Þegar ég er að elda eitthvað sem ég ætla að setja hér inn – og ég tala nú ekki um ef ég er að hugsa um að nota það í bók – þá reyni ég auðvitaða að mæla allt sem á annað borð er mælt sem nákvæmast og gefa vísbendingu um magn/stærð annars; segi lítill laukur eða stórt egg, til dæmis (ef ekkert er tiltekið má gera ráð fyrir að átt sé við meðalstórt eintak – en svo er spurning hvað er meðalstórt og hvernig á að meta það …).
Ég reyni að forðast óstaðalaðar einingar eftir bestu getu, vil ekki segja t.d. 1 askja jarðarber (öskjurnar eru misstórar) eða 1 dós hrein jógúrt (hún er kannski 180 ml núna en hver veit, eftir 10 ár verður algengasta stærðin kannski 250 ml eða eitthvað annað). En auðvitað eru undantekningar frá þessu; ég tala t.d. oft um knippi af kryddjurtum og veit vel að það er mjög óljós eining – en kryddjurtir er hvort eð er ekki hægt að mæla nákvæmlega nema eftir vigt og ég veit ekki hvort skynsamlegt væri að fara að tala um 14 grömm af basilíku eða eitthvað slíkt – það er líka alltaf bara smekksatriði hvað á að nota mikið.
Bollamál er heldur ekki staðlað hérlendis og ég vil alls ekki nota þá mælieiningu því ég hef komist að því í gegnum tíðina að skilgreining fólks á hvað 1 bolli er mikið eru ákaflega misjafnar; ég hef á hérlendum miðlum og spjallþráðum séð allt frá 150 ml upp í 250 ml. Og það getur augljóslega skipt miklu, ekki síst í kökuuppskriftum. Ég fékk einhverjar uppskriftir frá mömmu þar sem mælt var í bollum og eftir að hafa klúðrað nokkrum kökum fór ég og mældi bollann sem ég vissi að hún notaði alltaf við bakstur; hann reyndist taka 180 ml, ef ég man rétt, en ég hafði verið að nota amerískan mælibolla (237 ml). Ég umreiknaði þá uppskriftirnar frá mömmu yfir í grömm og hef notað þær þannig síðan.
Maður vill nú reyna að gefa fólki upplýsingar sem hægt er að treysta á. En þegar ég er bara að gera eitthvað fyrir sjálfa mig sem ekki er hugsað til birtingar neinstaðar mæli ég ekkert endilega og reyndar finnst mér mjög gaman að baka kökur án nokkurra mælitækja, slumpa og leyfa tilfinningunni að ráða. Maður er nú með nokkurn veginn nothæf hlutföll í kollinum eftir áratuga reynslu – en auðvitað kemur fyrir að útkoman verður ekki alveg sú sem stóð til. En (oft) vel nothæf samt.
Ég bakaði mér banana-kotasælulummur í morgun og var lítið að mæla því þær áttu svosem ekkert að fara hingað inn. Samt myndaði ég þær nú og svo varð úr að setja uppskriftina hér – en hún er með fyrirvörum, ég er reyndar nokkurn veginn viss um hlutföllin nema helst hveitið. En það gerir ekki mikið til því þá er bara að setja ekki of mikið í fyrstu atrennu, bara hægt að bæta við meiru ef soppan er of þunn. Svo er þetta mjög breytanleg uppskrift, ég hef til dæmis sleppt mjólkinni alveg en bætt við einu eggi eða tveimur í staðinn.
Ég byrjaði á að setja u.þ.b. 200 ml af kotasælu, 100 ml af mjólk og 1 egg í skál og hræra saman.
Svo setti ég … tja, kannski 80-100 g? af hveiti út í, ásamt 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af salti og 1 msk af sykri (má sleppa). Eins og ég sagði er ég alls ekki viss með hveitið og það má vel vera að það hafi verið meira en ég mundi byrja á svona 80 g, ekkert mál að bæta við.
Ég bætti líka við 1/2 tsk af vanilluessens og hrærði þetta saman (best að hræra þó ekki meira en þarf). Soppan á að vera þykkfljótandi.
Svo flysjaði ég bananana – sem voru vel þroskaðir og ilmandi og hýðið farið að dökkna – setti þá á disk og grófstappaði með gaffli. Þeir eiga að vera mjög grófir, alls ekki setja þá í matvinnsluvél. (Eða auðvitað er það ekki bannað en ef þeir eru maukaðir koma bara allt öðruvísi lummur út.) Svo blandaði ég þeim lauslega saman við soppuna.
Ég hitaði olíu (nokkrar matskeiðar) á pönnu og setti litla klatta á hana með matskeið. – Þetta er mjög lítil panna svo lummurnar eru minni en þær gætu virst vera en auðvitað má hafa þær stærri. Þær eru langbestar alveg nýsteiktar svo ég var ekki að steikja fleiri en ég ætlaði að borða með morgunkaffinu. Afgangurinn af soppunni geymist alveg í ísskápnum í nokkra klukkutíma og ég ætla að athuga hvort hún verður ekki vel nothæf í fyrramálið svo ég fái nýsteiktar lummur þá líka. Hey, ég er í sumarfríi …
Ég steikti lummurnar rólega við vægan hita, kannski í svona 4 mínútur áður en ég sneri þeim og steikti heldur skemur á hinni hliðinni.
Mér finnst hreint ekkert þurfa með þessum lummum en ef einhver vill hella yfir þær sírópi eða hafa ís eða eitthvað með er það ábyggilega ekki alveg út í hött …
Þarf að hafa um það fleiri orð?
Banana-kotasælulummur
2 vel þroskaðir bananar
200 ml kotasæla
100 ml mjólk
1 egg (má nota fleiri egg og sleppa mjólkinni)
1/2 tsk vanilluessens (má sleppa)
80 -100 g hveiti (held ég)
1 msk sykur (má sleppa)
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
olía til steikingar