Rabarbarapítsa

Eitthvað verður að gera með allan þennan rabarbara.

Og þegar ég var að fletta í gegnum myndasafnið mitt rakst ég á myndir af vínberjabrauði sem er ári gott og datt í hug hvort það væri ekki kannski hægt að gera eitthvað svipað með rabaarbara. Ég átti einmitt gerdeig í leirkrukku í ísskápnum sem hentaði í svoleiðis, bara hveiti, ger, vatn og salt, heldur þykkara en ég hef svoleiðis deig oftast svo það var hægt að hnoða það og fletja það út.

Svo að ég ákvað að prófa að baka rabarbarabrauð. Eða eiginlega hálfgerða rabarbarapítsu.

IMG_5450

Ég tók hluta af deiginu, hæfilega mikið í eins og einn pítsubotn. Deig sem tekið er úr ísskáp þarf lengri tíma til að lyfta sér en annað svo ég tók það um 40 mínútum áður en brauðið átti að fara í ofninn.

IMG_5452

Flatti það út frekar þunnt í hring (eða nokkurn veginn, ég skal alveg játa að það eru til fallegri hringir), setti það á bökunarplötu og lét það lyfta sér í 20 mínútur. Ég er þarna með sílikonmottu undir því en það var nú bara af því að ég átti engan bökunarpappír.

IMG_5455

Eftir 20 mínútur kveikti ég á ofninum, stillti hann á 225°C, og skar niður 2-3 rabarbaraleggi í svona 1 1/2-2 cm bita. Það er fallegra að nota frekar rauðan rabarbara en ekki nauðsynlegt.

IMG_5456

Svo dreifði ég bitunum jafnt á deigið og lét kúptu hliðina snúa upp. Lét deigið svo lyfta sér í aðrar 20 mínútur.

IMG_5459

Ég þrýsti hverjum bita nokkuð vel niður í deigið til að festa hann. Ég hef grun um að ef rabarbarabitnum er bara dreift á deigið færist þeir til þegar deigið fer að lyfta sér og sumir renni jafnvel út af. Og deigið lyftir sér meira ef bitunum er ekki þrýst niður en í þessu tilfelli er betra að lyftingin sé ekki mjög mikil.

IMG_5462

Þegar kom að því að deigið færi í ofninn ýrði ég dálítilli ólífuolíu (kannski 2 msk) fremur jafnt yfir.

IMG_5465

Svo saxaði ég blöð af einni rósmaríngrein smátt og dreifði yfir. Það má líka alveg sleppa rósmaríninu en það gefur pítsunni skemmtilegt bragð og á vel við rabarbarann.

IMG_5467

Að lokum stráði ég 2-3 msk af sykri yfir allt saman. Setti svo pítsuna í miðjan ofninn og bakaði hana í 18-20 mínútur.

IMG_5472

Kantarnir ættu að vera fallega dökkgullinbrúnir (en ekki brunnir) með stökkri skorpu og rabarbarinn mjúkur og farinn að taka lit.

IMG_5481

Og svo er bara um að gera að skera sér sneið af heitri pítsunni og prófa. – Yfirborðið í miðjunni gæti virst óbakað við fyrstu sýn en er það í raun ekki, olían og sykurinn ásamt safa úr rabarbaranum gera hana bara blautari þar.

IMG_5487

Jú, hún var bara ári góð líka.

Rabarbarapítsa

deig í eina pítsu

2-3 rabarbaraleggir

1-2 msk ólífuolía

nálar af 1 rósmaríngrein

2-3 msk sykur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s