Á matarráðstefnu í Oxford – fyrri hluti

Ég hef ekkert skrifað að undanförnu þar sem ég var ekki á landinu – var í Oxford á ráðstefnu, Oxford Symposium on Food & Cookery, sem ég hef sótt undanfarin fjögur ár og finnst alltaf jafngaman. Og nú ætla ég reyndar ekki að koma með uppskrift, heldur setja inn nokkrar myndir frá ráðstefnunni – aðallega þó af matnum sem þar var borinn fram því þarna eru jafnan tveir kvöldverðir og tveir hádegisverðir þar sem bornar eru fram alls kyns kræsingar, oftast tengdar þema ráðstefnunnar á einhvern hátt en þó ekki alltaf.

Þarna er fluttur fjöldi erinda sem oft kalla á líflegar og skemmtilegar umræður, stundum er boðið upp á mjög áhugavert smakk (sumir tala enn um þorramatinn sem ég bauð upp á í tengslum við erindi um þorrablót sem ég var með í hitteðfyrra) og svo hittir maður alls konar fólk, myndar tengsl, fær hugmyndir – þetta er bara afar skemmtilegur vettvangur fyrir matarsérvitringa. Þarna eru hámenntaðir fræðimenn á ýmsum sviðum innan um matreiðslubókahöfunda, sagnfræðinga, grúskara og bara fólk með áhuga á mat. Svo að fyrir mig er þetta alveg einstaklega skemmtilegt og ég sé mest eftir að hafa ekki gert alvöru úr því löngu fyrr að fara að sækja ráðstefnuna. Hún hefur verið haldin árlega í 32 ár og það var vinur minn, Alan heitinn Davidson, sem var frumkvöðullinn. En ráðstefnan var alltaf haldin í október, sem var óheppilegur tími fyrir mig. Fyrir fjórum árum var hún færð yfir í júlíbyrjun og síðan þá hef ég mætt. Og held örugglega áfram að mæta.

Þemað í ár var ,,Material Culture“ sem má auðvitað túlka á ýmsa vegu en var skilgreint mjög vítt sem ,,allt sem tengist mat en ekki maturinn“ og þarna var mikið fjallað um ýmis tól og áhöld sem notuð eru við tilbúning, framleiðslu og neyslu á mat, mismunandi matreiðsluaðferðir, áhrif heimilistækja á matargerð – semsagt þarna var fjallað um allt frá sex þúsund ára gömlum leirkerjum til þrívíddarútprentana af mat.

Hérna ætla ég samt aðallega að setja myndir af matnum sem borinn var fram.

IMG_5726

Eftir setningu og upphafserindi ráðstefnunnar á föstudeginum var boðið upp á ,,mat í túbum“ – fólk var hvatt til að koma með sýnishorn af einhverju ætilegu frá sínu heimalandi sem selt er í túbum og þar kenndi sannarlega margra grasa. Hér má sjá hluta af því sem var í boði en alls ekki allt. Ég ætlaði að koma með eitthvað en svo virðist sem ekkert sé framleitt hér í túbum lengur, allavega ekki fyrir innanlandsmarkað. Svo gat maður smakkað túbumatinn. Þar var ýmislegt gott en sumt síður …

IMG_5819

En svo var komið að fyrsta kvöldverðinum. (Það skal tekið fram að lýsingin í borðsalnum á St. Catz hentar ekki sérlega vel til matarljósmyndunar.)

IMG_5752

Kryddverslun kom við sögu á ráðstefnunni og þema kvöldverðarins var krydd. Það er alltaf fenginn þekktur kokkur til að sjá um að minnsta kosti einn málsverðinn og að þessu sinni var það Stevie Parle á The Dock Kitchen (hefur einhver séð sjónvarpsþáttinn hans, The Spice Trip?).

IMG_5757

Forrétturinn var salat (spergill, radísur, gúrkur, hestabaunir, tómatar og ananans) og svo fylgdi mortél og bakki með kryddi svo fólk gæti gert salatsósuna sjálft.

IMG_5769

Ég stráði kryddblöndu sem einn borðfélagi minn útbjó yfir hluta af salatinu en setti svo ögn af hverri kryddtegund um sig á diskbarminn til að smakka með salalatinu svo ég gæti betur fundið bragðið af hverju um sig og hvað það gerði fyrir grænmetið og það var mjög áhugavert að prófa bragðlaukana þannig. Þarna er (minnir mig) kummin, kóríanderfræ, chili, asafoedita (djöflatað), kardimomma, kanell og … eitt enn sem er alveg stolið úr mér hvað var.

