höfði og það var mjög áhugavert að sjá hvernig þau notuðu eldhústæki og aðferðir á mismunandi hátt og hvað þau höfðu ólík viðhorf til matargerðarinnar. Og svo var bráðskemmtileg útttekt á bandarísku veitingastaðakeðjunni Automat, sem reyndar er liðin undir lok en átti sér langa sögu og var oft notuð í kvikmyndum, ekki síst hér:
En svo var komið að kvöldverðinum, sem að þessu sinni var brasilísk veisla.
Matseðlarnir þarna eru alltaf flott hannaðir og skemmtilegir og gefa manni miklar upplýsingar. Þarna eru til dæmis myndir af ýmsum leirpottum sem þjóðarrétur Brasilíumanna, feijoada, er eldaður í samkvæmt hefð.
Forrétturinn var einfaldur og óvenjulegur en góður: grófsaxaðar brasilíuhnetur (parahnetur) í pipraðri pestósósu, með salati og tapíókakexi.
Svo voru bornar fram leirskálar með feijoada – svartbaunir (feijoa þýðir baunir) með söltuðu svínakjöti og nautakjöti og líklega einhverju beikoni, látið malla lengi við vægan hita.
Með þessu voru hrísgrjón, soðin kálblöð (collard greens), appelsínur í bitum og farofa (maníokmjöl). Þetta var afbragðsmatur en ég gat ekki varist þeirri hugsun að hann hefði átt betur við á vetrardegi en heitu sumarkvöldi. Og þó, þegar maður lítur til upprunans er það kannski ekki rétt hjá mér …
Og eftirrétturinn var svo mangó-og engifersorbet og blómskreytt bolo de rolo – rúlluterta með guava-mauki. Mér fannst hún reyndar ekkert spes en ísinn var meiriháttar.
Eftir matinn sat ég heillengi á spjalli úti í blíðviðrinu við hóp af fólki og áttaði mig smám saman á að í þessum félagsskap var ég algjör heimalningur – þarna var Claudia Roden, sem er gyðingur uppalin í Egyptalandi en hefur lengi búið í London, bresk kona sem hefur búið í Tyrklandi í 40 ár, írakskur gyðingur búsettur í Bretlandi, bandarísk gyðingakona sem býr í Ísrael, Naomi Duguid, sem er kanadísk en hefur dvalist langdvölum í ýmsum Asíulöndum við matarrannsóknir og skrif – og svo ég.
Svo kom Jeremy Medley frá Infusions4Chefs og sagði frá ýmsum tólum og aðferðum sem kokkar eru að nota – og eru sum hver að verða heimilistæki í auknum mæli; það var til dæmis erindi á ráðstefnunni (ég missti því miður af því) um gífurlegar vinsældir Thermomix-tækisins þarna í miðjunni (öðru nafni Bimby) á Ítalíu en þar hafa selst yfir tvær milljónir slíkra tækja á síðustu árum. Og hér erum við að tala um appírat sem kostar kannski 150.000 krónur; þegar ég sá þetta fyrst varð mér að orði: ,,Getum við plís fengið 2007 áftur – bara smástund?“ Mig langar enn í svona í aðra röndina en ég held samt að ég mundi afar lítið nota það. En það virðist vera á góðri leið með að breyta ítalskri heimilismatargerð.
Svo stýrðu þær Laura Shapiro, Darra Goldstein og Elizabeth Luard fjörugum almennum umræðum þar sem meðal annars var rætt um hvort tækjavæðing matreiðslunnar væri til góðs eða ekki – og um eldhúsáhöld og tæki sem eiga sér árþúsunda sögu (t.d. mortél og stautur) annars vegar og tækniundur eins og Thermomixtækið hins vegar.
Hér eru þær Laura Mason, Cherry Ripe og Helen Saberi að fylgjast með umræðum. Helen og Laura eru ásamt Bee Wilson þær af ráðstefnugestum sem ég hef þekkt lengst, kynntist þeim fyrst fyrir 15 árum eða svo.
Lokamáltíðin var svo eþíópískur hádegisverður.
Þjónustan í borðsal St. Catz gengur alltaf eins og smurð vél og þjónarnir streymdu inn með stóra bakka með eþíópíska flatbrauðinu injera. En þessi drengur stóð smástund og horfði á injera-brauðið eins og hann væri að velta því fyrir sér hvort þetta væri virkilega ætt og hann ætti að setja þetta fyrir gestina; mér fannst svipurinn á honum óborganlegur.
Og svo var komið með wat-kjúkling, höggvinn í bita og maukeldaðan, með harðsoðnum eggjum.
Og svo voru kryddaðir tómatar og paprika, kryddmauk, hrísgrjón og sósa úr ferskosti. Og injera, sem er reyndar meira eins og pönnukaka en brauð. Maður fékk hnífapör en það var mælt með að maður borðaði með höndunum (rifi bita af brauðinu og tæki matinn upp með honum).
Ég hafði samt áhyggjur af því að subba mig allt of mikið út en svo leit ég á sessunaut minn, sem var Caroline Conran, og hún hafði greinilega ekki minnstu áhyggjur – og hún ætti nú að kunna sig … Ég held samt að ég hafi ekki farið alveg eins pent að þessu og hún.
Eftirrétturinn var sérlega góður kaffiís – kannski ekkert mjög eþíópískur en kaffi er jú upprunnið í Eþíópíu.
Já, og svo var eþíópískur bjór, merkilega góður.
Svo voru nokkur erindi eftir matinn – ég hlustað meðal annars i á Charles Perry tala um hlutverk ilmefna í arabískum miðaldaveislum. Perry er sérfræðingur í fornri arabískri og persneskri matargerð og var lengi matarritstjóri Los Angeles Times en var áður blaðamaður á Rolling Stone og bjó eitt sinn í kommúnu með Augustus Owlsley Stanley (gaurnum sem sá hippunum í Haight-Ashbury fyrir LSD) og skrifaði stórskemmtilega grein um hann. En það voru nú allt öðruvísi efni sem hann var með þarna.
Svo lauk ráðstefnunni eins og alltaf með því að það var kosið um hvert umfjöllunarefnið/þemað ætti að vera eftir þrjú ár og eftir harða samkeppni var ákveðið að ráðstefnan 2017 mundi snúast um Offal and Bones. Það líst mér vel á, ég sé jafnvel fyrir mér ýmislegt sem ég gæti kannski haldið erindi um þar.
Þetta var afskaplega gaman allt. En ég var svo í tvo daga í viðbót í Oxford og þótt þeir væru alveg lausir við matarumræður borðaði ég helling af góðum mat – segi meira frá því fljótlega.
Þetta er ótrúlega skemmtilegt og spennandi. Þú ert þjóðargersemi Nanna. Vona að það sé nú þegar farið að gera ráð fyrir þínum fræðum á bás í Þjóðminjasafninu. Annað væri ekki við hæfi.
Ég er örugglega partur af þjóðmenningunni og þar með á ábyrgð Sigmundar Davíðs.