Stevie Parle var eitthvað að tala um að þetta væri kannski ekki nógu spennandi forréttur en ég var alveg ósammála, þvert á móti.

IMG_5774

Þá var komið að aðalréttinum, sem var með miðausturlenskum svip; fyrst voru borin á borð stór föt með bökuðum eggaldinum …

IMG_5778

… og freekeh – ég hélt fyrst að þetta væri bygg en freekeh eru óþroskuð hveitifræ sem eru meðhöndluð á ákveðinn hátt og síðan soðin og krydduð.

IMG_5782

Og svo kom kjötið, velskur lambabógur, kryddaður með sjö mismunandi kryddtegundum (ekki viss en hugsa að það hafi verið meira og minna þær sömu og fylgdu með salatinu) og granateplasírópi. Hægeldaður og nánast hægt að borða með skeið. Nokkuð ljúft. Og með þessu var svo tahinisósa.

IMG_5793

Svo var komið með bakka með sykri, kardimommukornum og rósablöðum …

IMG_5805

… sem sessunautur minn, danski matarsagnfræðingurinn Bi Skaarup, réðist af miklu kappi á með mortél og staut að vopni …

IMG_5812

… og svo stráðum við þessu yfir ljómandi góðan hrísgrjónagraut með kirsiberjum.

Svo var setið og spjallað langt fram eftir kvöldi – utandyra, enda veðrið frábært. Annað en í fyrra, þegar hellirigndi eiginlega allan tímann og grasflatirnar voru gegnsósa.

IMG_5840

Að loknum morgunverði á laugardegi hófst dagskráin á því að Bee Wilson flutti skemmtilegt erindi um ýmislegt tengt borðbúnaði, svo sem sporks (veit ekki hvað maður á að kalla það á íslensku, spaffla?) – Bee, sem ég heimsótti einu sinni í Cambrigde með Alan Davidson, er m.a. höfundur bókarinnar Consider the Fork og klæddist viðeigandi bol meðan hún flutti erindið. Ég veit ekki hvað maður þarf að vera mikill nörd til að skilja brandarann … ,,Spork, I’m your father“.

IMG_5866

Og svo hlustaði ég á tvö áhugaverð erindi um hvað hægt er að lesa um notkun og sögu borðbúnaðar úr gömlum málverkum, til dæmis – þessu hafði ég aldrei pælt í – hvernig borðaði fólk spaghettí áður en gafflar komu til sögunnar?

IMG_5861

Og hér má sjá borðbúnað og borðsiði (og ýmislegt fleira) í frönsku vændishúsi á miðöldum.

IMG_5884

Hádegisverðurinn á laugardeginum var líka miðausturlenskur. Ekki kvarta ég yfir því, þetta er eiginlega mín uppáhaldsmatargerð.

IMG_5891

Og þetta var allt saman alveg sérlega gott. Ég hefði satt að segja getað borðað töluvert meira af þessu.

IMG_5899

En það varð að vera pláss fyrir eftirréttinn, baklava með ferskum ávöxtum.

IMG_5904

Þetta var nú alveg ágætt. Mann langar ekkert til að standa upp frá svona málsverði en það voru áhugaverð erindi framundan – verst að hluta af tímanum er verið að flytja þrjú erindi samtímis, sitt í hverjum sal, og maður þarf að velja og hafna og stundum eru tvö eða fleiri erindi sem maður vill helst ekki missa af á sama tíma.

IMG_5918

En ég sá ekkert eftir því að hafa farið að hlusta á Ken Albala segja frá vangaveltum sínum um framtíð mataráhalda og borðbúnaðar og tilraunum sínum í leirkerasmíði (sem er hitt áhugamálið hans) til að finna upp ný matarahöld (sem reyndust sum þegar upp var staðið náttúrlega hafa verið fundin upp fyrir mörg þúsund árum).

IMG_5930

Og strax á eftir honum kom fornleifafræðingurinn Emilie Sibbesson og talaði um mataráhöld sem fundist hafa við fornleifauppgröft í Oxfordskíri – þetta brot er áreiðanlega elsta ílát sem ég hef snert á, um 6000 ára gamalt.

IMG_5937

Og svo skaust ég yfir í næsta sal að hlusta á James Bond og Q – eða reyndar Len Fisher og Janet Clarkson – útskýra muninn á hristu og hrærðu.

Og svo var fullt af fleira skemmtilegu stöffi. En afgangurinn af ráðstefnunni bíður þar til í næstu færslu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s